Dagmar Ásgeirsdóttir fæddist í Reykjavík 3. október 1934. Hún lést á heimili sínu 27. mars 2024.

Foreldrar hennar voru Ásgeir Óskar Matthíasson blikksmíðameistari, f. á Akureyri 9. febrúar 1904, d. 17. mars 1988, og Þorgerður Jóhanna Magnúsdóttir húsmóðir, f. á Sléttu í Mjóafirði 24. nóvember 1905, d. 24. janúar 1985.

Systur Dagmarar: Guðfinna Matthildur f. 6. febrúar 1936, d. 29. janúar 2024; Ása Karen, f. 3. desember 1942, d. 27. október 2015; Anna Guðlaug, f. 3. desember 1942.

Dagmar giftist hinn 20. apríl 1957 Vilhjálmi Stefáni Guðlaugssyni húsasmíðameistara, f. á Djúpavogi 16. júlí 1930, d. 31. október 2016. Foreldrar hans voru Guðlaugur Stefánsson húsgagna- og húsasmiður, f. á Hamri í Hamarsfirði 31. janúar 1906, d. 4. nóvember 1957, og Bjarnfríður Vilhjálmsdóttir saumakona, f. á Skeggjastöðum í Mosfellssveit 4. janúar 1904, d. 21. júlí 1985.

Börn Dagmarar og Vilhjálms eru: 1) Bjarnfríður, f. 22. apríl 1956, eiginmaður hennar er Þór Örn Jónsson f. 1958. Dóttir Bjarnfríðar og Steingríms Matthíassonar, f. 1953, d. 1980, er Brynja, f. 1975. 2) Ásgeir, f. 5. september 1957, d. 24. janúar 2024, sambýliskona Laufey Brekkan, f. 1966. Börn Ásgeirs og Elísabetar Árnadóttur, f. 1960, eru Árni Stefán, f. 1982, Rebekka Dagmar, f. 1986, og Vilhjálmur, f. 1988. 3) Sjöfn Guðlaug, f. 1. október 1961, eiginmaður hennar er Magnús Þór Eggertsson, f. 1960. Börn þeirra eru Eggert, f. 1987, Bjarnfríður, f. 1991, Fjóla, f. 1998, d. 1998, Ingi Þór, f. 2000, og Guðjón Snær, f. 2000. 4) Hanna Þorgerður, f. 18. maí 1965, eiginmaður hennar er Jens Þór Svansson, f. 1963. Börn þeirra eru Ingunn, f. 1988, Þórhildur, f. 1993, og Vilhjálmur Kári, f. 1996.

Barnabarnabörn Dagmarar eru 15 talsins.

Dagmar sleit barnsskónum í Vesturbæ Reykjavíkur, fyrst á Öldugötu og Ásvallagötu en flutti síðan fjögurra ára á Hofsvallagötu. Hún gekk í Miðbæjarskólann og lauk landsprófi frá Gagnfræðaskóla Vesturbæjar árið 1950. Eftir að Dagmar kláraði gagnfræðaskólann starfaði hún m.a. í Rúgbrauðsgerðinni og Björnsbakaríi.

Hún flutti með Vilhjálmi eiginmanni sínum í vesturbæ Kópavogs árið 1955. Þar bjó hún í tæp 70 ár. Fyrst á Skjólbraut 1, síðan Meðalbraut 4 og nú síðast á Kópavogsbraut 1a. Eftir að börnin fæddust var hún heimavinnandi húsmóðir en meðfram heimilisstörfum prjónaði hún lopapeysur og seldi. Einnig hafði hún gaman af að sauma út og eftir hana liggja fallegar útsaumsmyndir.

Í byrjun áttunda áratugarins hóf hún störf á Esjubergi, Hótel Esju. Þar starfaði hún sem gjaldkeri til ársins 1989. Síðan vann hún í bókaverslun Eymundsson á Seltjarnarnesi til 1997. Eftir að Dagmar hætti að vinna sótti hún margs konar námskeið og einnig naut hún þess að ferðast með Vilhjálmi eiginmanni sínum bæði innanlands og utan.

Dagmar verður jarðsungin frá Kópavogskirkju í dag, 15. apríl 2024, og hefst athöfnin kl. 13.

Hinsta kveðja til mömmu.

Fallin er hjartans fögur rós

og föl er kalda bráin.

Hún sem var mitt lífsins ljós

ljúfust allra er dáin.

Þú alltaf verður einstök rós,

elsku vinan góða.

Í krafti trúar kveiki ljós

og kveðju sendi hljóða.

(Jóna Rúna Kvaran)

Minning þín munu lifa að eilífu.

Takk fyrir allt, elsku mamma. Hvíldu í friði.

Þín,

Sjöfn Guðlaug.

Elsku mamma mín var falleg og hjartahlý kona. Hún ólst upp í vesturbæ Reykjavíkur hjá umhyggjusömum foreldrum og þremur yngri systrum, mikill kærleikur ríkti á milli þeirra allra. Um mitt sumar árið 1954 fór mamma á ball í Vetrargarðinum og hitti þar pabba minn. En hann átti afmæli þennan sama dag. Skömmu síðar flutti mamma til hans og foreldra hans í Kópavog.

Ég á margar fallegar minningar um mömmu. Fyrstu minningar mínar eru úr litlu risíbúðinni okkar á Skjólbraut 1 þar sem mamma sat og saumaði út fallegar myndir, prjónaði lopapeysur ásamt því að sinna okkur systkinunum, hún var alltaf svo hlý og góð. Ég minnist þess þegar við fluttum á Meðalbrautina. Pabbi byggði húsið og við fluttum inn í það hálfklárað. Mamma naut þess ásamt pabba að skipuleggja og velja innréttingar og húsgögn í nýja húsið. Hún var mikil smekkmanneskja, hafði gott auga fyrir fallegum hlutum og lagði mikið upp úr því að eiga fallegt heimili. Við áttum margar góðar stundir á Meðalbrautinni. Þar voru haldnar glæsilegar veislur sem mamma skipulagði, hún bakaði tertur og smurði brauð af mikilli list. Mamma og pabbi voru dugleg að fara með okkur systkinin í útilegur og oft var farið í veiði upp á Arnarvatnsheiði. Ferðirnar voru vel skipulagðar og það var hugsað fyrir öllu.

Mamma var glæsileg kona, alltaf vel til höfð og með fallegt rautt krullað hár. „Fallegasta hárið í götunni,“ sagði gamall nágranni okkar einu sinni. Hún hafði mikla útgeislun, góða nærveru og það geislaði frá henni mikil hlýja. Svo þegar hún brosti komu fallegir spékoppar í ljós. Hún hafði áhuga á fólki í kringum sig og vildi öllum vel. Hún studdi mig í einu og öllu sem ég tók mér fyrir hendur og var alltaf tilbúin að rétta fram hjálparhönd ef þess þurfti. Mamma var líka skarpgreind og var alltaf vel inni í öllu. Ég á eftir að sakna hennar mjög og ekki síst daglegu símtalanna okkar þar sem farið var yfir það helsta sem var í fréttum og hvað allir í fjölskyldunni væru að gera. Hún var umhyggjusöm og stolt af öllum afkomendum sínum. Hún nýtti sér samfélagsmiðla til að fylgjast með öllu sínu fólki og elskaði að fá myndir og snapchat af litlu barnabarnabörnum sem voru hennar líf og yndi síðustu ár. Eftir að pabbi dó flutti mamma á Kópavogsbraut 1a. Þar leið henni vel og hún eignaðist góða vini.

Síðustu árin höfum við mæðgurnar átt yndislegar og ógleymanlegar stundir saman. Ég minnist með gleði kaffihúsaferðanna okkar, sem hafa verið ótal margar. Mamma elskaði að fara á kaffihús og fá sér heitt kakó. Hún kunni svo vel að njóta stundarinnar og það var alltaf stutt í gleðina og húmorinn hjá henni.

Það var mjög þungbært fyrir mömmu þegar einkasonur hennar og bróðir minn, Ásgeir, féll skyndilega frá í byrjun þessa árs. Nú eru þau saman ásamt öðrum ástvinum. Hvíl í friði elsku hjartans mamma mín, minning þín mun lifa með okkur um ókomna tíð. Nú kveð ég þig með þeim sömu orðum og þú sagðir ávallt við mig þegar ég var lítil, áður en ég fór að sofa: Guð geymi þig.

Hanna Þorgerður.

Kær tengdamóðir mín Dagmar Ásgeirsdóttir er látin tæplega níræð að aldri.

Það var fyrir hartnær 37 árum að ég fyrst sá Dæju og Villa á Meðalbraut 4 í Kópavogi. Við Hanna höfðum verið að gefa hvort öðru auga í nokkurn tíma og slík alvara komin í sambandið að ekki varð hjá því komist að hitta verðandi tengdaforeldra. Það var heldur uppburðalítill piltur sem gekk upp heimasmíðaðan stigann á Meðalbrautinni og bar kvíðboga í brjósti fyrir fyrstu kynnum af húsráðendum. Það var hins vegar eins og oft vill verða algjörlega ástæðulaus ótti og var mér tekið ákaflega vel enda kom fljótt í ljós að ekki var hægt að hugsa sér betri tengdaforeldra en þau Dæju og Villa. Dæja virtist aukinheldur alls ekki ósátt við að fá tengdason uppalinn í vesturbæ Reykjavíkur og var þess fullviss að hafa séð mér bregða fyrir á Hofsvallagötunni forðum sem ungum dreng í fylgd með afa mínum. Engin ástæða er til að draga það í efa enda Dæja með ólíkindum minnug og sérlega greind og klár og með skarpa hugsun alla tíð.

Eins og allir vita sem kynntust Dæju þá var hún sérdeilis vönduð manneskja sem ekki mátti vamm sitt vita. Henni var heiðarleiki í blóð borinn og kom fram við alla af virðingu og kurteisi. Dæja var nákvæm og pottþétt í öllu sem hún tók sér fyrir hendur. Aldrei sá ég hana skipta skapi en hún stóð samt fast á skoðunum sínum. Hún var góður hlustandi, mikill mannþekkjari og ákaflega næm. Dæja var glæsileg kona og hafði gaman af að klæða sig upp. Hún var ótrúlega góð við barnabörnin sín og þótti þeim alltaf mjög eftirsóknarvert og spennandi að fá að gista í Kópavoginum hjá afa og ömmu. Hún var af þeirri kynslóð sem ólst upp við að nýta hluti og fara vel með þá og var illa við sóun og spillingu. Það var gott að leita ráða eða upplýsinga hjá henni enda var hún vel að sér um flesta hluti og fylgdist náið með fréttum og nýjustu tíðindum. Þá var hún óhrædd við að nýta sér nýjustu tækni, var dugleg á samfélagsmiðlum og hafði yndi af því að fá myndir og fylgjast með litlu barnabarnabörnunum sem hún elskaði og dáði.

Dæja var mér góður vinur og félagi, sérstaklega hin síðari ár eftir að Villi féll frá og samskiptin voru tíðari. Hún var mikill sælkeri og fátt þótti henni skemmtilegra en að fara á kaffihús og bjóða samferðafólki upp á veitingar.

Að leiðarlokum er mér efst í huga þakklæti fyrir að hafa fengið að kynnast Dæju og vera samferða henni um langt árabil. Elsku Dæja, takk fyrir allt og góða ferð inn í sumarlandið. Minning um góða og vandaða konu lifir í hjarta mínu um eilífð alla.

Jens Þór, tengdasonur.

Amma Dæja var snyrtipinni, bæði var hún sjálf alltaf vel tilhöfð og heima hjá henni var alltaf hreint og fínt. Þegar við systkinin komum í heimsókn var oftast til eitthvað gott í gogginn, súkkulaðikaka, ís eða önnur sætindi. Amma var nefnilega alveg smá nammigrís eins og við, en það var ekki það eina sem við áttum sameiginlegt með ömmu, þrjú af okkur systkinunum eru með rautt hár en rauði hárliturinn kemur frá ömmu. Ömmu þótti gaman að sjá rauðhausana og nefndi það gjarnan þegar við hittumst hvað hárið á okkur væri fallegt.

Amma var ljúf og skemmtileg en hún var ekki feimin við að segja skoðanir sínar og hafði sterkar skoðanir. Það var gaman í kringum ömmu og mætti hún í öll afmæli og veislur sem henni var boðið í og minnumst við allra jólaboða sem amma og afi héldu sem voru stórar veislur og mikið fjör. Við vorum ávallt velkomin í heimsókn til ömmu á Meðalbrautina en henni þótti þó betra að vera aðeins búin að hafa sig til áður en hún fengi fólk til sín. Amma og afi komu líka oft í heimsókn til okkar í sveitina, afi fór beint að gefa hundunum afganga sem hann hafði safnað saman heima en amma kom og talaði við okkur systkinin og gaf okkur kassa af Hrauni eða Æðibitum. Sveitastörfin áttu kannski ekkert best við hana, hún var nefnilega svo mikil skvísa og var alltaf með varalit.

Það er skrítið að hugsa til þess að þú sért nú farin frá okkur, þessi hressa, brosmilda, lipra, snögga, sæta amma sem þú varst, við áttum alveg von á því að þú yrðir með okkur í 10 ár í viðbót, svo hress varstu.

Við minnumst þín með ást, hlýju og þakklæti fyrir allt, við söknum þín, elsku besta amma Dæja.

Bjarnfríður, Eggert, Guðjón Snær og Ingi Þór.

Elsku amma Dæja, amma mín er látin. Á þessari stundu hugsa ég hlýlega til allra gæðastundanna sem við amma áttum saman. Það var alltaf gaman að fara í heimsókn til ömmu og afa á Meðalbrautinni. Amma var mikill fagurkeri og lagði mikið upp úr að hafa fínt í kringum sig. Sem barn þreyttist ég seint á að skoða allt fína dótið hennar. Amma bauð alltaf upp á dýrindis veitingar og ég fór undantekningarlaust sprengsödd heim.

Hún kunni að njóta lífsins. Við fórum oft á kaffihús og gæddum okkur á croissant, einhverju sætu og kaffi eða kakó. Hún var alltaf vel til höfð, í fínum, vel völdum fötum og með slæðu. Með rauða hárið sem var alltaf svo fallega krullað.

Mér þykir vænt um að hugsa til hversu vel hún og Kolbeinn sonur minn náðu saman. Í síðustu heimsókn var mikið fjör þar sem við sungum saman og hlógum mikið þegar Kolbeinn teymdi ömmu og hækjuna um. Það var alltaf stutt í húmorinn og gleðina hjá ömmu. Síðustu ár sveif hún um með göngugrindina og velti fyrir sér að taka bílprófið aftur.

Andlátið bar brátt að og ég sakna ömmu mjög. Sakna heimsóknanna þar sem amma sagði mér frá lífinu í gamla daga. Sakna þess að geta ekki hringt í hana til að ræða um daginn og veginn, senda henni snapchat eða skilaboð, og fá svar þar sem tjáknin voru óspart notuð. Söknuðurinn er mikill en á sama tíma er ég þakklát fyrir að hafa notið ástar og hugulsemi ömmu í svo mörg ár.

„Kys og kram og på gensyn.“

Ingunn.

Elsku besta amma Dæja, ég skrifa þessi orð með mikinn söknuð í hjarta en minningarnar gefa hlýju og þakklæti fyrir allar stundirnar sem við áttum saman. Amma var yndisleg manneskja, góð, hjartahlý, sniðug og fyndin.

Ég á margar góðar minningar af Meðalbrautinni, það var svo notalegt að koma í heimsókn til ömmu og afa. Þar var ró og hlýja og það var dekrað við okkur barnabörnin. Frá því að ég man eftir mér fórum við nánast hverja helgi á Meðalbrautina, hvort sem það var í kaffi eða í lambalæri á sunnudögum, ég hlakkaði alltaf til. Amma Dæja var algjör snillingur að búa til kökur og kræsingar, og ég gat verið viss um að það yrði eitthvað gómsætt á boðstólnum. Oftar en ekki ilmaði heimilið hennar og afa af vöfflulykt enda bakaði amma bestu vöfflurnar. Og ef það voru ekki vöfflur, að þá var búið að baka brúntertu, marengs eða döðluköku. Allt var það í miklu uppáhaldi hjá mér. Ég mun sakna þess að kíkja til ömmu í kaffi um helgar.

Ég er þakklát fyrir að Kári Þór hafi fengið að kynnast langömmu sinni, honum fannst gaman að koma í heimsókn og skoða fallegu hlutina hennar. Í uppáhaldi var að kveikja á litla brúna leikfangahundinum og við hlógum saman að hvernig hundurinn spólaði á parketinu og hvað Kára fannst hann skemmtilegur. Ömmu fannst svo gaman að fá sendar myndir og myndbönd af langömmubörnunum sínum og ég finn fyrir tómleika að geta ekki lengur sent henni myndbönd af Kára. En ég veit að amma fylgist með okkur úr fjarlægð. Nú lesum við saman bækurnar frá ömmu Dæju og hugsum hlýtt til stundanna sem áttum saman.

Takk elsku amma fyrir allt, takk fyrir að vera amma mín.

Þín,

Þórhildur.

Í dag kveðjum við góða konu. Mömmu hennar elsku Hönnu, vinkonu okkar. Dagmar eða Dæja eins og hún var ávallt kölluð, hefur verið hluti af okkar lífi frá unga aldri. Vinkona okkar. Hún var hlý, vitur og umhyggjusöm og bar velferð okkar ávallt fyrir brjósti.

Dæja var mannkostakona. Hún var glæsileg og ávallt vel til höfð. Sjarmerandi með sinn guðahúmor fyrir lífinu. Uppáhaldsvinkona okkar á Feisbókinni blessaðri. Dagmar var góðum gáfum gædd. Hún var næm og kunni vel að meta fallegan texta og ljóð. Hún hvatti afkomendur sína til dáða að sækja sér menntun og þekkingu, eitthvað sem henni gafst ekki tækifæri til þegar hún var ung kona, enda öldin þá önnur.

Við æskuvinirnir vorum fastagestir á heimili þeirra Dæju og Vilhjálms árum saman. Þar var okkur vel tekið. Þar mynduðust hin sterku, dýrmætu bönd sem hafa fylgt okkur gegnum lífið. Þau hjónin áttu náið samband og sorgin var mikil við veikindi Vilhjálms og andlát. Dagmar lét þó ekki deigan síga og náði að búa sér farsælan hversdag. Hún fylgdist vel með afkomendum sínum og fjölskyldu og tók virkan þátt í félagsstarfi aldraðra, meðal annars í Kópavogskirkju.

Ásgeir sonur hennar kvaddi nú í janúar. Það var dýrmætt að hitta hana við það tækifæri, þótt tilefnið væri sorglegt. Hún bar sig með mikilli reisn en harmur hennar var mikill.

Við vottum elsku Hönnu okkar, Fríðu og Sjöfn og þeirra fólki okkar innilegustu samúð.

Við þökkum Dagmar allt hið góða sem hún gaf okkur og kveðjum hana með ljóði Snorra Hjartarsonar, Kyrrð:

Kvöldar á himni, kvöldar í trjám,

kyrrðin stígur upp af vötnunum,

læðist í spor mín gegnum rökkrið

sveipuð léttri drifhvítri slæðu

tekur mig við hönd sér, hvíslar

máli laufs máli gáru við strönd

og löngu kulnaðs náttbáls á heiði

ég er bið þín og leit, ég er laun

þeirrar leitar og þrár, ég er komin.

Ferdinand, Eygerður

og Ragna.