Áætlunarflug Framkvæmdastjóri SA segir það umhugsunarefni að rætt sé í þriðja skiptið á innan við hálfu ári að fara í aðgerðir á Keflavíkurflugvelli.
Áætlunarflug Framkvæmdastjóri SA segir það umhugsunarefni að rætt sé í þriðja skiptið á innan við hálfu ári að fara í aðgerðir á Keflavíkurflugvelli. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Það gæti farið að hitna í kolunum fyrr en síðar í kjaraviðræðum og óleystum kjaradeilum vegna endurnýjunar samninga sem runnu sitt skeið í lok janúar sl. Flugmálastarfsmenn hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli hafa veitt umboð til að hefja undirbúning verkfallsaðgerða ef til þess kemur í yfirstandandi kjaradeilu og Samtök starfsmanna fjármálafyrirtækja (SSF) hafa sett stefnuna á að vísa kjaraviðræðum við Samtök atvinnulífsins til ríkissáttasemjara.

Þó búið sé að semja fyrir nær allan almenna vinnumarkaðinn eiga SA eftir að ganga frá fjölmörgum sérkjarasamningum við um það bil 70 viðsemjendur. Viðræður eru í fullum gangi að sögn Sigríðar Margrétar Oddsdóttur, framkvæmdastjóra SA. Sem stendur eiga samtökin eftir að ljúka við 32 sérkjarasamninga á vegum fyrirtækja og einstakra stéttarfélaga.

Yfirvinnubann, skærur o.fl.

Samþykkt var einróma á fjölmennum fundi Félags flugmálastarfsmanna ríkisins og Sameykis í fyrradag með félagsfólki sem starfar hjá Isavia á Keflavíkurflugvelli að veita heimild til að fara í rafræna atkvæðagreiðslu meðal félagsfólks um aðgerðir til að knýja á um kjarasamning sem samninganefndir félaganna geta gripið til ef sáttatilraunir sigla í strand. Greint er frá fundinum á vefsíðu Sameykis.

Þar er haft eftir Unnari Erni Ólafssyni, formanni FFR, að meginkröfurnar séu að jafna réttindi félagsfólks sem starfar hjá Isavia og að félagið sé ekki að fara fram á meira en samið var um á almenna vinnumarkaðnum, heldur að jafna kjör félagsfólks sem vinnur sömu störf á mismunandi kjörum.

„Við viljum auðvitað taka samtalið við Isavia undir handleiðslu sáttasemjara áður en við förum að kjósa um þær aðgerðir sem við fáum umboð fyrir hér í dag,“ er haft eftir Unnari. „Þetta snýst um að fá hjá ykkur umboð til að fara í kosningu um eftirfarandi aðgerðir; yfirvinnubann, þjálfunarbann og skærur sem geta verið t.d. 4. klst. vinnustöðvun. Um er að ræða að fá heimild frá ykkur fyrir þessum aðgerðum sem við getum nýtt ef til þess kemur,“ sagði hann.

„Munum hvergi hvika“

„Það er umhugsunarefni fyrir okkur öll að það sé verið að ræða það í þriðja skiptið nú á innan við hálfu ári að fara í einhverskonar aðgerðir á Keflavíkurflugvelli. Við vitum sem er að við búum á eyju og öruggar og traustar flugsamgöngur skipta okkur öll mjög miklu máli. Þær eru hluti af þeim lífsgæðum að búa á Íslandi,“ segir Sigríður Margrét spurð um viðræðurnar við FFR og Sameyki vegna starfsmannanna hjá Isavia.

Sigríður Margrét segir um stöðu einstakra samningaviðræðna að mikilvægt sé að hafa í huga að það hafi verið mörkuð alveg skýr launastefna sem afar mikill samhugur sé um. „Þessari launastefnu er ætlað að skapa skilyrði fyrir því að verðbólgan minnki. Við erum farin að sjá teikn um að slíkt sé framundan. Það er ákaflega mikilvægt til þess að Seðlabankinn geti hafið vaxtalækkunarferli sitt. Það er líka ákaflega mikilvægt að við höldum okkur við þá launastefnu sem hefur verið mörkuð til að tryggja að hér verði stöðugleiki en við vitum að sjálfsögðu að það tekur á að klára svona umfangsmikið verkefni, sem er að ganga frá kjarasamningum bæði á almenna og opinbera markaðinum en við munum hvergi hvika frá þessari stefnu vegna þess að það er mikill samhugur um markmiðin og okkur miðar í rétta átt,“ segir hún.

„Stöðugleikinn kemur ekki af sjálfu sér og verkefninu er svo sannarlega ekki lokið. Það er búið að taka mikilvæg skref en það er ennþá með þeim hætti að það þurfa allir að axla ábyrgð á því að klára verkefnið. Við erum algjörlega sannfærð um mikilvægi þessa,“ bætir hún við.

14,5% eða 17%

Kjaraviðræður milli bankamanna og SA fyrir hönd fjármálafyrirtækja hafa að mati SSF gengið stirðlega að undanförnu. Í SSF eru um 3.500 félagsmenn. Kjarasamningar þeirra runnu út 31. janúar. Ari Skúlason, formaður samtakanna, segir í pistli á vefsíðu SSF í gær að samninganefnd SSF telji „fullreynt með að reyna að ná árangri í álíka viðræðum og við höfum átt og við stefnum því að því að vísa málinu til sáttasemjara sem þá yfirtekur þá skyldu að reyna að koma á samningi.“

Samninganefnd SSF hefur átt þrjá samningafundi með gagnaðilum sem ekki hafa skilað nægum árangri að mati SSF. „Samninganefndin horfir til þess að kostnaðarmat á öðrum samningum sem gerðir hafa verið sé í kringum 17%. Það sem okkur stendur til boða eru launahækkanir upp á kr. 23.750 eða 3,25% launahækkun nú og svo 3,5% launahækkun næstu þrjú ár. Kostnaðurinn við þá breytingu er um 14,5% og við vorum að vona að við gætum fyllt upp í afganginn af svigrúminu í átt að 17% í sátt og samlyndi. Svo er greinilega ekki, SA stendur fast á launastefnu sinni sem felur í sér að félagsfólk í SSF fái hlutfallslega minna en aðrir í þriðja skiptið í röð,“ skrifar Ari.

Höf.: Ómar Friðriksson