— Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hver ert þú? Ég er æfingamanískur gítarleikari sem fann leið til að selja gítarleik í gegnum uppistand og gleði. Það blundaði alltaf í mér að prófa uppistand en ég ætlaði alltaf að verða gítarhetja. Þegar ég lét verða af því að prófa uppistand gat ég blandað þessu saman

Hver ert þú?

Ég er æfingamanískur gítarleikari sem fann leið til að selja gítarleik í gegnum uppistand og gleði. Það blundaði alltaf í mér að prófa uppistand en ég ætlaði alltaf að verða gítarhetja. Þegar ég lét verða af því að prófa uppistand gat ég blandað þessu saman. Tónlistin varð því að margvíslegu grínefni. Ég syng grínlög þar sem hver hending er í raun brandari og þannig verður tónlistin rammi utan um uppistandið. Svo geri ég líka grín að djassi sem má muna fífil sinn fegri auk þess að draga fram í sviðsljósið alls kyns tónlistarstíla og gera grín að þeim.

Snýst allt grínið í kringum tónlist?

Nei, inni á milli er ég með grín um lífið og tilveruna, en mér líður alltaf best með gítarinn minn. Þetta er eins og að vera með vin sinn eða hundinn sinn hjá sér.

Hvað vinnur þú við dagsdaglega?

Ég vinn mest við uppistand en er líka að leiðsegja. Ég er menntaður forritari og hef verið með stóru tána í forritun líka en ég er bara svo félagslyndur og hef svo gaman af fólki, að það er skemmtilegra að vera „gæd“ í hjáverkum heldur en forritari í hjáverkum. Það er nóg að gera í uppistandinu, sérstaklega yfir þessa árshátíðarmánuði, en ég kem fram sem uppistandari, gítarleikari eða veislustjóri. Það er frábært sem veislustjóri að hafa gítarinn og geta tekið fjöldasöngsatriði. Það er kærkomið mótvægi við grínið þegar stemningin kallar á eitthvað annað.

Ætlaðir þú alltaf að verða frægur trúbador eða hvað var planið?

Nei, ég ætlaði alltaf að verða frægur gítarleikari í rokksveit. Reyndar í Iron Maiden og var búinn að læra öll sólóin. En þeir hringdu aldrei. En ég held enn í vonina. Á meðan er ég gítarspilandi uppistandari.

Andri Ívarsson kryfur mannlífið á einstakan hátt með sprenghlægilegu uppistandi þar sem gítarinn og tónlist gegna mikilvægu hlutverki. Andri er með sýningar á Café Rosenberg 18. og 25. apríl kl. 20.30. Miðar fást á tix.is.