Fjölskyldan Frosti, Sigrún, Jón og Embla stödd á Ítalíu árið 2022.
Fjölskyldan Frosti, Sigrún, Jón og Embla stödd á Ítalíu árið 2022.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Mýrdal Harðarson fæddist 15. apríl 1974 á Akranesi en ólst upp í Borgarnesi og bjó þar til 17 ára aldurs. „Þegar ég fékk bílpróf keypti pabbi handa mér bíl og þá varð ekki aftur snúið og ég flutti til Reykjavíkur

Jón Mýrdal Harðarson fæddist 15. apríl 1974 á Akranesi en ólst upp í Borgarnesi og bjó þar til 17 ára aldurs. „Þegar ég fékk bílpróf keypti pabbi handa mér bíl og þá varð ekki aftur snúið og ég flutti til Reykjavíkur. Ég var í Hótel- og veitingaskólanum á þessum árum og ég byrjaði í hljómsveit. Það var hljómsveitin Brainchild og við spiluðum þungarokk. Ég gekk um í síðum leðurfrakka með sítt krullað hár.

Mér fannst gott að alast upp í Borgarnesi á níunda áratugnum. Krakkarnir gátu leikið sér frjálsir allan daginn og við brölluðum ýmislegt. Til dæmis smíðuðum við fleka og sigldum út á Borgarfjörðinn, ræktuðum dúfur, fórum í túttubyssustríð og kveiktum elda. Það fór ekki betur en svo að ég brenndist illa á fótlegg í indíánaleik og var lagður inn á Barnaspítala Hringsins með þriðja stigs bruna og þurfti að dvelja þar í fjóra mánuði. Foreldrar mínir áttu þrjú önnur börn og pabbi vann myrkranna á milli á dekkjaverkstæðinu sínu þannig að ég var einn eftir í Reykjavík sex ára gamall. Föðurbróðir minn, Baldur Jóhannsson, heimsótti mig oft í viku og ég hef verið honum ævinlega þakklátur fyrir það.“

Jón hefur starfað við ýmislegt um ævina. „Sumt af því var mjög skemmtilegt en annað síðra. Ég man eftir að hafa hætt á einum stað í kaffitímanum eftir tveggja tíma vinnu. Ég hafði ráðið mig í að naglhreinsa spýtur og það átti ekki vel við mig. Ég starfaði um tíma í sláturhúsinu í Borgarnesi en þar sá ég um að taka á móti nýafhöggnum kindahausum, klippa af þeim hornin og henda hausunum svo niður um gat þar sem þeir lentu á neðri hæð. Þetta fannst mér ágæt vinna því það var alltaf nóg að gera.

Ég starfaði í mörg ár í fjölmiðlum þar sem ég kunni vel við mig. Var aðallega í útvarpi en líka á prentmiðlum. Úr fjölmiðlum fór ég í sjómennsku. Ég fór að kokka á rækjutogaranum Gunnbirni frá Bolungarvík. Það var mér framandi lífsreynsla að fara á sjóinn en aldrei varð ég sjóveikur sama hvað gekk á.

Sumarið 2013 keyptum við Baldvin félagi minn bar á Laugavegi og við tókum hann allan í gegn og breyttum um nafn á honum. Barinn okkar fékk nafnið Bravó og þar fann ég mína fjöl. Ég skipulagði margs konar viðburði á Bravó til að laða að nýja viðskiptavini. Ég fékk tónlistarfólk til að spila og við vorum með pub quiz, bingó, ljóðakvöld o.fl. Bravó sló í gegn og gekk mjög vel. Þarna kynntist ég mörgu frábæru fólki og mig langaði að gera eitthvað stærra og meira.“

Þá keyptum við félagi minn Baldur skemmtistaðinn Harlem á Tryggvagötu. „Ég nefndi staðinn Húrra og þar sá ég tækifæri til að stofna tónleikastað og skemmtistað þar sem hljómsveitir gátu spilað við bestu mögulegu aðstæður. Ég lagði mikið upp úr því að Húrra væri mjög vel búið tækjum og tólum svo gæði tónlistar væru sem mest. Enginn staður í Reykjavík hélt jafnmarga tónleika og Húrra á þessum árum. Mér til halds og trausts á Húrra var minn besti vinur, Snorri Helgason, en hann bókaði hljómsveitir og hélt utan um tónleikahaldið með mér.

Það hafði blundað í mér lengi að opna sjávarréttastað eftir að hafa unnið hjá frænda mínum Magnúsi Haukssyni á Tjöruhúsinu fyrir vestan. Úr varð að mér og Baldvini félaga mínum áskotnaðist húsnæði við Lækjargötu og við stofnuðum Messann. Það hafði væntanlega verið þörf fyrir fiskveitingastaði á þessum tíma því Messinn varð brátt vinsæll bæði meðal ferðamanna og innfæddra.

Þarna var ég farinn að finna fyrir mikilli þreytu og kulnun fyrir lífinu. Ég varð orkuminni með hverjum deginum og var kominn með lömun í hluta af andlitinu. Ég gekk á milli lækna sem sögðu mig illa haldinn af streitu og vöðvabólgu. Það var ekki fyrr en vinir mínir Jónína Bogadóttir og Snorri Helgason fóru með mig á bráðamóttöku Landspítalans að það kom í ljós að ég var með heilaæxli á stærð við sítrónu sem þurfti að fjarlægja samdægurs. Þarna var ég við dauðans dyr. Það var hann Ingvar Hákon heilaskurðlæknir sem tók á móti mér þennan dag og bjargaði lífi mínu. Heilaæxlið var sem betur fer góðkynja og við tók nokkurra mánaða bataferli. Þarna endurstokkaði ég upp líf mitt og sagði skilið við reksturinn á Messanum.

Í samstarfi við félaga mína Steinþór og Ásgeir settum við á stofn bar við Hverfisgötu sem við nefndum Röntgen. Það kynntist ég mínum góða vini Stefáni Melsted sem leigði hjá okkur pláss fyrir lítinn veitingastað á neðri hæðinni.

Af Röntgen fór ég þó fljótlega og stofnaði djassbar við Austurvöll sem ég nefndi Skuggabaldur. Þar unnum við Snorri vinur minn aftur saman við að bóka hljómsveitir og halda tónleika. Það var mikill heiður fyrir okkur að vinna íslensku tónlistarverðlaunin fyrir bestu tónleikaröðina. Skuggabaldur varð þó ekki langlífur því tónleikahaldið stóð ekki undir sér en þetta var rosa skemmtilegt.

Svo fór að ég og Stefán Melsted opnuðum veitingastaðinn Kastrup í gamla Pasta basta-húsinu við Klapparstíg. Við fluttum svo staðinn niður á Hverfisgötu þar sem hann stendur enn í fullum gangi.“

Áhugamál Jóns eru fjölskyldan, vinir og laxveiði. „Ég veiði mikið á hverju ári og starfa nokkra daga líka við leiðsögn í Kjarrá og Þverá.“

Fjölskylda

Eiginkona Jóns er Sigrún Guðlaugsdóttir, f. 15.6. 1973, kennari hjá Hjallastefnunni. Þau eru búsett í Hlíðunum. Foreldrar Sigrúnar eru Guðlaugur Hermannsson, f. 27.12. 1946, fv. starfsmaður Orkustofnunar, og Ásdís Gunnarsdóttir, f. 22.9. 1950, fv. bankamaður.

Börn Jóns og Sigrúnar eru Embla, f. 11.5. 2006, nemi í MR, og Frosti, f. 11.10. 2018.

Systkini Jóns eru Ríkharður Mýrdal Harðarson kokkur, f. 7.2. 1964; Jóhann Mýrdal Harðarson rafvirki, f. 16.8. 1976, og Dagmar Mýrdal Harðardóttir grunnskólakennari, f. 24.6. 1978.

Foreldrar Jóns voru hjónin Hörður Jóhannsson, f. 18.7. 1934, d. 28.10. 2012, forstjóri Bifreiðarþjónustunnar í Borgarnesi, og Þuríður Mýrdal Jónsdóttir, f. 5.5. 1945, d. 14.12. 2006, heimavinnandi.