Kórastarf Kammerkór Tónskóla Mýrdalshrepps saman kominn eftir vel heppnaða tónleika í verslun Icewear í Vík.
Kórastarf Kammerkór Tónskóla Mýrdalshrepps saman kominn eftir vel heppnaða tónleika í verslun Icewear í Vík. — Morgunblaðið/Jónas Erlendsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Miklar byggingarframkvæmdir eru í gangi í Mýrdalnum. Verið er að byggja nýjan leikskóla, tvö fjölbýlishús eru í byggingu og eitthvað af einbýlishúsum. Jafnframt er fyrirhuguð stækkun á húsi Icewear þar sem stækka á húsið til suðausturs og byggja ofan á það

Úr bæjarlífinu

Jónas Erlendsson

Vík í Mýrdal

Miklar byggingarframkvæmdir eru í gangi í Mýrdalnum. Verið er að byggja nýjan leikskóla, tvö fjölbýlishús eru í byggingu og eitthvað af einbýlishúsum. Jafnframt er fyrirhuguð stækkun á húsi Icewear þar sem stækka á húsið til suðausturs og byggja ofan á það. Einnig á að stækka bílastæði við húsið en bílastæðavandræði eru orðin tilfinnanleg við verslun Krónunnar.

Við Uxafótalæk austan við Vík í Mýrdal er verið að tilraunakeyra sandverksmiðju í eigu LavaConcept Iceland ehf. Verksmiðjan hyggst taka sand úr tveimur sandnámum, annarri á Fagradalsfjöru og hinni á Höfðafjöru, og flokka hann í mismunandi kornastærðir sem nýta á til sandblásturs.

Verður sandurinn síðan fluttur til Þorlákshafnar með vörubílum, allt að átta ferðir á dag, og frá Þorlákshöfn í skip til útflutnings. Vonir eru bundnar við að framleiðsla geti hafist í sumar af fullum krafti.

Karlakór Rangæinga byrjaði sitt kórferðalag í Vík í Mýrdal sl. fimmtudagskvöld og mætti í Leikskála í Vík með glænýja söngdagskrá með hljómsveit. Voru tónleikarnir mjög vel heppnaðir. Miðvikudaginn 17. apríl verður kórinn í Selfosskirkju, daginn eftir í Áskirkju í Reykjavík og laugardaginn 20. apríl í Hvolnum á Hvolsvelli.

Vor í Vík er hátíð sem haldin er árlega í Mýrdalnum. Eitt af atriðum hátíðarinnar er Hjörleifshöfðalaupið, sem er fögur og skemmtileg hlaupaleið innan Kötlu jarðvangs. Kötlusetur og Katla UNESCO jarðvangur sjá um hlaupið í góðu samstarfi við landeigendur, Viking Park Iceland og fyrirtæki í Mýrdalshreppi.

Kammerkór Tónskóla Mýrdalshrepps verður með tónleika á Hótel Kötlu 23. apríl næstkomandi og er yfirskrift tónleikanna „Sumarið kemur“. Á efnisskránni verða létt og falleg sönglög, frá Eurovision-lögum til þjóðlaga. Gestur á tónleikunum verður Gissur Páll Gissurason tenórsöngvari og verður hann einnig með tveggja daga söngnámskeið fyrir einsöngsnemendur Tónskólans sem eru sjö.

Einsöngsnemendurnir og Kammerkórsfélagarnir Einar Freyr Elínarson og undirritaður, Jónas Erlendsson, syngja svo með Gissuri lagið O Sole Mio. Stjórnandi er Alexandra Chernyshova, tónskólastjóri í Vík. Hljóðfæraleik annast Álvaro Sanchez á gítar, Orri Guðmundsson á gítar og Alexandra á píanó. Tónleikarnir eru hluti af hátíðinni Vor í Vík. Frítt verður á tónleikana.