Spennandi „Nokkur augnablik um nótt er spennandi frumraun hjá Ólafi [Agli Egilssyni] þó myndin sé ekkert kvikmyndaafrek,“ segir í rýni. Meðal leikara eru Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson.
Spennandi „Nokkur augnablik um nótt er spennandi frumraun hjá Ólafi [Agli Egilssyni] þó myndin sé ekkert kvikmyndaafrek,“ segir í rýni. Meðal leikara eru Ebba Katrín Finnsdóttir og Hilmar Guðjónsson.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
RÚV Nokkur augnablik um nótt ★★★·· Leikstjórn: Ólafur Egill Egilsson. Handrit: Adolf Smári Unnarsson. Aðalleikarar: Björn Thors, Ebba Katrín Finnsdóttir, Hilmar Guðjónsson og Vigdís Hrefna Pálsdóttir. 2024. Ísland. 109 mín.

Kvikmyndir

Jóna Gréta

Hilmarsdóttir

Nokkur augnablik um nótt er frumraun Ólafs Egils á kvikmyndasviðinu en myndin er byggð á samnefndu leikriti eftir Adolf Smára Unnarsson sem var sýnt í Þjóðleikhúsinu árið 2022. Myndin gerist á einu fallegu sumarkvöldi uppi í sumarbústað þar sem Björk (Ebba Katrín Finnsdóttir) er að kynna nýja kærastann, Óskar (Hilmar Guðjónsson), fyrir eldri systur sinni Ragnhildi (Vigdís Hrefna Pálsdóttir) og manninum hennar, Magnúsi (Björn Thors). Persónusköpunin er mjög sterk í myndinni en áhorfendur þekkja um leið týpurnar sem birtast þeim á skjánum. Strax út frá klæðaburðinum má sjá að systurnar eru ólíkar, Ragnhildur lítur út fyrir að kaupa öll sín föt í fatabúðinni Geysi á meðan Björk klæðir sig enn þá eins og táningur. Ragnhildur er með allt á hreinu, hún stefnir inn á þing og er gift inn í efnaða fjölskyldu. Aftur á móti er Björk söngkona í hljómsveit sem er alltaf við það að slá í gegn og er fyrir utan það frekar stefnulaus. Það sem er á yfirborðinu, pólitískar skoðanir og ólíkar lífsbrautir, er hins vegar ekki það eina sem skilur þær að heldur eru gömul sár í þeirra sambandi sem hafa aldrei fengið að gróa. Öll þau gömlu sár koma upp á yfirborðið í bústaðarferðinni en systurnar eru ekki þær einu í bústaðnum með leyndarmál.

Kvikmyndin er í raun eins og frumleg upptaka af leikriti að því leyti að hún er ekki kvikmyndaleg mynd. Sagan kemst til skila í gegnum samtölin en ekki í gegnum það sem áhorfendur sjá á skjánum, sem er mjög leikhúslegt. Þetta þarf ekki endilega að vera ókostur, samtölin eru mjög áhugaverð og leikararnir kom þeim vel til skila. Þrátt fyrir að myndin sé í raun aðeins eitt langt samtal var undirrituð límd við skjáinn nánast allan tímann og er það að miklu leyti leiknum að þakka. Ólafur gerir hins vegar tilraunir til þess að slíta sig frá leiklistarforminu og láta áhorfendurna vita að um sé að ræða kvikmynd. Dæmi um það eru svarthvítu atriðin en þau þjóna ekki skýrum tilgangi í sögunni og taka þannig áhorfendur út úr spennunni. Í myndinni eru líka mörg dæmi um stökkklippingu (e. jump cut) sem verða mjög áberandi samhliða tiltölulega löngu skotunum í myndinni. Þessar kvikmyndatilraunir, þ.e. stökkklippingin og svarthvítu atriðin, eru truflandi af því að tilgangur þeirra er ekki skýr og þau eru ekki í takt við restina af myndinni sem er frekar einföld. Það er kannski kaldhæðnislegt en það sem verður myndinni að falli er í raun það sem gerir hana kvikmyndalega. Ef Ólafur hefði farið alla leið í tilraunamennskunni hefði þetta kannski gengið en í myndinni eru tilraunirnar aðeins truflandi. Ólafur gengur reyndar lengra í tilraunamennskunni í síðasta kafla myndarinnar eflaust til þess að reyna að gera hann áhugaverðari, en það tekst ekki. Endirinn er því miður frekar fyrirsjáanlegur og einfaldur hjá handritshöfundinum Adolf Smára og er það helsti galli sögunnar sem er á heildina litið sterk.

Nokkur augnablik um nótt er spennandi frumraun hjá Ólafi þó myndin sé ekkert kvikmyndaafrek. Hins vegar er vert að nefna það að kvikmyndin var tekin upp á rúmlega viku en það er ágætt afrek að ná að skjóta heila bíómynd á svo stuttum tíma. Þessi takmarkaði tími bitnar hins vegar án efa á myndinni. Myndin er þó þess virði að sjá þrátt fyrir galla hennar og Ólafi tekst að halda spennunni á milli persónanna nánast allan tímann þrátt fyrir að lítið annað gerist en að persónurnar tala saman sem er aðdáunarvert í sjálfu sér og til marks um hæfileika leikaranna og hæfileika Ólafs sem leikstjóra. Það vantar hins vegar aðeins upp á kvikmyndalegu þættina en um er að ræða gott byrjandaverk og sagan virkar vel sem sjónvarpsmynd.