Völsungasaga Ingólfur Freysson, formaður sögunefndar Völsunga.
Völsungasaga Ingólfur Freysson, formaður sögunefndar Völsunga. — Ljósmynd/Hafþór
Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík hefur sett á laggirnar nýja heimasíðu tileinkaða sögu félagsins í tilefni 97 ára afmælis félagsins. Ingólfur Freysson, formaður sögunefndar Völsungs, segir að sögu félagsins verði skipt í fjóra hluta og var fyrsti…

Geir Áslaugarson

geir@mbl.is

Íþróttafélagið Völsungur á Húsavík hefur sett á laggirnar nýja heimasíðu tileinkaða sögu félagsins í tilefni 97 ára afmælis félagsins. Ingólfur Freysson, formaður sögunefndar Völsungs, segir að sögu félagsins verði skipt í fjóra hluta og var fyrsti hlutinn sem spannar árin 1927-1960 settur í loftið á heimasíðu félagsins á afmælisdeginum.

Næsti kafli í sögu félagsins frá 1960-1980 verður birtur á næstkomandi afmælisdegi félagsins. Þann 12. apríl 2027 verður síðasti kaflinn birtur í tilefni 100 ára afmæli félagsins, sem mun spanna árin 2000-2027: „Þannig ætlum við að vinna þetta,“ segir Ingólfur.

„Við ákváðum að fara með þetta í rafrænt form, þar sem að möguleikarnir eru miklu fleiri,“ segir Ingólfur og að búið sé að birta tvö viðtöl við eldri Völsunga, en að þau eigi um 20-30 viðtöl inni. Hann segir nefndina nýta sér gamlar blaðagreinar, upptökur af gömlum leikjum og mótum og skoði héraðsskjalasafn Þingeyinga og fundargerðir sem þar leynast.

Í nefndinni sitja auk Ingólfs þau Dóra Ármannsdóttir, Sóley Sigurðardóttir, Leifur Grímsson og Guðmundur Friðbjarnarson, sem starfar sem ritstjóri vefsins í hlutastarfi. Er vinnan þegar hafin við næsta kaflann í sögu Völsungs.