Hún bað um teppi sem henni var fært pakkað inn í plast. Hún reif plastið af og dró teppið út en þá gerðist það sem er nánast óhugsandi, já og sérlega ógeðslegt!

Pistill

Ásdís Ásgeirsdóttir

asdis@mbl.is

Eins gaman og það er að vera ferðamaður í útlöndum þá finnst fáum sjálft ferðalagið skemmtilegt. Vissulega er þetta ákveðið lúxusvandamál og nokkuð sem varla er hægt að kvarta yfir. Margt hefur breyst frá því maður var lítill og fannst ofurspennandi að fara í flugvél. Ferðafötin voru vandlega valin og flestir mættu puntaðir í flug. Við lendingu var klappað fyrir flugmönnunum sem náðu að lenda með farþegana heila á húfi, eins og það væri eitthvert afrek.

Í dag er öldin önnur og ekki fer maður lengur í sparifötin fyrir flug heldur velur maður þægilegustu föt sem völ er á, mætir með góð heyrnartól og afþreyingarefni hlaðið niður í símann. Allt til að létta manni lífið þar sem maður situr oftast í kremju í yfirfullum vélum.

Um daginn flaug ég í innanlandsflugi í Bandaríkjunum með lágfargjaldaflugfélaginu Spirit. Ég frétti síðar að það félag er skotspónn helstu grínista landsins. Þessi heiðgula vél var vissulega ekki ríkulega búin þægindum og farþegarnir þar ansi skrautlegur hópur, en hún kom mér á milli staða, og ekki fyrir mikinn pening. Við lendingu í La Guardia í New York skall hún niður með nokkrum látum og bremsaði svo skart að vatnsglas konunnar við hlið mér hentist í bakið á næsta manni. Og svo var klappað, sem mér skilst að sé viðtekin venja hjá þessu flugfélagi, enda á fólk kannski ekki von á því eða hvað?

Í New York ræddi ég um flugið við vinkonu mína sem er yfirflugfreyja hjá öðru bandarísku flugfélagi. Sú hefur lent í ýmsu á löngum ferli, en meðal annars hafa nokkrir farþegar látið lífið í háloftunum. Spurð hvað hún gerði við líkin, sagði hún það ansi snúið. Hægt væri að geyma þau inni á salerni en í einu tilviki var teppi breitt yfir viðkomandi á meðan farþegar gengu út. Þannig að ef þið sjáið „sofandi“ manneskju hulda teppi þegar þið eruð á útleið úr flugvél er hún líklega látin!

Talandi um teppi. Kona ein, Nicole Byer, sem er frægur grínisti og leikkona, var í löngu flugi þegar að henni sótti hrollur. Hún bað um teppi sem henni var fært pakkað inn í plast. Hún reif plastið af og dró teppið út en þá gerðist það sem er nánast óhugsandi, já og sérlega ógeðslegt!

Mannaskítur datt úr teppinu og ofan í kjöltu hennar. Að sjálfsögðu fríkaði hún út! Flugfélagið útskýrði málið þannig að mögulega hefði óánægður starfsmaður verið þar á ferð. Nicole fékk einhverjar bætur og var beðin um að þegja yfir atvikinu, sem hún gerði sannarlega ekki! Hún hefur margoft sagt söguna í spjallþáttum við mikla kátínu áhorfenda.

Já krakkar mínir, skítur skeður!