Akranes Gamla Landsbankahúsið við Akratorgið er fremst á þessari mynd. Vestan þess, það er til hægri á þessari mynd, er fremsti hluti Kirkjubrautar en svo tekur við Skólabraut sem er á svonefndum Neðri-Skaga.
Akranes Gamla Landsbankahúsið við Akratorgið er fremst á þessari mynd. Vestan þess, það er til hægri á þessari mynd, er fremsti hluti Kirkjubrautar en svo tekur við Skólabraut sem er á svonefndum Neðri-Skaga. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Á Akranesi stendur nú yfir söfnun undirskrifta þar sem skorað er á bæjaryfirvöld að færa starfsemi sína í Landsbankahúsið við Akratorg. Yfirskrift verkefnis þessa er Fyrsta hjálp og hjartahnoð fyrir miðbæinn en þeim sem að standa þykir sem meira líf vanti á miðbæjarsvæðið.

Verslunum og veitingahúsum þar hafi fækkað á undanförnum árum og miðbærinn sé ekki ekki fyrsti kostur þess sem hyggst fara af stað með verslun eða veitingarekstur á Akranesi. Við blasi því að nýta gamla Landsbankahúsið, þriggja hæða byggingu sem Akurnesingar eiga og lítil og stopul starfsemi hefur verið í undanfarin ár.

Dræmar undirtektir í bæjarstjórn og hús sagt ekki henta

„Við viljum meira líf við Akratorg, sem er hjarta bæjarins,“ segir Ólafur Páll Gunnarsson útvarpsmaður sem er forsprakki þessa verkefnis. Hann býr við torgið og hefur á undanförnum árum látið til sín taka í ýmsum málum til eflingar Skaganum.

„Núna er staðan sú að Akraneskaupstað vantar húsnæði undir starfsemi ráðhúss, sem lengi var í byggingu við Stillholt sem fyrir nokkrum árum þurfti að rýma vegna loftgæðavandamála. Nú eru skrifstofur bæjarins tímabundið í of litlu húsnæði Félags eldri borgara. Því finnst okkur sjálfsagt að flutt verði í þetta glæsilega bankahús sem er að fara í sölu. Að hreinsa innan úr því og innrétta í samræmi við nýja tíma ætti ekki að vera stórmál. Þarna yrði þá staðurinn þar sem línur eru lagðar um mannlífið í bænum og alveg tilvalið líka að á jarðhæðinni yrði til dæmis lítið veitinga- eða kaffihús, enda vantar slíkt í miðbæinn.“

Síðdegis í gær, föstudag, höfðu alls 540 manns skrifað nafn sitt rafrænt á undirskriftalistana, sem verða uppi á island.is fram á mánudag. Einnig liggja undirskriftarblöð frammi á völdum stöðum á Akranesi, svo sem í verslunum.

Ólafur Páll segir að þau sem að undirskriftasöfnunni standa hafi rætt málið við bæjarfulltrúa og bæjarstjórn sem hafi tekið dræmt í hugmyndirnar. Segi bygginguna ekki henta fyrir ráðhús, en þá staðhæfingu þurfi að sínu mati ræða betur. Slíkt verði líka gert á íbúafundi í Tónbergi, sal Tónlistarskólans á Akranesi, sem haldinn verður næstkomandi mánudagskvöld, 15. apríl, og hefst kl. 20. Þar verði undirskriftalistar einnig afhentir bæjarstjóra, boðið upp á lifandi tónlist, pallborðsumræður með kjörnum fulltrúum og fleira skemmtilegt.

Margt komið í framkvæmd

„Á Akranesi er enginn ágreiningur um vilja til að efla gamla miðbæinn. Það eru líka margar góðar ákvarðanir þegar komnar í framkvæmd sem einmitt munu gæða hann lífi – fyrir þá utan þær sem fyrirtæki og einstaklingar vinna nú þegar að,“ segir Haraldur Benediktsson bæjarstjóri í samtali við Morgunblaðið.

Þá sé verið að byggja íbúðarhúsnæði og fleira í grennd við miðbæinn en þar er Akratorg, sem er miðdepill viðburða í bænum. Niðurstaða bæjarstjórnar hafi þó verið að horfa ekki til að færa skrifstofur bæjarins í gamla Landsbankahúsið, sem er í eigu Akraneskaupstaðar. Heldur vilja bæjaryfirvöld selja húsið, með möguleika á viðbótarlóð einmitt til að efla miðbæinn. Gerð verði krafa um slíkt í skilmálum um sölu hússins.

Akraneskaupstaður hefur nýlega náð samkomulagi um kaup á eignarhlut ríkisins í Mánabraut 20, þar sem áður voru skrifstofur Sementsverksmiðjunnar. Á þeim stað stendur til að reisa hentugt húsnæði fyrir m.a. skrifstofur bæjarins. „Einnig að sú bygging verði þannig úr garði gerð að hún verði aðsetur fyrir fleiri opinberar stofnanir eða fyrirtæki sem eru á Akranesi,“ tiltekur Haraldur. Bætir við að nýbygging við Mánabraut sé mikilvægur hlekkur í tengingu við nýtt íbúðahverfi á Sementsreit við Akratorg og þar með í að gæða miðbæinn lífi.

Öflugt viðbragð

„Áform um uppbyggingu við Mánabraut, í gamla miðbænum, eru mun öflugra viðbragð en að horfa aðeins til Landsbankahússins gamla. Við erum þar að ræða um aðsetur stofnana og menningarstarfsemi sem er langt umfram það sem rætt er um að komist fyrir í gömlu húsnæði og er til að efla Akranes allt og raun og veru byggð langt út fyrir bæinn,“ segir Haraldur bæjarstjóri.