O.J. Simpson mátar nýtt par af hönskum í yfirstærð frá Aris fyrir kviðdóminn í réttarhöldunum út af morðinu á fyrrverandi konu hans og vini hennar. Hanskarnir voru eins og þeir sem fundust á vettvangi morðanna og heima hjá hinum ákærða.
O.J. Simpson mátar nýtt par af hönskum í yfirstærð frá Aris fyrir kviðdóminn í réttarhöldunum út af morðinu á fyrrverandi konu hans og vini hennar. Hanskarnir voru eins og þeir sem fundust á vettvangi morðanna og heima hjá hinum ákærða. — AFP/Vince Bucci
Ákæruvaldið virtist vera með skothelt mál í höndunum, en eftir því sem á leið komu fram gallar á rannsókn lögreglu.

Á þjóðhátíðardaginn fyrir 30 árum, 17. júní 1994, sátu margir og horfðu á beina útsendingu frá leik New York Knicks og Houston Rockets í úrslitum NBA-körfuboltans. Skyndilega var útsendingin rofin og skipt yfir á hvítan Bronco, sem ekið var á 80 km hraða eftir hraðbraut 405 í Suður-Kaliforníu. Á eftir honum var lest af lögreglubílum. Í bílnum var O.J. Simpson á flótta undan lögreglu og er þetta sennilega hægasti bílaeltingaleikur sögunnar.

Nokkrum dögum áður, 12. júní, hafði fyrrverandi kona Simpsons, Nicole Brown Simpson, verið myrt með hrottalegum hætti ásamt félaga sínum, Ron Goldman, við heimili sitt í Brentwood í Los Angeles. Böndin beindust þegar að Simpson sem hafði beitt Nicole ofbeldi í hjónabandinu og haldið áfram að ofsækja hana eftir að þau skildu 1992. Á nýársdag 1989 var hún hálfnakin og illa haldin eftir barsmíðar í felum í runnum við heimili þeirra þegar lögregla kom að. Hann var handtekinn, en sleppt með sekt og viðvörun. Í október 1993 hringdi hún í neyðarnúmer og enn þurfti lögregla að skakka leikinn.

Á vettvangi morðsins fannst blóðugur hanski og ýmsar aðrar vísbendingar. Í bíl hans var blóð og á heimili hans fannst hinn hanskinn. Fimm dögum eftir morðið, sama dag og Nicole Brown var jörðuð, var gefin út ákæra á hendur Simpson fyrir morðið og hann lagði á flótta. Simpson sat í bílnum, hélt byssu að höfði sér og hótaði að svipta sig lífi. Undir stýri var Al Cowlings, gamall liðsfélagi hans úr Buffalo Bills. Lögregla fylgdi í hæfilegri fjarlægð án þess að skerast í leikinn og 95 milljónir manna fylgdust með í beinni útsendingu klukkustundum saman. Loks sneri Simpson heim til sín og var hnepptur í gæsluvarðhald.

Réttað í níu mánuði

Réttarhöldin í málinu hófust í janúar 1995, stóðu í níu mánuði og voru kölluð réttarhöld aldarinnar. Bandaríska þjóðin fylgdist með í beinni útsendingu hvernig ákæruvaldið og verjendurnir tókust á. Lögfræðingar Simpsons með Johnny L. Cochran í broddi fylkingar fengu viðurnefnið „draumaliðið“.

Ákæruvaldið virtist vera með skothelt mál í höndunum, en eftir því sem á leið komu fram gallar á rannsókn lögreglu. Myndir höfðu verið merktar vitlaust eða týnst, ekki hafði verið haldið rétt utan um öflun og varðveislu lífsýna og í ljós kom að rannsóknarlögreglumaðurinn Mark Fuhrman, sem var lykilvitni, hafði farið inn á heimili Simpsons og fundið hanskann, sem passaði við þann blóðuga á vettvangi, og önnur mikilvæg gögn án þess að vera með leitarheimild.

Verjendurnir héldu því fram að hanskanum hefði verið komið fyrir á heimili sakborningsins án þess að færðar væru á það sönnur. Ekki hjálpaði til að Fuhrman hafði ítrekað viðhaft rasísk ummæli. Hann hélt því fram að það hefði hann ekki gert í heilan áratug, en vitni sögðu það ekki satt og upptaka af útvarpsviðtali við hann sýndi að það var ekki rétt.

Þá þótti ákæruvaldið gera reginmistök þegar það kallaði Simpson til og lét hann máta eins hanska og fundust á vettvangi. Hann gerði það, en þeir voru of litlir og hann átti í mesta basli með að komast í þá. Þegar Cochran ávarpaði kviðdóminn í lok réttarhaldanna vísaði hann til þess og sagði að ef hanskinn passaði ekki yrði að sýkna – „If the glove don’t fit, you must acquit.“

Þegar upp var staðið hafði vörnin sýnt fram á að málatilbúnaður ákæruvaldsins uppfyllti ekki kröfur um sönnunarbyrði og að auki fært líkur að því að rasismi réði ríkjum í lögreglunni í Los Angeles sem hefði ákveðið að skella skuldinni á svarta manninn.

Sýknaður og sakfelldur

126 manns báru vitni í málinu, yfir þúsund sönnunargögn voru lögð fram og málskjölin voru 45 þúsund síður. Kviðdómurinn var í einangrun í 266 daga, sem er met í sögu Kaliforníu. Af 12 manns í kviðdómnum í málinu voru 10 svartir. Eftir níu mánuði í réttarsalnum tók það kviðdóminn þrjá tíma að komast að niðurstöðu. Simpson var sýknaður.

Dómurinn var mjög umdeildur og skiptist fólk í tvö horn – má segja að hvítum hafi blöskrað og svartir hafi fagnað.

Simpson var frjáls maður, en raunir hans voru ekki á enda. Fjölskyldur Brown og Goldmans fóru í einkamál þar sem farið var í gegnum alla málavöxtu að nýju. Í slíku máli gilda aðrar reglur um sönnunarbyrði. Að auki var meirihluti kviðdómenda hvítur. Nú var Simpson sekur fundinn og dæmdur til að greiða fjölskyldunum 33,5 milljónir dollara í skaðabætur.

Simpson sagði útilokað að hann gæti greitt þessa upphæð og réttargögn sýna að hann greiddi aðeins óverulegan hluta skaðabótanna.

Simpson efnaðist vel á ferli sínum sem íþróttamaður og fyrir að koma fram í auglýsingum og kvikmyndum. Eftir réttarhöldin var hins vegar ríkidæmið horfið. Hann settist að í Flórída og lifði meðal annars á eftirlaunum frá NFL, íþróttasambandi ameríska fótboltans, og bandarísku leikarasamtökunum. Samkvæmt lögum í Flórída má ekki skerða eftirlaun eða gera heimili upptæk vegna skaðabótadóma.

Árið 2006 fór Goldman-fjölskyldan í mál við Simpson að nýju. Hann hafði tryggt sér eina milljón dollara í fyrirframgreiðslu fyrir bók með heitinu Ef ég gerði það (If I Did It) og sjónvarpsréttindi á henni. Þar greindi hann frá því hvernig hann hefði framið morðin ef hann hefði verið sekur. Í stefnunni sagði að vísvitandi hefði verið gengið þannig frá greiðslunni að hún færi ekki upp í skaðabæturnar. Hætt var við bókina og kvikmyndun hennar, en Simpson hélt 800 þúsund dollurum af fyrirframgreiðslunni.

Goldman-fjölskyldunni tókst að ná í útgáfuréttinn að bókinni með því að leita til dómstóla og hún kom út 2007 og er þetta eitt furðulegasta mál í sögu bókaútgáfu. Hún hélt titlinum, en orðið If í If I Did It var skrifað örsmáu letri, en hinum þremur orðunum slegið upp. Í bókinni var líka formáli frá Goldman-fjölskyldunni, en Simpson áfram skráður höfundur.

Dómstólasögu Simpsons var ekki lokið. 2008 var hann sakaður um að ráðast inn í hótelherbergi í Las Vegas ásamt fimm vopnuðum mönnum til að stela minjagripum sem tengdust íþróttum frá sölumönnum. Simpson sagði að hann hefði einfaldlega verið að endurheimta eigur sínar, þar á meðal átta fótbolta og mynd af sér með J. Edgar Hoover, fyrverandi yfirmanni bandarísku alríkislögreglunar, FBI. Hann hefði ekki vitað að mennirnir með sér væru með byssur. Sá framburður var léttvægur fundinn og Simpson var dæmdur í minnst níu ára fangelsi. Dómurinn var kveðinn upp 3. október það ár, 13 árum upp á dag eftir að hann var sýknaður af morðunum á fyrrverandi konu sinni og vini hennar.

Simpson fékk reynslulausn árið 2017 með ákveðnum skilyrðum, meðal annars um ferðatakmarkanir, sem ekki var aflétt fyrr en 2021 þegar hann loks varð frjáls maður.

Enn kviknaði umræðan um sekt eða sakleysi Simpsons þegar gamall félagi hans, Mike Gilbert, sagði í bók að hann hefði játað morðin fyrir sér. Simpson hefði verið búinn að reykja marijúana og hefði sagt sér þetta eftir réttarhöldin. Simpson hefði sagt að hann hefði ekki haft hníf meðferðis þegar hann fór að heimili fyrrverandi konu sinnar, en hún hefði verið með hníf í hendinni þegar hún opnaði dyrnar og hann hefði notað hann. Simpson hefði líka sagt að hann hefði hætt að taka gigtarlyfin sín til að hendurnar á sér bólgnuðu upp svo hann gæti ekki komist í hanskana í réttarsalnum. Lögmaður Simpsons vísaði þessum fullyrðingum á bug og sagði að Gilbert væri ekki með réttu ráði.

Glæstur íþróttaferill

O.J. Simpson fæddist í San Francisco 9. júlí árið 1947, einn fjögurra systkina. Hann hét fullu nafni Orenthal James Simpson og þoldi ekki nafnið Orenthal. Sem barn þjáðist hann af beinkröm, sem orsakast af kalkskorti, og þurfti að ganga með spelkur í nokkur ár, en tókst að vinna bug á fötlun sinni. Faðir hans yfirgaf fjölskylduna þegar hann var fjögurra ára og móðir hans ól systkinin upp í félagsíbúð í San Francisco.

Hann var í slagtogi með götugengjum, en þegar hann var 15 ára hitti hann Willie Mays, leikmann San Francisco Giants, og sagði hann síðar að það hefði breytt lífi sínu. Hann gekk til liðs við fótboltaliðið í menntaskólanum sínum í San Francisco. Hann fór í San Francisco City College og skoraði 54 snertimörk á tveimur árum. Á þriðja ári í háskóla skipti hann yfir í University of Southern California og þar skoraði hann 36 snertimörk í 22 leikjum og hljóp 3.423 jarda með boltann. Hann fékk Heisman-verðlaunin 1968. Þau eru árlega veitt besta leikmanninum í amerískum háskólafótbolta.

Hann átti líka glæstan atvinnumannsferil. Hann var valinn fyrstur í nýliðavalinu 1969 af liðinu Buffalo Bills, sem var það versta í deildinni á þeim tíma. Þar var hann í sex ár. Fyrstu tvö árin var leiktími hans takmarkaður og meiðsli hrjáðu hann, en eftir það héldu honum engin bönd. Hann hljóp eins og hind og átti létt með að snúa andstæðingana af sér. Eftir níu ár með Buffalo Bills skipti hann yfir til San Francisco 49ers og var þar í tvö ár. Þegar hann lagði skóna á hilluna árið 1979 var hann hæst launaði leikmaðurinn í amerískum fótbolta.

Samhliða íþróttaferlinum lék hann í kvikmyndum og sjónvarpsþáttum. Má þar nefna sjónvarpsþættina Rætur og gamanmyndina The Naked Gun.

Hann var þekktur fyrir að tala óhikað við blaðamenn og aðdáendur, veita eiginhandaráritanir og stilla sér upp með börnum fyrir myndatökur. Í viðtölum hrósaði hann alltaf liðsfélögum sínum og þjálfurum í hástert.

Hann kom líka fram í auglýsingum og eru auglýsingar fyrir bílaleiguna Hertz sennilega þekktastar. Þar hleypur hann eins og eldibrandur og stekkur yfir allar hindranir til að komast í bílaleigubíl frá Hertz.

O.J. Simpson lést á miðvikudag af völdum krabbameins. Hann var 76 ára gamall.

Og Knicks unnu leikinn sem stóð yfir 17. júní 1994 þegar eltingaleikurinn við Simpson hófst og komust í stöðuna 3-2 á móti Rockets. Þeir töpuðu hins vegar næstu tveimur leikjum og bíða enn eftir næsta meistaratitli í NBA.