Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð: Við kulda og hita kennt það er, og kletta líka, trúðu mér. Á einu sleðinn fljótur fer, í flestum bílum skylda hér. Svo er stundum fagurskreytt og Fjallkonan ber

Gátan er sem endranær eftir Pál Jónasson í Hlíð:

Við kulda og hita kennt það er,

og kletta líka, trúðu mér.

Á einu sleðinn fljótur fer,

í flestum bílum skylda hér.

Svo er stundum fagurskreytt og Fjallkonan ber.

Þá er það gátan, segir Harpa í Hjarðarfelli:

Hita- klárt og kuldabelti

Um klettabelti rollu elti

Stakt þá belti er

Styður belti hér

Stokka- er það belti

Hér er lausnin mín segir Knútur H. Ólafsson:

Hita- og kuldabeltin eru breið.

Um beltin klettanna leiðin er ei greið.

Öryggisbelti eru' í bílunum fínum,

búast svo Fjallkonur gullbeltum sínum.

En vasklega' á belti sínu vélsleðinn

áfram þýtur.

Sigmar Ingason svarar:

Víst eru beltin býsna mörg,

Í fjöllunum bæði brött og körg.

Fjallkonur á fyrri tíð

fögur belti sýndu lýð.

Á fjallvegum eru þau farartálmar og skuggabjörg.

Guðrún B. leysir gátuna:

Kuldabeltið, klettabeltið,

og kærast mér er hitabeltið.

Á einu belti er vélsleði.

Erla spennti sætisbeltið.

Stokkabeltið bauð að veði,

því býsna dýrmætt. Klárast sveltið!

Úlfar Guðmundsson svarar:

Hnattræn belti um hitaskil.

Hamrabelti ég klífa vil.

Sleðabelti snöggt flytur til.

Sætisbelti niður festa.

Stokkabelti fegrar Fjallkonuna besta.

Sjálfur skýrir Páll gátuna:

Í kuldabelti kuldinn er,

klettabelti úr grjóti er,

í bílum flestum belti er,

á belti sleðinn fljótur er.

Og stokkabeltið fagurskreytta fjallkonan ber.

Svo er stundum fagurskreytt og Fjallkonan ber.

Síðan er ný gáta eftir Pál:

Úr hafinu má hana fá,

heiti á vísnaskáldi.

Grandi bjargar fingri frá,

finnast víða brött og há.

Öfugmælavísan:

Heyrt hef ég baulu hörpu slá,

hestinn organ troða,

fílinn smíða fínan ljá,

flærnar brauðið hnoða.