Jónborg Júlíana Ragnarsdóttir fæddist 5. febrúar 1943 á Akureyri og ólst upp á Eyrinni. Hún lést 3. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Ída Magnúsdóttir, f. 1912, d. 1994, og Ragnar Guðmundsson, f. 1912, d. 1969. Þau skildu. Systkini Jónborgar: Guðríður, f. 1933, d. 2016. Kristján Viktor, f. 1939, d. 1963. Hann tók út af vélbátnum Hring í miklu mannskaðaveðri sem gekk yfir landið. Tvíburasystir Jónborgar er Arnfríður Margrét.

Seinni maður Ídu var Sigurjón Friðriksson. Synir Ídu og Sissa: Friðrik, f. 1946, d. 2021, Björgvin, f. 1947, Sigurjón Magnús, f. 1956.

Maður Jónborgar var Þórarinn Sveinn Guðbergsson, f. 1944. Þau skildu. Dætur þeirra: Þórhildur Ída, f. 1962, og Bergþóra Harpa, f. 1965, d. 2018. Maki Þórhildar Ídu: Kristján Arnar Jakobsson. Synir þeirra: Guðbergur Rósi og Alexander Thor. Maki Bergþóru Hörpu: Guðmundur Hjörtur Falk Jóhannesson. Þau slitu samvistum. Synir þeirra: Viktor Agnar og Þórarinn Samúel. Börn Viktors með Margréti Jakobsdóttur: Þóranna Reyn og Karitas Emma. Börn Viktors með Kristínu Jónu Hjaltadóttur: Júlíana Ruth, Ragnar Breki og Guðmundur William. Barn Viktors með Berglindi Önnu Bragadóttur er Mikael Máni. Með Agötu Zasacka á hann Hönnu Zasacka Falk.

Útför hefur farið fram í kyrrþey.

Jónborg var kölluð Jobba fyrir norðan en Jonna fyrir sunnan. Hún söng í barnakór og sennilega var teikning uppáhaldsfagið. Það hryggði Jonnu að sökum aðstæðna gat hún ekki haldið áfram námi eftir 2. bekk í unglingadeild og þær tvíburasystur fluttu ungar að heiman. Jonna byrjaði að vinna fyrir sér og vann í nokkur ár á netaverkstæði á Oddeyrinni hjá Útgerðarfélagi Akureyringa. Hún fluttist síðar í Sandgerði með tvíburasystur sinni Möggu. Þar voru þær á vertíð. Einmitt þá kynntist Jonna ungum manni, honum Dóra frá Húsatóftum í Garðinum, á balli á þeim sögufræga stað Krossinum í Njarðvík. Þau urðu síðar hjón, komu sér fyrir í Garðinum þaðan sem Þórarinn var og eignuðust tvær dætur. Jonna var listfeng og valdi sér til dæmis sterkappelsínugula eldhúsinnréttingu, þegar þau Dóri byggðu sér einbýlishús, sem brýtur þvert gegn litafræðikenningum um að sá litur henti alls ekki í eldhúsi en appelsínugula eldhúsið með svörtum viðarbitum í lofti var framúrstefnulegt og verulega smart.

Jonnu þótti afar vænt um systkini sín. Bróðir hennar Kúti sem bjó í Eyjum kom til dæmis stundum við í Garðinum og á góðum stundum greip hann í gítar. Sömuleiðis er eftirminnilegt þegar Maggi bróðir hennar kom í heimsókn á bifreið sem hann hafði búið til, annars vegar úr Benz og hins vegar Volkswagen-bjöllu. Vakti sú bifreið mikla hrifningu.

Hvert einasta sumar fóru Jonna og Dóri norður til Möggu tvíburasystur Jonnu en Magga bjó þá á Akureyri. Voru það mikil ævintýri. Þau áttu til dæmis Volkswagen-bjöllu, ljósmosagræna að lit og á henni var ekið sem leið lá í rykstrók af næsta bíl á holóttum vegum í um sjö klukkustundir. Enda varla malbik að finna á Íslandi á þeim árum nema ef til vill á Suðurlandsbrautinni í Reykjavík. Á Akureyri tók síðan við allt annað landslag og allt annað veðurfar en einkenndi Garðskagann. Gróskumikil tré prýddu bæinn og gróskumikilli náttúru fylgdi angan í lofti sem geymist í minningunni. Fyrir norðan var annað tungutak en fyrir sunnan. Eins og gjarnan er með lítil börn þá áttu Ída og Bessý auðvelt með drekka norðlenskuna í sig og eftir nokkra daga var svissað úr linmæli í harðmæli. Hjá Möggu var ekki verið að reka börnin í rúmið heldur mátti vaka langt fram á nótt og fylgjast með þeim tvíburasystrum Jonnu og Möggu sem oftar en ekki voru að fletta Burda-blöðum. Mikið var spekúlerað í sniðum og hvaða efni hentuðu í tiltekna flík. Ekki var minna mikilvægt hvaða litir pössuðu saman. Eins var mikið spáð í mataruppskriftir og matseldin var ekki af verra taginu í þessum heimsóknum enda flutti Magga síðar utan, lærði til kokks og vann á heimsfrægum veitingastöðum þar til hún fór á eftirlaun. Öllum ferðum norður fylgdi að fara til Ídu móður Jonnu. Ída dró gjarnan upp nikkuna og spilaði af hjartans lyst þótt hún væri lítil vexti en nikkan bæði stór og þung fyrir hana. Auðvitað fylgdi að koma við á Norðurgötu 40 þar sem Fiddi bróðir Jonnu bjó.

Lengst af starfaði Jonna á Garðvangi. Frá 2015 dvaldi hún á Hlévangi í Keflavík þar sem sérstaklega vel var hugsað um hana.

Þórhildur Ída Þórarinsdóttir.