Úti í skógi Maja (t.v.) og Allý með tveimur litlum vinkonum á Vinagarði, Hönnu Láru og Arneyju Maríu. Elstu börnin fá frelsi til að leika sér í skóginum.
Úti í skógi Maja (t.v.) og Allý með tveimur litlum vinkonum á Vinagarði, Hönnu Láru og Arneyju Maríu. Elstu börnin fá frelsi til að leika sér í skóginum. — Morgunblaðið/Eggert
Við þekktumst ekkert þegar við hófum störf með tveggja vikna millibili hér á Vinagarði árið 1984. Við höfum starfað hér saman í þessi fjörutíu ár sem liðin eru, með nokkrum hléum þó,“ segja þær Aðalheiður Sighvatsdóttir og María Jónsdóttir,…

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Við þekktumst ekkert þegar við hófum störf með tveggja vikna millibili hér á Vinagarði árið 1984. Við höfum starfað hér saman í þessi fjörutíu ár sem liðin eru, með nokkrum hléum þó,“ segja þær Aðalheiður Sighvatsdóttir og María Jónsdóttir, kennarar á leikskólanum Vinagarði sem rekinn er af KFUM&K í Laugardalnum í Reykjavík.

„Þá var ég rétt rúmlega tvítug og var að klára leikskólakennaranám,“ segir Maja sem bankaði upp á og fékk starfið, en Allý sem er nokkrum árum eldri, var boðin vinna um svipað leyti. „Sem ég þáði, og sé ekki eftir því, þetta hefur verið góður tími. Hér áður voru flestir starfsmenn leikskólans tengdir kristilegu starfi, núna flestir en ekki allir. Við höfum báðar verið tengdar KFUM&K frá því við vorum unglingar.“

Þær Allý og Maja áttu börnin sín á svipuðum tíma á tíunda áratugnum og gerðu þá hlé á störfum sínum til að sinna þeim.

„Þegar við vorum búnar í fæðingarorlofum ákváðum við að sækja ekki aftur um starf hér, af því að við vissum að þá yrði einhver að víkja fyrir okkur, því það vantaði ekki starfsfólk, og það vildum við ekki. Við störfuðum því á öðrum leikskólum á vegum borgarinnar í nokkur ár, en snerum aftur hingað á sama árinu, 2002, þegar Vinagarður flutti frá Langagerðinu, þar sem hann var til húsa áður, hingað á Holtaveginn. Við höfum verið hér samfellt síðan, eða undanfarin tuttugu og tvö ár.“

Hlýja og væntumþykja

Þær segja góða andrúmsloftið á vinnustaðnum fyrst og fremst vera ástæðuna fyrir því hvers vegna þær hafi starfað svo lengi á Vinagarði sem raun ber vitni.

„Hér er mjög góður starfsandi og frábær starfsmannahópur, lítið um að fólk hætti og nýtt komi í staðinn, en ör starfsmannaskipti eru mikið álag bæði á starfsfólk og börnin. Hér starfar fólk af því að það vill vera hér og sú staðreynd að þetta er kristilegur skóli hefur klárlega áhrif á góða andrúmsloftið. Á Vinagarði er hlýja og væntumþykja alltumlykjandi og við höldum vel utan um hvert annað. Starfsfólk og félagsfólk ásamt fleirum biður fyrir starfinu á Vinagarði, það eru bænastundir á leikskólanum einu sinni í viku þar sem beðið er fyrir börnum og fjölskyldum þeirra. Þetta finnst okkur ótrúlega fallegt og við erum sannfærðar um að það skilar sér inn í starfið okkar.“

Þær segja að skólinn hafi verið minni og fyrirkomulagið annað þegar þær hófu störf árið 1984.

„Þegar leikskólinn var stofnaður var leikskóladeild þar sem börnin dvöldu í fjóra tíma. Við vorum aðeins fimm starfsmenn og auðvitað myndast sterk tengsl á löngum tíma saman í starfi. Til verður dýrmæt vinátta og við sem höfum starfað hér lengst höldum hópinn.“

Þeim Allý og Maju finnst þær vera í nánara sambandi við foreldra barna á Vinagarði núna heldur en áður fyrr, og segja það m.a. koma til af því að núna dvelja börnin hjá þeim allan daginn.

„Við erum einstaklega heppin með foreldra hér á Vinagarði og okkur finnst við ekki síður heppin með barnahópana. Þannig er það á hverju ári.“

Skólinn hefur gott orð á sér

Eitt af því sem þær segja hafa breyst á þeim fjórum áratugum sem liðnir eru frá því þær hófu störf á Vinagarði er að áður fyrr komu fleiri börn frá foreldrum frá kirkjudeildum, en nú komi flest úr hverfinu.

„Vinagarður er því orðinn hverfisskóli, en foreldrar barna sem eru hér hjá okkur hafa margir orð á því að þeim finnist frábært að börnin þeirra fái kristilega fræðslu hér í leikskólanum. Skólinn hefur mjög gott orð á sér í hverfinu og foreldrar treysta okkur fyrir barnahópnum sínum. Börn sem hafa verið hér í leikskólanum hafa sum komið í vinnu til okkar eftir að þau urðu fullorðin, og börn barna sem hafa verið hér koma líka hingað í leikskóla. Það er gaman að fá til okkar börn foreldra sem hafa verið hjá okkur.“

Gott veganesti út í lífið

Þær segjast í sínu starfi kenna eftir aðalnámskrá leikskóla, eins og lög geri ráð fyrir, en börnin fái líka kristilega fræðslu.

„Við leggjum okkur fram um að börnin búi að sinni barnatrú á leiðinni út í lífið. Okkur langar að þau viti að þau eigi Jesú í hjartanu þegar þau útskrifast frá okkur. Að þau geti leitað í sína barnatrú og til Guðs þegar eitthvað bjátar á og líka þegar allt gengur vel. Við viljum að þau geti fundið að Guð sé til, þó þau kveðji Vinagarð. Okkur finnst skipta máli að þau fái það veganesti frá okkur út í lífið, því allar manneskjur lenda einhverntíma í erfiðleikum í lífinu. Þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem við ráðum ekki við, þá er gott að vita að við getum snúið okkur til almættisins. Okkur finnst gríðarlega dýrmætt fyrir börnin að þau hafi aðgang að Guði og þessum fallega kærleiksboðskap. Að þau læri að koma fram við annað fólk af virðingu, alveg sama hvernig það lítur út eða hvaðan það kemur. Það skiptir miklu máli að börnin læri að við erum öll jöfn og eigum að láta okkur þykja vænt um allar manneskjur og koma vel fram hvert við annað. Við leggjum mikla áherslu á að allir séu vinalegir í samskiptum og hjálpsamir, eins og nafn skólans ber í sér. Þetta er Vinagarður.“

Skoða skordýr og klifra í trjám

Þær segja það sannarlega hlýja þeim um hjartarætur að heyra frá grunnskólunum í hverfinu að börnin sem komi frá Vinagarði haldi vel hópinn og séu einstaklega hlýleg hvert við annað.

„Þau hafa orð á sér fyrir að koma vel undirbúin félagslega í grunnskólann, eru kurteis og bera virðingu fyrir fullorðnu fólki. Kristin gildi eru rauður þráður í öllu starfi Vinagarðs, við boðum gildi sem skipta máli, um hvernig við högum okkur sem manneskjur í samfélaginu sem við erum hluti af. Kristni, rétt eins og lög og reglur samfélagsins, fléttast inn í alla okkar menningu. Það er ekki hægt að ýta kristinni trú í burtu, hún er hluti af sögu okkar og menningu, við eigum ekki að ræna börnin því að vera læs á menningu sína og sögu. Einn pabbi hér á leikskólanum orðaði þetta ágætlega þegar hann sagði að það væri ákveðin þöggun að banna að tala um kristni við börn. Þau taka svo sína afstöðu seinna í lífinu, þegar þau eru orðin fullorðin.“

Þær Allý og Maja segja nálægðina við náttúruna í Laugardalnum vera mikil forréttindi, elstu börnin á Vinagarði fái frelsi til að leika sér í skóginum við hlið skólans, skoða skordýr, klifra í trjám og leika sér með greinar og steina.

„Við erum með útikennslu í hverri viku og við erum líka í góðu sambandi við Húsdýragarðinn. Okkur finnst við mjög heppnar að fá að vinna hérna, það eru mikil forréttindi, og hversu margar okkar hafa enst lengi hér í starfi, segir allt um hversu dásamlegur vinnustaður Vinagarður er.“

Höf.: Kristín Heiða Kristinsdóttir