Í fjármálaáætlun er forgangsraðað á útgjaldahliðinni en ekki kynntar til leiks nýjar skattahækkanir. Þannig verður jafnvægi komið á afkomu ríkissjóðs og skuldaþróunin samrýmist fjármálareglum.

Úr ólíkum áttum

Úr ólíkum áttum

Þórdís Kolbrún R.

Gylfadóttir

thordiskolbrun@althingi.is

Sú ríkisstjórn sem starfað hefur í tæp sjö ár hefur tekist á við ótal ytri áskoranir sem við öll þekkjum. Það hefur verið krefjandi en í meginatriðum tekist. Viðsnúningurinn í efnahagsmálum hefur verið mun hraðari en nokkur þorði að vona. Sterkur efnahagur er grunnurinn að öllu því sem skiptir máli fyrir samfélag sem vill geta boðið upp á lífskjör eins og þau gerast best. Þetta vitum við – og þess vegna skiptir þetta máli – fyrir okkur öll.

Úrlausnarefnunum hefur síst fækkað og ný ríkisstjórn undir forystu Bjarna Benediktssonar hefur skuldbundið sig til að ná árangri í lykilmálum eins og ríkisfjármálum, orkuvinnslu, öryggis- og varnarmálum og málefnum hælisleitenda.

Kröftugt efnahagslíf

Ísland stendur mjög styrkum fótum efnahagslega þrátt fyrir áskoranir. Samsetning hagkerfisins var einstaklega berskjölduð fyrir afleiðingum heimsfaraldursins en þrátt fyrir það var hagvöxtur á mann frá 2019 til 2023 í meðallagi á Norðurlöndunum, eða 3%, sem er alvöru árangur. Hagvöxtur 2022 var sá mesti í rúma hálfa öld.

Hér er fullt atvinnustig, sem er langt í frá sjálfsagt, og þau vandamál sem við eigum við eru að sumu leyti í raun afleiðing af því að hér gengur vel. Má þar nefna annars vegar of mikla verðbólgu, sem helgast að miklu leyti af óvæntri og mikilli eftirspurn síðustu ár, auk mikilla launahækkana. Hins vegar má nefna hækkun húsnæðiskostnaðar, sem hefur orðið þrátt fyrir metuppbyggingu íbúða og að aldrei hafi verið fleiri starfandi í byggingariðnaði frá árinu 2008. Ástæðan er vafalítið að hluta til vegna metfjölgunar íbúa, sem aftur er afleiðing af því að hér gengur flest vel og atvinnutækifærin eru mörg.

Leiðin að jafnvægi í ríkisfjármálum

Stærsta verkefnið núna er að ná áfram niður verðbólgu. Gerð langtímakjarasamninga á almennum vinnumarkaði og aðgerðir stjórnvalda í þágu þeirra eru mikilvægur áfangi í þeirri vinnu. Áframhaldandi framfarir í ríkisfjármálum eru ekki síður mikilvægar og í þeirri fjármálaáætlun sem ríkisstjórnin hefur samþykkt og verður brátt kynnt eru aðgerðir vegna kjarasamninga í forgangi. Það þýðir að við höfum að sjálfsögðu forgangsraðað útgjöldum. Þetta er eðlileg krafa á okkur sjálf og slíkt verklag og nálgun ætti alltaf að vera í forgangi. Ríkið ver, og eyðir, um 1.400 milljörðum króna á hverju ári og þegar slíkar fjárhæðir eru í spilinu er augljóst að alltaf er hægt að finna leiðir til að nýta peninga betur – spara, hagræða, leggja niður og sýna þá almennu kurteisi að fara vel með annarra manna fé.

Í ljósi aðstæðna, nánar tiltekið lakari efnahagshorfa til skamms tíma, mikils kostnaðar vegna jarðhræringanna í kringum Grindavík og kostnaðarsamra kjarasamninga, auk ýmissa annarra áskoranna, er ég sátt við þá fjármálaáætlun sem var unnin á minni vakt í því ráðuneyti sem ég hef nú kvatt. Í fjármálaáætlun er forgangsraðað á útgjaldahliðinni en ekki kynntar til leiks nýjar skattahækkanir. Þannig verður jafnvægi komið á afkomu ríkissjóðs og skuldaþróunin samrýmist fjármálareglum. Ganga þarf lengra í þessa átt og halda áfram hagræðingaraðgerðum og raunverulegri endurskoðun á þeim verkefnum sem ríkið sinnir og bindur fjármagn í.

Orkumál í forgang

Ríkisstjórnin leggur áherslu á frekari orkuöflun enda þörf á henni ef við ætlum okkur að byggja samfélagið áfram upp og ná árangri í orkuskiptum. Við ætlum að setja það í forgang að búa þannig um hnútana að hér getum við áfram sótt fram með næga græna orku. Við búum á grænu batteríi og það er skynsamlegt, eðlilegt og rétt að framleiða meira af grænni orku, út frá verðmætasköpun, efnahagslífi og öryggi gagnvart náttúruvá eða utanaðkomandi hættu.

Stærsta utanríkismálið

Hættan utan frá hefur aukist síðustu mánuði og misseri. Mikilvægasta utanríkismál Íslands felst í því að standa með Úkraínu gegn tilefnislausri innrás Rússlands. Ólögmætt landvinningastríð Rússlands, fastaríkis í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, gegn nágranna sínum í Evrópu er alvarlegasta aðför að alþjóðalögum sem gerð hefur verið frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar.

Framganga Rússlands í Úkraínu og fyrirætlanir stjórnvalda þar fela í sér ógn sem nær langt út fyrir núverandi stríðsátök og fela í sér djúpstæða ógn við frið, frelsi og farsæld um heim allan. Þar á meðal hjá okkur sjálfum og í þeim ríkjum sem við lítum á sem nánustu vini og bandamenn. Ef Rússland er ekki stöðvað er hætta á að fleiri ríki falli í kúgunarvald eða yfirráð Kremlarvaldsins.

Ljóst er að staða varnar- og öryggismála er gjörbreytt til langrar framtíðar. Þessu gera öll aðildarríki Atlantshafsbandalagsins sér grein fyrir og hafa brugðist við, bæði hvert og eitt og í sameiningu. Ísland á eins og önnur bandalagsríki að styðja dyggilega við varnarbaráttu úkraínsku þjóðarinnar og við uppbyggingar- og mannúðarstarf. Þingsályktunartillagan sem liggur fyrir Alþingi sendir skýr skilaboð um langtímastuðning til Úkraínu. Enginn er eyland – ekki einu sinni eyja eins og Ísland. Ísland er mikilvægur hlekkur í varnarkeðju bandalagsins, það hefur ekki breyst og mun ekki breytast. Við getum ekki skorast undan þeirri ábyrgð og verðum, líkt og önnur ríki, að leggja meira af mörkum. Okkar öryggi, með því frelsi og þeirri velmegun sem það skapar, er langt í frá sjálfsagt.