Grindavík Þórkatla mun kaupa eignir eftir hamfarir í bænum.
Grindavík Þórkatla mun kaupa eignir eftir hamfarir í bænum. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
„Við erum gríðarlega ánægð með að hafa framkvæmt fyrstu kaupin í Grindavík í dag,“ segir Örn V. Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu, eftir að viðskiptin gengu í gegn í gær. Verið er að innleiða rafræna þinglýsingu í fasteignaviðskiptum í fyrsta sinn á Íslandi

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Við erum gríðarlega ánægð með að hafa framkvæmt fyrstu kaupin í Grindavík í dag,“ segir Örn V. Skúlason, framkvæmdastjóri Þórkötlu, eftir að viðskiptin gengu í gegn í gær.

Verið er að innleiða rafræna þinglýsingu í fasteignaviðskiptum í fyrsta sinn á Íslandi.

Til upprifjunar var fasteignafélagið Þórkatla stofnað 27. febrúar sl. og er tilgangur þess að annast kaup, umsýslu og ráðstöfun íbúðarhúsnæðis innan þéttbýlisins í Grindavík, sem keypt verður í samræmi við lög um kaup á íbúðarhúsnæði í Grindavík.

Spurður hvað Þórkatla hafi keypt margar eignir í Grindavík segir Örn að félagið sé að taka fyrstu skrefin. „Við ætlum eftir helgi að gefa frekari upplýsingar um fjölda eigna o.fl. Þetta var um leið ákveðið lokapróf á því kerfi sem við höfum verið að byggja upp og það gekk allt mjög vel.

Hér verður unnið alla helgina við að undirbúa kaup næstu viku og við erum bjartsýn á að það muni ganga vel. Við höfum einsett okkur að komast langt með þetta verkefni í apríl og forsendan fyrir því er að þetta kerfi sem hefur verið í þróun víða standi undir væntingum,“ segir Örn.

Það liggi ekki nákvæmlega fyrir hversu margar umsóknir verði afgreiddar í næstu lotu en borist hafi 675 umsóknir. „Hluti umsókna eru flóknari mál sem munu taka lengri tíma. Við verðum að afgreiða þau fram í maí enda þurfum við að framkvæma nákvæma skoðun eða úttekt. Stór hluti umsókna er hins vegar tiltölulega aðgengilegur og við bindum vonir við að ljúka stórum hluta þeirra í apríl.“

Höf.: Baldur Arnarson