Skemmtun University Challenge á BBC.
Skemmtun University Challenge á BBC. — Mynd/Wikipedia
Á BBC lauk nýlega hinum bráðskemmtilega og fróðlega þætti University Challenge. Þættirnir hafa verið á dagskrá síðan 1962 en þar keppa lið frá Háskólum á Bretlandi sín á milli. Spurningarnar eru afar fjölbreyttar og yfirleitt þungar, sumar níðþungar

Kolbrún Bergþórsdóttir

Á BBC lauk nýlega hinum bráðskemmtilega og fróðlega þætti University Challenge. Þættirnir hafa verið á dagskrá síðan 1962 en þar keppa lið frá Háskólum á Bretlandi sín á milli. Spurningarnar eru afar fjölbreyttar og yfirleitt þungar, sumar níðþungar. Maður verður óskaplega glaður geti maður svarað einhverjum þeirra þar sem maður situr heima í stofu.

Það er ekki alveg vandræðalaust að ákveða með hvaða liði maður eigi að halda í keppni þar sem maður þekkir ekki keppendur. Besta ráðið er að fylgjast með þeim stutta stund og velja síðan einn sem maður kann sérlega vel við og halda með liði hans.

Í úrslitaþætti þessa árs sem BBC sýndi á dögunum var Justin Lee, nemandi Imperial College í London, meðal keppenda. Hann er frá Hong Kong og hafði áður komið við sögu í keppninni ásamt félögum sínum. Lee var alltaf í sömu gráu jakkapeysunni og með gleraugu sem gerðu hann sérlega gáfulegan. Hann var afar vinalegur en um leið fullur af keppnisskapi. Ég hélt með honum og varð fjarska glöð þegar lið hans vann stórsigur.

Mér skilst að þessir þættir hafi verið með nokkurn veginn sama formi í áratugi. Þar þarf engu að breyta, þeir virka eins og þeir eru.

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir