Í þingumræðunum 10. apríl skýrðist að í stjórnarandstöðunni er enginn flokkur sem hefur tveggja kjörtímabila úthald til samstarfs um framkvæmd stefnu nýju Samfylkingarinnar.

Vettvangur

Björn Bjarnason

bjorn@bjorn.is

Í vikunni sannaðist enn einu sinni að stjórnarskrá lýðveldisins Íslands dugar vel sem umgjörð um óvenjuleg tilvik. Í tæplega áttatíu ára sögu lýðveldisins gerðist það nú í fyrsta sinn að sitjandi forsætisráðherra baðst lausnar fyrir sig og ráðuneyti sitt til að bjóða sig fram í forsetakosningum.

Lausnarbeiðni forsætisráðherra má yfirleitt rekja til pólitískra atvika, að ríkisstjórnin hafi misst meirihluta sinn í þingkosningum eða ágreiningur hafi orðið milli flokka sem standa að baki samsteypustjórn. Hitt hefur einnig gerst að forsætisráðherra biðjist lausnar vegna veikinda eða samið sé um stólaskipti.

Þegar Davíð Oddsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, myndaði fjórða ráðuneyti sitt 23. maí 2003 (þriðja ráðuneytið með Framsóknarflokknum) sömdu þeir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, um að Halldór tæki við sem forsætisráðherra 15. september 2004.

Vorið og sumarið 2004 voru mjög hörð pólitísk átök vegna deilna um fjölmiðlafrumvarpið svonefnda, það er um eignarhald á fjölmiðlum. Baugsmenn, auðmenn sem þá áttu Fréttablaðið sáluga, brugðust ókvæða við frumvarpinu og stofnuðu til mikils samblásturs gegn því. Andstæðingar frumvarpsins lögðu hart að Ólafi Ragnari Grímssyni, forseta Íslands, að synja því og knýja þannig fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Forseti batt enda á dvöl erlendis til að verða við tilmælunum. Ríkisstjórnin ákvað að afturkalla lagatextann. Varð hann aldrei borinn undir þjóðina.

Davíð Oddsson veiktist aðfaranótt 21. júlí 2004 og stjórnaði ekki ríkisstjórnarfundi að nýju fyrr en 11. september 2004. Þá var strax tekið til við að undirbúa framkvæmd á samkomulagi þeirra Davíðs og Halldórs og 15. september 2004 myndaði Halldór ráðuneyti sitt eftir að Davíð hafði beðist lausnar fyrir sig og sitt ráðuneyti. Davíð varð utanríkisráðherra í ráðuneyti Halldórs til 27. september 2005.

Það eru því tvö dæmi frá þessari öld um hvernig staðið er að breytingum á forystu í ríkisstjórn þar sem flokkar ákveða að starfa saman án tillits til þess í hlut hvers flokks embætti forsætisráðherrans fellur.

Í báðum tilvikum hafa elstu flokkar þjóðarinnar, Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur, átt hlut að máli. Flokkar þar sem innri starfshættir hafa mótast á mörgum áratugum í anda lýðræðis og virðingar fyrir samþykktum leikreglum og þar með stjórnarskrá lýðveldisins.

Nú hafði þriðji stjórnarflokkurinn, Vinstrihreyfingin – grænt framboð (VG), frumkvæði að breytingu á ríkisstjórninni. Forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir tilkynnti forsetaframboð sitt föstudaginn 5. apríl og baðst lausnar 7. apríl. Þremur dögum síðar, miðvikudaginn 10. apríl, flutti nýr forsætisráðherra, Bjarni Benediktsson, yfirlýsingu nýrrar ríkisstjórnar sömu stjórnmálaflokka á alþingi.

Án tillits til þess hvaða mælikvarða menn nota til að meta viðbrögð stjórnarflokkanna við þessar aðstæður hlýtur niðurstaðan að verða sú að hér sé skilvirk, samstillt stjórn sem starfar í anda þess stöðugleika sem hún boðar.

Forsætisráðherra sagði að í efnahagsmálum væri stefnt að verðbólgu undir 4% á árinu eins og seðlabanki setti sem markmið. Orkuöflun yrði aukin. Samþykkt yrðu frumvörp um innflytjendamál sem liggja fyrir þinginu og haldið áfram að afmá sérstöðu Íslands í útlendingamálum. Frumvarp um umbætur á örorkulífeyriskerfinu yrði samþykkt.

Formenn Framsóknarflokksins, Sigurður Ingi Jóhannsson, og VG, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, staðfestu vilja sinn og flokka sinna til að ljúka ofangreindum verkefnum og eiga samstarf til loka kjörtímabilsins í september 2025.

Umræðurnar um yfirlýsingu forsætisráðherra leiddu í ljós muninn á stjórnarflokkunum þremur og stjórnarandstöðuflokkunum fimm, af þeim er Miðflokkurinn minnstur með tvo þingmenn, Viðreisn hefur fimm þingmenn en Samfylking, Flokkur fólksins og Píratar eiga sex þingmenn hver.

Viðhorf andstöðuflokka ríkisstjórnarinnar einkennast af því að um smáflokka er að ræða. Það skilur Samfylkinguna frá hinum fjórum að hún er undir nýrri forystu sem telur sig búa yfir hæfni til að skapa nýja Samfylkingu.

Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, áréttaði nýju stefnuna í ræðu sinni um yfirlýsingu forsætisráðherra og sagðist tala fyrir hönd fólksins í landinu.

Hún krafðist árangurs af ríkisstjórninni og hún sagði: „Þetta hefur gengið allt of lengi [hjá stjórninni] og þess vegna hefur Samfylkingin gætt þess að halda því kirfilega til haga að það mun taka sinn tíma að koma Íslandi aftur á rétta braut. Það mun taka tvö kjörtímabil í öruggum skrefum.“ Miðað við kosningar árið 2025 og vonir Samfylkingarinnar um góð úrslit þá stefnir Kristrún á framkvæmd stefnu sinnar fyrir árið 2033.

Það er augljós þverstæða að Kristrún heimti skjótan árangur af ríkisstjórninni en sjálf þurfi hún tvö kjörtímabil til að ná því sem hún boðar. Þarna er pottur brotinn.

Þingumræðurnar 10. apríl stóðu í tvo og hálfan tíma og drógu fram skilin milli þess sem raunverulega gerist í stjórn landsins og þess sem setur mestan svip á umræður í fjölmiðlum.

Handhafar dagskrárvalds í ljósvakamiðlum fara sjaldan í saumana á orðum stjórnmálamanna um hvert stefnir eða til að greina stóru línurnar þegar þingmenn tala hver við annan í þingsalnum.

Í umræðunum 10. apríl skýrðist að í stjórnarandstöðunni er enginn flokkur sem hefur tveggja kjörtímabila úthald til samstarfs um framkvæmd stefnu nýju Samfylkingarinnar. Ríkisstjórnarflokkarnir hafa undirtökin.