Sænsk Sænska skyttan Sara Odden úr Haukum sækir að vörn Stjörnunnar í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handbolta í gær.
Sænsk Sænska skyttan Sara Odden úr Haukum sækir að vörn Stjörnunnar í fyrsta leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í handbolta í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Haukar og ÍBV eru í góðum málum eftir örugga heimasigra í fyrstu leikjum úrslitakeppninnar á Íslandsmóti kvenna í handbolta í gærkvöldi. Þurfa þau einn útisigur til viðbótar til að fara í undanúrslit og mæta Fram og Val

Handboltinn

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Haukar og ÍBV eru í góðum málum eftir örugga heimasigra í fyrstu leikjum úrslitakeppninnar á Íslandsmóti kvenna í handbolta í gærkvöldi. Þurfa þau einn útisigur til viðbótar til að fara í undanúrslit og mæta Fram og Val.

Haukakonur léku á als oddi gegn nágrönnum sínum í Stjörnunni á Ásvöllum. Urðu lokatölur eftir ójafnan leik 36:23.

Haukaliðið lék virkilega vel í leiknum, bjó sér til góð færi nánast í hverri einustu sókn og gerði Stjörnuliðinu erfitt fyrir hinum megin með góðri markvörslu og varnarleik.

Elín Klara Þorkelsdóttir var eins og svo oft áður markahæst hjá Haukum með níu mörk og virtist hafa lítið fyrir því. Hún var alls ekki ein að verki því Inga Dís Jóhannsdóttir og Sara Katrín Gunnarsdóttir léku einnig mjög vel og yngri og óreyndari leikmenn sáu til þess að Haukaliðið hélt áfram að bæta í allt til loka. Þá varði Margrét Einarsdóttir 14 skot í markinu og úr fjölmörgum dauðafærum.

Helena Rut Örvarsdóttir bar Stjörnuliðið á herðum sér og skoraði tíu mörk, en hún þurfti meiri hjálp frá liðsfélögum sínum. Eva Björk Davíðsdóttir skoraði fimm mörk en aðrir leikmenn voru með tvö mörk eða minna. Stjarnan þarf framlag frá fleiri leikmönnum til að eiga möguleika á heimavelli á mánudag.

Línumennirnir í stuði

Sigur ÍBV á ÍR var ekki ósvipaður, en lokatölur í Vestmannaeyjum urðu 30:20. ÍR-ingar komu skemmtilega á óvart í vetur með því að vera aldrei í fallbaráttu, þrátt fyrir að vera nýliðar. Þá er það gott afrek að komast í úrslitakeppnina.

Útileikur gegn sterku liði ÍBV reyndist liðinu hins vegar of stór biti. ÍBV er með reynt lið, sem lék til úrslita á síðustu leiktíð. Góður útileikmenn dældu boltanum á línuna, þar sem Elísa Elíasdóttir og Ásdís Guðmundsdóttir voru eins og drottningar í ríki sínu. Voru þær markahæstar hjá ÍBV með sjö mörk hvor. Þá varði Marta Wawrzynkowska 15 skot í markinu og dró tennurnar úr óreyndu ÍR-liði. Hvernig sem fer á mánudagskvöld í Breiðholtinu geta ÍR-ingar verið stoltir af tímabilinu, en Eyjakonur ætla sér alla leið.