Öræfin Geimfaraefnin og fylgdarlið þeirra á leið úr Öskju og í Herðubreiðarlindum árið 1967. Með á myndinni er Bjarni Benediktsson þáv. forsætisráðherra.
Öræfin Geimfaraefnin og fylgdarlið þeirra á leið úr Öskju og í Herðubreiðarlindum árið 1967. Með á myndinni er Bjarni Benediktsson þáv. forsætisráðherra.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is

Baksvið

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Tunglfararnir Armstrong og Aldrin skilja eftir sig óafmáanleg spor á yfirborði tunglsins og í sögu mannkynsins. Þeir hafa kannað tunglið fyrstir manna og þar með hefur aldagamall draumur rætzt,“ sagði í frásögn á forsíðu Morgunblaðsins 22. júlí 1969. „En það sem mestu máli skipti er ómetanleg vitneskja sem tunglfararnir hafa aflað í ferðinni og vísindamenn bíða eftir með mikilli óþreyju,“ sagði þar ennfremur.

Snilld og hugrekki

Í fréttum Morgunblaðsins af fyrstu tunglferðinni má greina vængjaþyt og stemningu. Þetta var stórfrétt og í leiðara blaðsins sagði að þetta væri að sumra mati einn merkasti atburðurinn í mannkynssögunni til þessa. „Við erum komin úr vöggunni. Geimurinn blasir við, eggjar, skorar á hólm. Atburðir síðustu klukkutíma eiga sér enga hliðstæðu í veraldarsögunni. Við sjáum jörðina í nýju Ijósi … Ný heimsmynd opnast fyrir sjónum okkar. Og spor geimfaranna munu um alla framtíð minna á snilld mannsins, hugvit hans og hugrekki,“ sagði í leiðaranum.

Í Reykjavíkurbréfi nokkrum dögum síðar var rætt um tunglferðina sem vísindalegt afrek. „Mannsandinn er leitandi, og hann lætur sér ekki nægja að glíma við það þekkta, heldur sækir hann fram til sóknar hinu óþekkta, og framfarirnar yrðu engar, ef ekki væri sýnd djörfung, einmitt á borð við þá, sem menn nú hafa kynnzt. Þess vegna er fyllsta ástæða til að fagna þeim árangri, sem náðst hefur, því að hann sýnir, að maðurinn stendur ekki í stað, heldur miðar nokkuð á leið.“

Ótrúlegt verkefni

Á árunum 1969-1972 fóru 12 menn til tungsins í alls sex ferðum. Þetta voru sögulegar ferðir og starf sem þá var unnið skilaði mikilsverðri þekkingu. Í síðustu ferðunum, þegar gerðar voru út ferjurnar Apollo 15, 16 og 17, voru vísindarannsóknir í aðalhlutverki. Af þeirri ástæðu voru geimfararnir í nokkra daga á tunglinu og höfðu þá meðal annars meðferðis bíl, til að geta ekið um yfirborðið.

Allt voru þetta þaulvanir menn sem fengið höfðu góðan undirbúning fyrir ótrúlegt verkefni. Sú þjálfun fólst meðal annars í vísindaferðum til Íslands, þar sem jarðfræðin var tekin fyrir. Þetta var 1965 og svo aftur árið 1967. Farið var í Öskju og Dyngjufjöll, enda talið að aðstæður þar gætu verið tilsvarandi því sem gerðist á tunglinu. Jarðfræðingarnir Guðmundur E. Sigvaldason og Sigurður Þórarinsson voru á svæðinu og sögðu tunglfaraefnunum frá staðháttum og náttúru. Þótti þetta takast vel og að því leyti höfðu Íslandsferðirnar mikla þýðingu fyrir landnám mannsins á tunglinu.

Umfjöllun um tunglferðirnar og Íslandstenginguna á seinni árum vakti áhuga víða. Voru þær meðal annars upptaktur þess að Örlygur Hnefill Örlygsson á Húsavík stofnaði og setti upp þar í bæ Könnunarsafnið, þar sem ýmsum landafundum eru gerð skil. Örlygur stóð einnig fyrir því að bjóða til Íslands og taka á móti nokkrum af þeim tunglförum sem komu til Íslands í æfingaskyni. Þetta voru þeir Charles M. Duke, annar tveggja þátttakenda í leiðangri Appollo 16 árið 1972, og Harrison Schmitt, sem fór með Appollo 17 til tunglsins seinna sama ár og var síðastur manna hingað til til að spóka sig þar um.

Sveipað dulúð

„Tunglið sem blasir við okkur á næturhimninum er leyndardómsfullt og hefur á öllum tímum verið sveipað dulúð. Svo er enn því þó að rannsóknir vísindamanna hafi skilað heilmikilli þekkingu kalla svör við einu alltaf á fleiri spurningar,“ sagði Schmitt í samtali við Morgunblaðið í endurkomu sinni til Íslands árið 2015. Hann fór þá meðal annars austur á Þingvelli til að sjá flekaskilin frægu sem þar liggja.

„Þjálfun á Íslandi fyrir tunglferðirnar var mjög mikilvæg,“ sagði tunglfarinn Charles M. Duke í samtali við Morgunblaðið sumarið 2017. Hann var, sem fyrr segir, einn þeirra sem flugu á mánann með Appollo 16.

„Hér gátum við skoðað eldstöðvar, gróðursnauð hraun, jarðhitasvæði og fleira. Margt líkt þessu átti ég síðar eftir að sjá á tunglinu, sem alltaf verður dularfullt. Já, mér finnst þegar ég horfi upp í himininn og til tunglsins stórkostlegt að hafa fengið tækifæri að komast á þennan stórbrotna stað,” sagði Duke.