Eftirsótt Elka segir að samanburður við launaþróun annarra háskólamenntaðra hópa bendi til að meðlimir FVH hafi sterka samningsstöðu.
Eftirsótt Elka segir að samanburður við launaþróun annarra háskólamenntaðra hópa bendi til að meðlimir FVH hafi sterka samningsstöðu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Félag viðskipta- og hagfræðinga birti nýverið niðurstöður nýrrar kjarakönnunar en allt frá 1997 hefur félagið framkvæmt könnun af þessu tagi annað hvert ár.

Viðtal

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Félag viðskipta- og hagfræðinga birti nýverið niðurstöður nýrrar kjarakönnunar en allt frá 1997 hefur félagið framkvæmt könnun af þessu tagi annað hvert ár.

Elka Ósk Hrólfsdóttir er formaður FVH og segir hún nýjustu könnunina m.a. sýna að óleiðréttur kynbundinn launamunur meðal viðskipta- og hagfræðinga er á niðurleið og hefur hann lækkað um 4 prósentustig síðastliðinn áratug en um hátt í 20 prósentustig frá aldamótum.

Í krónum talið mældust karlar að jafnaði með um 180.000 kr. hærri laun en konur og þá reyndist rösklega 100.000 kr. munur á launum svarenda eftir því hvort þeir voru búsettir á höfuðborgarsvæðinu eða á landsbyggðinni. Bendir Elka á að þessar tölur verði að skoða með hliðsjón af því að aðrir þættir en kyn eða búseta geta skýrt launamuninn, s.s. starfsvettvangur, starfsheiti, mannaforráð eða stærð fyrirtækja. „Ef breytingarnar frá síðustu könnun eru skoðaðar þá virðist miðgildi launa viðskipta- og hagfræðinga hafa hækkað umfram það sem aðrir háskólamenntaðir hópar á vinnumarkaði hafa fengið, sem gefur til kynna að í atvinnulífinu sé samningsstaða viðskipta- og hagfræðinga sterk.“

FVH hefur síðastliðin ár boðið upp á launareiknivél sem unnin er úr niðurstöðum kjarakönnunarinnar og á að gagnast félagsmönnum til að bera laun sín saman við aðra viðskipta- og hagfræðinga út frá tilteknum forsendum. „Ef við skoðum aldurshópinn undir 25 ára sem er nýkominn úr námi og að stíga sín fyrstu skref á vinnumarkaði þá er miðgildi launa í kringum 600.000 kr. en þegar komið er upp í aldursbilið 45 til 49 ára er miðgildið komið upp í 1.248.000 kr.“ segir Elka.

Konum fer fjölgandi í hagfræðinámi

Könnunin leiddi í ljós að félagsmenn FVH gegna fjölbreyttum hlutverkum og virðast starfa í hverjum einasta geira atvinnulífsins, jafnt í bankageira, útgerð og stóriðju sem í flutningageira, orkugeira og ferðaþjónustu. Segir Elka að það fari ekki milli mála að hagfræði- eða viðskiptafræðigráða fleyti fólki langt og opni margar dyr. Hún segir jafnframt að ekki séu merki um offramboð af viðskipta- og hagfræðingum og virðast háskólarnir leysa vel af hendi það verkefni að laga áherslur námsins að þörfum atvinnulífsins hverju sinni. Mun færri leggja þó stund á nám í hagfræði en viðskiptafræði og má áætla að fyrir hvern hagfræðinemanda séu að jafnaði fjórir nemendur sem læra viðskiptafræði ef litið er til fjölda útskrifaðra í grunnnámi frá HÍ. „Við sjáum að kynjahlutföll nemenda hafa breyst og hefur konum fjölgað umtalsvert í hagfræðináminu sem áður var mestmegnis stundað af körlum. Grunar mig að þar spili inn í að konur hafa valist til starfa í efstu lög fjármálageirans og verið sýnilegar í samfélagsumræðunni.“

Höf.: Ásgeir Ingvarsson