Sigurður Sigurðsson, Siggi Súdda, fæddist á Ísafirði 23. desember 1934. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eyri 27. mars 2024.

Foreldrar hans voru Sigurður Sigurðsson skólastjóri, f. á Ísafirði 7. mars 1889, d. 6. maí 1949, og Hildur Matthíasdóttir húsfreyja, f. í Vatnsfirði N-Ísafjarðarsýslu 1. júní 1896, d. 20. október 1963.

Systkini Sigurðar eru John, f. 31.5. 1926, d. 2.11. 1999, Ásthildur (Adda), f. 4.12. 1928, d. 29.4. 2020, Guðbjörg (Böggí), f. 21.2. 1930, d. 16.10. 2020, Hanna, f. 9.12. 1932, Álfhildur (Alfa), f. 15.7. 1936, d. 18.9. 2010, Brynhildur (Beta), f. 15.7. 1936, d. 18.11. 2022.

Sigurður giftist 12. ágúst 1967 Ingveldi Kristinsdóttur, f. 25. ágúst 1944. Foreldrar hennar voru Anna Margrét Guðmundsdóttir, f. í Naustvík, Árneshreppi á Ströndum, 29.7. 1917, d. 2.3. 2010, og Kristinn Hafliðason, f. 18.9. 1915, d. 26.8. 1974. Sigurður og Ingveldur slitu hjúskap árið 1984.

Börn Sigurðar og Ingveldar eru: 1) Anna Margrét, f. 20.11. 1965, eiginmaður Guðmundur Þ. Sigurðsson, f. 1966, börn þeirra eru Gíslína, f. 1993, sambýlismaður Þorgeir Jónsson, Ívar Orri, f. 1998, Arney Urður, f. 2004. Fyrir átti Anna Margrét Ingu Sigríði, f. 1984. Barnsfaðir Snorri Bogason. Eiginmaður Ingu Sigríðar er Óli Björn Finnsson, f. 1989, börn þeirra eru Kría Björk, f. 2016, og Máni Hrafn, f. 2018. 2) Sylvía, f. 25.7. 1967. Börn hennar Aron Freyr, f. 1990, barnsfaðir Þorsteinn Þorsteinsson. Eiginkona Arons er Katrín Ásta Gísladóttir, f. 1990, börn þeirra eru Viðja, f. 2016, og Salka, f. 2019. Guðsteinn Ingi, f. 1996. Hildur Svava, f. 1999, barnsfaðir Sveinn Steinar Guðsteinsson. 3) Guðmundur St., f. 3.6. 1972, sonur hans Óliver St., f. 2004, barnsmóðir Lovísa Rut Ólafsdóttir. Uppeldisdóttir Guðmundar er Magdalena, f. 2000. 4) Vagn Leví, f. 8.10. 1974, eiginkona Elva Dögg Gunnarsdóttir, f. 1973, börn þeirra Gunnar Leví, f. 2006, og Una Ingveldur, f. 2008. Uppeldissynir Vagns Levís eru Hrannar Leví, f. 1991, d. 2022, og Þórsteinn Ingi, 1996.

Sigurður ólst upp á Urðarvegi 2 á Ísafirði. Í kringhum 1960 kaupir hann Stakkanes/Seljalandsveg 87 þar sem hann bjó með fjölskyldu sinni til ársins 1981. Sigurður hafði þá byggt hús inni í firði að Árholti 13 og fluttist fjölskyldan þangað það sama ár. Sigurður vann alla tíð mikið og hafði um starfsævi sína unnið allt frá kennslu til sjómennsku. Hann var mkill náttúruunnandi og naut sín hvergi betur en á gönguskíðum sem hann iðkaði af kappi. Hann tók alls þátt í 39 Fossavatnsgöngum yfir ævina.

Útför fer fram frá Ísafjarðarkirkju í dag, 13. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku tengdapabbi er látinn, saddur lífdaga, á nítugasta aldursári. Ég kynntist Sigga fyrir tæpum tveimur áratugum þegar ég kom inn í fjölskylduna. Hann var hávaxinn og grannur, kurteis og fálátur og líklega myndu sumir segja að hann hafi verið einfari á sinn yfirvegaða hátt. Ég áttaði mig fljótlega á að ef ég ætlaði mér að kynnast tengdapabba mínum þyrfti ég að ríða á vaðið og hafa frumkvæði og jú smá lögg í glasið hans gerði svo galdurinn. Þær eru margar minningarnar frá kvöldum þar sem við Vagn Leví sátum með honum heima hjá okkur, spjölluðum, hlógum og hlustuðum á gamla góða tónlist sem Siggi valdi af kostgæfni. Gamli vínillinn hans lifnaði við á tölvuskjánum þar sem Dolly Parton og Kenny Rogers dilluðu sér.

Tengdapabbi var mikið náttúrubarn. Ótal margar sögur sagði hann mér af gönguskíðaafrekum sínum og þegar hann fór til rjúpna. Mér er minnisstætt þegar hann lýsti því fyrir mér hvernig hann hefði í gegnum tíðina sótt sér hvíld og ró með því að rölta einn upp á dal og ganga í lynginu. Þegar leið að hausti fengum við reglulega stöðuna á berjunum sem voru tínd um leið og þau voru nægilega þroskuð.

Við gerðum oft góðlátlegt grín að því hve stutt tengdapabbi vildi stoppa í heimsóknum sínum í Reykjavík. Ást hans á Ísafirði var endalaus, oft bað hann mig að finna vefmyndavélina sem myndar yfir Silfurtorgið, hann sat þá staddur í póstnúmeri 105 og horfði á sinn heimabæ.

Siggi tengdapabbi gerði ekki miklar kröfur, hann var afar þakklátur maður og endaði hann jafnan öll símtöl með kveðjunni „þakka þér fyrir“. Hjarta elsku tengdapabba sló alla tíð á Ísafirði, þar var hann fæddur og þar skyldi hann hvíla beinin. Það er því óhætt að segja að það hafi verið í hans anda að kveðja þegar hátíðin Aldrei fór ég suður hófst. Um leið og ég bið góðan Guð að gæta elsku tengdapabba verður mín hinsta kveðja í hans anda:

Þakka þér fyrir.

Þín tengdadóttir,

Elva Dögg.