Spilatími Gaman við hljóðfærið í Tónmenntaskóla Reykjavíkur.
Spilatími Gaman við hljóðfærið í Tónmenntaskóla Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hæfileikaríkir krakkar láta heyra hvað í þeim býr og Ísland ómar á Nótunni 2024, uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem haldin verður nú um helgina, með hátíðartónleikum á fjórum stöðum á landinu

Hæfileikaríkir krakkar láta heyra hvað í þeim býr og Ísland ómar á Nótunni 2024, uppskeruhátíð tónlistarskólanna sem haldin verður nú um helgina, með hátíðartónleikum á fjórum stöðum á landinu. Tónlistarskólar landsins eru um 80 talsins og nemendur þeirra um 14.000. Tilgangur hátíðarinnar er að beina kastljósinu að samfélagi skólanna til eflingar ungu tónlistarfólki og menntun þess.

Að Nótunni standa Félag kennara og stjórnenda í tónlistarskólum (FT) og Samtök tónlistarskólastjóra (STS). Nótan hefur verið árlegur viðburður frá árinu 2010. Hátíðin er í senn faglega hvetjandi og skemmtilegt innlegg í skólastarfið fyrir alla aðstandendur skólanna jafnt innan veggja þeirra sem utan, segir Anna Rún Atladóttir, skólastjóri Tónmenntaskóla Reykjavíkur.

Tónlistarskólar á höfuðborgarsvæðinu, á Suðurnesjum og Suðurlandi fagna uppskeru skólaársins með þrennum Nótutónleikum í Salnum í Kópavogi í dag, laugadaginn 13. apríl, sem hefjast kl. 11, 13 og 15. Konserttónleikar Nótunnar, sem haldnir eru í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit áhugamanna, fara fram í sal Allegro Suzuki-tónlistarskólans á Langholtsvegi 109-111 í Reykjavík í dag og hefjst þeir kl. 10 og 11.

Tónleikar tónlistarskóla á Austurlandi verða haldnir í Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði. Skólar á Vesturlandi og Vestfjörðum halda svo sína tónleika í Tónbergi á Akranesi og uppskeru skóla á Norðurlandi verður fagnað í Menningarhúsinu Miðgarði í Varmahlíð í Skagafirði á morgun. sbs@mbl.is