Gísli Arnkelsson, kristniboði og kennari, fæddist 19. janúar 1933. Hann lést 1. apríl 2024.

Foreldrar hans voru Arnkell Ingimundarson, verkstjóri í Ölgerð Egils Skallagrímssonar, f. 5. október 1900, d. 23. júní 1982, og Valgerður Kristín Gunnarsdóttir, ljósmóðir og húsmóðir, f. 23. júlí 1894, d. 27. ágúst 1980.

Æskuheimili Gísla stóð við Þrastargötu 2b á Grímsstaðaholti og frá 12 ára aldri á Frakkastíg 14b. Systkini Gísla voru: Gunnar Valgeir, 1922-2008, Jakobína Unnur, 1928-1994, Benedikt Ingimundur, 1926-2002, Sverrir Þorbjörn, 1926-2011 og fóstursystir Júlíana Rut Woodward, 1942-2017.

Hinn 31. desember 1954 kvæntist Gísli eftirlifandi eiginkonu sinni, Katrínu Þorbjörgu Guðlaugsdóttur, f. 24. september 1934. Foreldrar Katrínar voru Guðlaugur Þorláksson skrifstofustjóri, 1907-1974, og Camilla A. Sandholt, 1909-1994. Gísli og Katrín eignuðust sex börn, 17 barnabörn og 27 barnabarnabörn. Börn Katrínar og Gísla eru: 1) Guðlaugur, f. 1956, kvæntur Birnu Gerði Jónsdóttur. Þeirra börn eru: a) Guðrún Birna, maki Pétur Ragnarsson, b) Katrín, maki Ólafur G. Long. 2) Valgerður Arndís, f. 1958, gift Guðlaugi Gunnarssyni. Þeirra börn eru: a) Katrín, maki Marklan Jackson, b) Vilborg, maki Kolbeinn Daníel Þorgeirsson, c) Gísli, maki Kristín Sigrún Magnúsdóttir. 3) Bjarni, f. 1961 kvæntur G. Elísabetu Jónsdóttur. Þeirra börn eru: a) Ingunn, maki Gunnar Solberg, b) Elías, maki Hildur Björg Gunnarsdóttir, c) Aron, maki Dagbjört Eilíf Baldvinsdóttir, d) Markús, maki Heiðbjört Höskuldsdóttir, e) Birkir, maki Gríma Katrín Ólafsdóttir. 4) Karl Jónas, f. 1963, kvæntur Ragnheiði Guðmundsdóttur. Þeirra börn eru: a) Ásta María, maki Brynjar Halldórsson, b) Gísli Davíð, maki Vera Guðmundsdóttir. 5) Kristbjörg Kía, f. 1966, gift Ragnari Schram. Þeirra börn eru: a) Harpa Vilborg, maki Hjalti Jóel Magnússon, b) Friðrik Páll. 6) Kamilla Hildur, f. 1969, gift Guðmundi Karli Brynjarssyni. Þeirra börn eru: a) Kristín Gyða, maki Ólafur Ingi Jónsson, b) Felix Arnkell, maki Kinga Wakulowska, c) Brynjar Karl, kærasta Eva Sigurðardóttir.

Gísli lauk kennaranámi 1954 og kenndi við Ísaksskóla og Melaskóla fram til 1959. Eftir það hélt hann með fjölskyldu sína til náms við kristniboðaskóla í Noregi.

Gísli starfaði sem kristniboði í Konsó í Eþíópíu 1961-1972 með árshléi. Frá 1972 vann hann á aðalskrifstofu SÍK, KFUM K. Frá 1976 vann hann í hlutastarfi hjá Sambandi ísl. kristniboðsfélaga (SÍK) og sinnti samhliða kennslu við Mýrarhúsaskóla en frá 1985 til starfsloka var hann í fullu starfi þar. Gísli var einnig ökukennari í mörg ár.

Frá barnsaldri sótti Gísli fundi í KFUM. Hann varð ungur félagsmaður í aðaldeild KFUM og var frá unglingsárum mjög virkur í félagsstarfinu m.a. sveitarstjóri í mörg ár. Hann sat í stjórn Kristilegra skólasamtaka í 2 ár. Þá var hann félagi í Kristniboðsfélagi karla í Rvk. Gísli sat í stjórn SÍK 1973-1985 og var formaður þann tíma og tók mikinn þátt í fundum og samkomum utan bæjar sem innan.

Útför Gísla fer fram frá Neskirkju í dag, 15. apríl 2024, klukkan 13.

Genginn er höfðingi. Ættarhöfðingi. Gilli brosti gjarnan vandræðalega þegar ég kallaði hann ættarhöfðingja. En það var hann sannarlega, með 50 afkomendur.

Gilli var mér frábær tengdafaðir. Hann var alltaf viðræðugóður og vel inni í hlutunum. Ekki bara þjóðmálunum og alþjóðamálunum, heldur líka lífsgöngum síns fólks. Hann vissi hvað hver og einn var helst að fást við og var duglegur að spyrja og afla sér upplýsinga. Hann hringdi gjarnan í fólkið sitt til að spyrjast fyrir um það helsta. Og þegar barnabörnin voru veik gat maður alltaf búist við símtali frá afa Gísla til að spyrjast fyrir um líðan þeirra. Jafnvel á lokametrunum, þegar hann var mjög veikur og máttfarinn, spurði hann út í smáatriði sem við höfðum áður rætt.

Ekki spillti það fyrir góðri vináttu okkar Gilla að hann var líka Valsari.

Ég get ekki skrifað minningarorð um tengdapabba minn án þess að minnast á einlæga trú hans á Jesú Krist. Hann átti þátt í að kynna þjóðflokkum í Eþíópíu hver Jesús Kristur er, með því augnamiði að þeir gætu sjálfir tekið upplýsta ákvörðun um hvort þeir vildu fylgja honum. Sjálfur var Gilli einlægur fylgjandi hans og bar líf hans þess augljós merki. T.d. var hann mjög meðvitaður um mikilvægi þess að fólk viðurkenni mistök sín og biðjist afsökunar eða fyrirgefningar og fór þar á undan með góðu fordæmi.

Ég þakka góðum Guði fyrir að hafa fengið að kynnast Gilla og verið hluti af stórri fjölskyldu hans og Systu. Þau stóðu alltaf þétt saman og með sínu fólki. Guð styrki Systu í sorginni og blessi minningu Gilla.

Ragnar Schram.

Ég kom fyrst inn á heimili Gísla og Systu á Ægisíðu fyrir 50 árum þar sem við Vallý vorum vinkonur. Fjölskyldan kom heim frá Eþíópíu 1972 eftir tíu ára dvöl og litaði það óhjákvæmilega samskipti og andrúmsloft á heimilinu. Frásögur að utan voru ævintýralegar og spennandi og elstu krakkarnir töluðu norsku sín á milli eftir dvöl á norskum heimavistarskóla. Systa og Gísli voru óþreytandi að kynna kristniboðsstarfið á fundum og samkomum og var nóg að gera á stóru heimili, börnin sex og í kjallaranum bjuggu foreldrar Gísla, Valgerður og Arnkell. Gísli kenndi í Mýrarhúsaskóla en tók auk þess ökukennarapróf og var ég fyrsti nemandi hans. Það var því okkur báðum jafnmikilvægt að ég myndi ná prófinu og það tókst enda Gísli góður kennari, nákvæmur og þolinmóður. Þau hjónin voru ólík en samhent í lífi og starfi. Þegar ljóst var að ég kom ekki inn á heimilið til að heimsækja Vallý heldur elsta soninn var mér fagnað sérstaklega. Það tók mig tíma að vera ekki hrædd við Gísla; hann var ákveðinn og lá ekki á skoðunum sínum en samskipti okkar voru alla tíð hreinskiptin og einlæg.

Gísli fylgdist vel með samferðafólki sínu, sérstaklega þeim sem voru veikir eða áttu erfitt, setti sig í samband og spurði frétta. Hann lagði sig allan fram þegar verulega bjátaði á og minnist ég nokkurra mánaða þegar Gulli var alvarlega veikur og tóku þau hjónin ekki annað í mál en að við myndum flytja til þeirra þar til erfiðustu meðferðinni væri lokið. Þetta var dýrmætur tími fyrir okkur og þarna kynntist ég vel einstakri umhyggju og kærleika þeirra beggja. Þau samglöddust einlæglega þegar við komum heim með dætur okkar frá Indónesíu og hafa alla tíð sýnt þeim, mökum þeirra og börnum ást og athygli.

Gísli spilaði ungur fótbolta með Val og hafði mikla ánægju af því að horfa á fótboltaleiki í sjónvarpi, ekki síst þegar heilsu hans fór hrakandi. Hann deildi þessum fótboltaáhuga með ömmustrákunum og hafði gaman af að fylgjast með framförum þeirra. Gísli var mikill fréttafíkill og fylgdist vel með því sem var að gerast í samfélaginu allt fram á síðasta dag.

Þegar við fjölskyldan fórum til starfa til Eþíópíu 1991 bjuggum við á heimaslóðum Systu og Gísla í Konsó. Við skynjuðum fljótt mikla virðingu og aðdáun fólksins í Konsó þótt liðin væru 20 ár frá því að þau fóru þaðan. Orðspor þeirra lifir enn og við fréttir af andláti Gísla hafa borist hlýjar kveðjur frá einstaklingum og söfnuðum í Konsó og daginn eftir andlát hans var haldin minningarstund í kirkjunni. „Hversu fagurt er fótatak þeirra sem boða fagnaðarerindið um hið góða“ (Róm 10:15). Eftir starf Gísla og Systu má segja að liggi fögur fótspor m.a. í formi öflugs safnaðarstarfs í Konsó.

Gísli átti einlæga trú á frelsara sinn Jesúm Krist og duldist það engum sem hann hitti. Hann vitnaði um trú sína t.d. við starfsfólk Hrafnistu og gaf sig sérstaklega að unga fólkinu sem hann talaði mjög hlýlega um, þakklátur fyrir nærgætni þeirra við umönnun. Ég bið Guð að blessa elsku Systu og kveð tengdaföður minn full þakklætis fyrir langa samfylgd.

Birna Gerður Jónsdóttir.

Um verslunarmannahelgina 1972 var unglingamót KFUM og KFUK í Vatnaskógi. Á kvöldvöku gaf Gísli Arnkelsson viðstöddum innsýn í líf fólksins í Konsó í Eþíópíu. Þar höfðu þau Katrín þá starfað í samtals áratug, einmitt á þeim tíma þegar kristniboðsstarfið fór að bera sýnilegan ávöxt í ríkum mæli.

Frásögn Gísla var afar lifandi, krydduð ótrúlegum og áhrifaríkum sögum sem höfðuðu til 13 ára unglings.

Þetta sumar fluttust þau hjónin aftur til Íslands eftir starfstíma sinn í Konsó og settust að í Vesturbænum með börnin sín sex. Þau eldri urðu kunningjar mínir og vinir, skólafélagar, leikfélagar og síðar samstarfsfólk. Öll börnin eru mikið öndvegisfólk og bera foreldrum sínum fagurt vitni.

Gísla og Katrínu kynntist ég þó ekki eingöngu gegnum þau heldur einnig í margvíslegum samskiptum og samstarfi á vettvangi kristilega starfsins. Alltaf fannst mér Gísli njóta sín best þegar hann leyfði sér að hverfa aftur til Konsó í huganum og svo komu sögurnar, beint frá hjartanu. Það er alveg víst að Gísli á stóran þátt í kristniboðsáhuga margra, ekki síst okkar sem erum á svipuðu reki og börn þeirra Katrínar.

Í samstarfi og samskiptum var hann heilsteyptur og heiðarlegur, hreinskilinn en einnig umburðarlyndur. Á síðari árum var hann ekki mikið á ferðinni en oft hringdi hann með uppörvandi orð þegar mest á reið. Fyrir það þakka ég sérstaklega að leiðarlokum, sem og fyrirbænir þeirra hjóna gegnum árin. „Náð mín nægir þér því að mátturinn fullkomnast í veikleika“ (IIKor. 12:9) segir Drottinn við þjón sinn. Í þeirri náð lifði og dó Gísli Arnkelsson. Í sömu náð lifa þau sem næst honum stóðu, sem og við hin sem vorum honum hjartfólgin og kær, bæði hér á landi og í ungu kirkjunni í Suður-Eþíópíu þar sem Gísli og Katrín lögðu svo mikið af mörkum.

Ólafur Jóhannsson.

Þegar við kveðjum samstarfsmann okkar til margra ára og þó miklu frekar kæran vin, Gísla Arnkelsson, leitar hugurinn aftur í tímann – á gömlu kennarastofuna í Mýrarhúsaskóla. Þar var oft þröngt setinn bekkurinn en mikið óskaplega gat verið gaman í þrengslunum. Gísli átti stóran þátt í því. Hann gat verið alvörugefinn, þegar ástæða var til, en oftar en ekki vorum við þó á léttu nótunum. Þá lét hann alls ekki sitt eftir liggja. Hárfínn og góðlegur húmorinn féll vel í kramið og kryddaði tilveruna svo sannarlega. Þarna voru þjóðmálin krufin til mergjar og ekki fór lítið fyrir íþróttunum, knattspyrnunni og handboltanum. Hann var Valsari og Arsenal-maður og fylgdist vel með liðum sínum, sem og íslensku landsliðunum í þessum íþróttagreinum. Já, okkur skorti aldrei umræðuefni.

Gísli var frábær kennari. Nemendurnir voru vinir hans og þeir hafa vafalítið kunnað að meta það sem hann kenndi þeim á bókina og um lífið – ef ekki strax, þá síðar. Hann gaf mikið af sér og þeir sem af einhverjum ástæðum stóðu höllum fæti í náminu áttu í honum hauk í horni.

Oft söfnuðust margir bekkir eða jafnvel allir saman á sal af einhverju tilefni. Þá vildi oft verða handagangur í öskjunni áður en formleg dagskrá hófst. Hávaðinn var stundum að gera út af við okkur kennarana en þá klappaði Gísli nokkrum sinnum saman höndum og hóf að spinna upp úr sér sögu. Samstundis féll allt í dúnalogn. Það vildi enginn missa af sögunni, hvorki nemendur … né kennarar. Hún var svo spennandi og vel sögð. Þetta var algjör snilld. Og ekki munum við betur en það hafi alltaf verið ný og ný saga. Þessi hæfileiki er fæstum gefinn.

Okkur langar til að nefna annað sem sýnir hversu Gísli átti auðvelt með að ná til ungdómsins. Hann var þá á ferðinni með strætisvagni og aftast í honum voru nokkrir drengir með læti. Mikil læti. Gott ef það hafði ekki kastast í kekki með þeim. Jæja, þegar í algjört óefni var komið stóð vinur okkar upp, gekk aftur í til drengjanna og sagði: „Segið mér, strákar, með hvaða liði haldið þið í boltanum?“ Þeir litu upp, hættu um leið öllum kýtingi og tóku boltaumræðuna föstum tökum. Þegar Gísli yfirgaf strætóinn voru þeir enn í hörkuspjalli um knattspyrnu!

En það voru ekki bara nemendur Gísla og gaurar í strætó sem fengu að njóta ráða hans og hæfileika í mannlegum samskiptum. Við, samkennarar hans, áttum hann líka að þegar á móti blés og þáðum oft frá honum góð ráð. Það munaði um minna.

Um leið og við þökkum Gísla Arnkelssyni fyrir samleiðina og vináttuna, sem aldrei féll skuggi á, vottum við eiginkonu hans, Katrínu Þ. Guðlaugsdóttur, börnum þeirra og öðrum ættingjum dýpstu samúð okkar. Minningin um góðan mann lifir áfram um ókomin ár.

Marteinn Már Jóhannsson og Guðjón Ingi Eiríksson.

Gísli Arnkelsson var meðal frumkvöðla kristniboðsstarfsins í Konsó í Eþíópíu á 7. áratug síðustu aldar. Kristniboðssambandið (SÍK) hafði tekið að sér að byggja upp og manna kristniboðsstöð í Konsó sem var sannarlega á hjara veraldar á þessum tíma. Fólk sem til þekkti var ekki bjartsýnt á árangur af starfinu en Guð gerði mikla hluti og kirkjan í Konsó er nú jafnfjölmenn Þjóðkirkjunni hér heima.

Fyrstu kristniboðarnir komu til Konsó 1954 og Gísli og Katrín nutu þess að þegar var búið að plægja akurinn í nokkur ár, söfnuður var stofnaður og boðskapurinn um að Jesús væri sterkari en Satan breiddist út meðal fólksins. Mikið uppbyggingarstarf beið þeirra, áskoranir og verkefni af ýmsu tagi. Grunnskóli og sjúkraskýli voru byggð og hið síðarnefnda stækkað í heilsugæslustöð með mörgum rúmum enda þjónaði hún stóru svæði. Bæta þurfti aðgengi að vatni, koma upp öflugum ljósamótor, sinna viðgerðum og ótal öðru. Langt var í verslanir og sumt fékkst bara í höfuðborginni en ferð þangað tók 2-3 daga og jafnvel vikur á rigningartímanum. Starfið allt var unnið í bæn til Drottins.

Boðun fagnaðarerindisins um Jesú var frumköllunin og það sem breytti mestu fyrir Konsó-menn. Það var þó ekki átakalaust og reyndu ýmsir í lykilstöðum að hamla framgöngu starfsins. Endaði það með kærum og fangelsun samstarfsmanna en einnig með sigri réttvísinnar. Án efa tóku þessi mál á og eins þegar börnin fóru alla leið til höfuðborgarinnar í nám og bjuggu á heimavist langt að heiman, en sú tilhögun var talin heppilegust á þeim tíma.

Tvennt man ég að þau hjónin minntust á oftar en einu sinni, annars vegar að árin í Konsó hefðu verið tíu bestu ár þeirra og hins vegar að þau hefðu átt einstaklega gott samstarfsfólk sem vann með þeim í starfinu. Markmiðið var alltaf að kirkjan yrði sjálfstæð og heimamenn tæku við stjórninni sem reyndist tiltölulega auðvelt vegna góðs sambands, vináttu og trausts milli kristniboða og heimamanna. Þar var samband og samstarf við séra Berrisha Hunde alveg einstakt. Hann var sannkölluð Guðs gjöf til kristniboðsins og til síns fólks.

Að starfstíma loknum í Eþíópíu var Gísli valinn til forystu fyrir SÍK og starf þess hér heima og erlendis. Því sinnti hann af einlægni og alúð í 12 ár. Gísli var persónulegur og hreinskilinn um skoðanir sínar og tilfinningar.

Þau hjónin heimsóttu á eigin kostnað bæði Eþíópíu og Keníu árið 1984, en þá vorum við hjónin á öðru ári starfs okkar úti. Var þessi heimsókn afar dýrmæt og uppörvandi fyrir okkur, að geta rætt það sem við glímdum við í starfinu við reynslumikla kristniboða. Án hennar hefði róðurinn án efa orðið þyngri.

Eftir að undirritaður tók við sem framkvæmdastjóri SÍK hringdi Gísli oft, ekki síst fyrstu árin, til að fá fréttir og uppörva mann, hvetja og þakka fyrir það sem hann var ánægður með.

Nú er tími til að þakka allt hið góða sem Gísli var kristniboðsstarfinu. Kveðjur hafa borist SÍK frá fyrrverandi samstarfsfólki í Konsó. Gísla er sárt saknað, hann var andlegur faðir ótalmargra Konsóbúa, starf hans var vissulega blessunarríkt.

Ragnar Gunnarsson

Vorið 1954 luku 29 nemendur prófi frá Kennaraskóla Íslands. Þótt flestir væru ungir að árum var samt veruleg aldursdreifing; sá elsti í hópnum var fæddur 1908, yngsti 1935. Sýn þessara einstaklinga á lífsstarfinu, sem nú stóð þeim opið, var líka með ýmsu móti. Fyrir suma var það köllun, sem tilhlökkunarefni var að fylgja, fyrir aðra meira vafamál. Gísli Arnkelsson var án efa í fyrrnefnda hópnum, hans leiðarljós og gildi voru frá æsku á þann veg mótuð að uppfræðsla hlaut að verða meginþáttur í komandi starfi. Sú varð líka raunin, hann varð sannur kennari og kennimaður, bæði við störf í íslensku skólakerfi og sem trúboði í alhliða uppbyggingarstarfi fyrir fólk í Konsó í Eþíópíu. Á Konsóárunum eignuðust Gísli og Katrín Þorbjörg Guðlaugsdóttir, kona hans, fjögur af sínum sex börnum, og þegar þjónustunni þar lauk sinnti hann stjórnunarstörfum fyrir þau kristilegu samtök, sem alla tíð voru hans stoð og bakhjarl, en lauk ferli sínum sem kennari í fullu starfi við Mýrarhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Það verður því ekki með sanni sagt að Gísli heitinn hafi slegið slöku við að fylgja eftir hugsjónum sínum, ásamt því að nýta og auka starfsmenntun sína í þeim tilgangi hins sanna kennimanns að leggja sitt af mörkum til að styrkja samfélagið með eflingu uppvaxandi kynslóða. Hann var þar ekki einn á ferð, en byggði á þeim grunni sem fólginn er í styrku hjónabandi og sterkum fjölskylduböndum.

Eins og ljóst má vera var starfsferill Gísla þannig að hann var langdvölum fjarri flestum þeim, er verið höfðu skólasystkin hans í kennaranámi. Það var því athyglisvert hversu vel hann fylgdist með ferli gamalla kunningja og hve iðinn hann var við að láta til sín heyra þegar honum virtist eitthvað bjáta á. Fyrir þetta þökkum við sem eftir stöndum úr gamla félagahópnum og sendum Katrínu Þorbjörgu og öllum afkomendum hennar og Gísla einlægar samúðarkveðjur. Um leið minnumst við þriggja annarra bekkjarsystkina, sem fallið hafa frá undanfarin misseri. Þau eru Gunnar H. Hjartarson (16.12. 1932-20.11. 2021), Guðríður S. Jónsdóttir (19.4. 1932-25.5. 2022) og Fríða J. Daníelsdóttir (15.1. 1935-20.11. 2023). Aðstandendum þeirra eru hér sendar síðbúnar samúðarkveðjur.

F.h. bekkjarfélagsins Neista,

Hinrik Bjarnason.

Kveðja frá forystu kirkjunnar í Konsó:

Það var okkur mikið áfall að heyra um fráfall bróður okkar Gísla B. Arnkelssonar. Við viljum flytja aðstandendum og kristniboðsvinum á Íslandi okkar einlægu samúðarkveðjur. Við minnumst hans ávallt fyrir boðunarstarf hans, að hann kom á fót söfnuði í þorpinu Nagúlle og víðar um Konsóhérað. Við munum aldrei gleyma tímanum sem hann starfaði í Konsó á valdatíð keisarans Haile Selassie og með héraðsstjóranum Tadese Wolde. Guð hefur gert undursamlega hluti í Konsó vegna starfs Gísla. Við gætum talið upp mjög margt að ógleymdum ráðleggingum, hans föðurlegri leiðsögn og uppörvunarorðum á tímum ofsóknanna.

Kæru bræður og systur á Íslandi. Við höfum staðið með ykkur í útbreiðslu fagnaðarerindisins í áraraðir og metum þá kristniboða sem hafa starfað hér í Konsó mjög mikils og þá reynslu sem þeir skildu eftir. En við erum að sjá á bak þeim einum af öðrum og við í söfnuðunum í kirkjunni í Konsó erum harmi slegin. Við munum ekki gleyma því sem þeir hafa lagt af mörkum og gera enn eða erfiði þeirra og trúfesti við starf Guðs í Konsó. Við lítum á Gísla Arnkelsson og fjölskyldu hans sem Konsófólk á Íslandi og vitum að hugur þeirra er gagnkvæmur. Sem fulltrúar Konsóþjóðarinnar viljum við koma á framfæri okkar dýpstu meðaumkun og hjartans samúðarkveðjum til allrar fjölskyldunnar, kristniboðsfélaganna og kirkjunnar á Íslandi á þessum sorgartíma. Hann hvíli í friði.

Í 2. Tímóteusarbréfi 4, 7-8 segir: „Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna. Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn, hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi. Og ekki einungis mér heldur og öllum sem þráð hafa endurkomu hans.“

Morguninn eftir andlát Gísla söfnuðumst við saman, fulltrúar safnaðanna sem eru í nágrenni við kristniboðsstöðina í Konsósókn og leiðtogar sýnódunnar, öldungar, prestar og fagnaðarboðar ásamt öðrum vinum í Konsó, til að eiga samfélag og tjá samúð okkar. Við byrjuðum fyrir utan húsið sem Gísli og fjölskylda bjuggu í og fórum síðan í skrúðgöngu inn í kirkju þar sem við báðum og þökkuðum Guði fyrir Gísla.

Kusse Kushuso, Getachew Gelebo sýnóduforseti og Orase Oliso formaður sóknarnefndar.