[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslandsmeistarar ÍBV tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik með öruggum sigri gegn Haukum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins á Ásvöllum í Hafnarfirði

Handboltinn

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar ÍBV tryggðu sér í gær sæti í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik með öruggum sigri gegn Haukum í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins á Ásvöllum í Hafnarfirði.

Leiknum lauk með sex marka sigri ÍBV, 37:31, en Gauti Gunnarsson átti sannkallaðan stórleik fyrir Eyjamenn og skoraði níu mörk í leiknum. Jafnræði var með liðunum framan af en Eyjamenn leiddu með þremur mörkum í hálfleik, 17:14, og létu forystuna aldrei af hendi í síðari hálfleik. Daniel Vieira skoraði sjö mörk fyrir ÍBV en Guðmundur Bragi Ástþórsson var markahæstur hjá Haukum með níu mörk.

ÍBV vann einvígið samanlagt 2:0 og mætir deildarmeisturum FH í undanúrslitum en FH vann öruggan sigur gegn KA í öðrum leik liðanna í KA-heimilinu á Akureyri á sama tíma, 25:19. FH vann einvígið einnig 2:0.

Hafnfirðingar voru sterkari allan tímann, leiddu 16:10 í hálfleik, og Akureyringar voru aldrei líklegir til þess að snúa leiknum sér í vil. Aron Pálmarsson skoraði átta mörk fyrir FH og Jón Bjarni Ólafsson gerði sex en Magnús Dagur Jónatansson var markahæstur hjá KA með sex mörk.

Fyrsti leikur liðanna fer fram sunnudaginn 21. apríl í Kaplakrika en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í úrslitaeinvíginu.

Á laugardaginn tryggðu Valsmenn sér einnig sæti í undanúrslitunum með stórsigri gegn Fram í öðrum leik liðanna í Framhúsi í Úlfarsárdal og þar með 2:0-sigri í einvíginu. Leiknum lauk með tólf marka sigri Vals, 36:24, þar sem Agnar Smári Jónsson var markahæstur Valsara með átta mörk.

Leikurinn var aldrei spennandi en Valsmenn voru með fimm marka forskot í hálfleik, 18:13. Valsmenn juku forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik. Andri Finnsson og Benedikt Gunnar Óskarsson skoruðu sex mörk hvor fyrir Val en Dagur Fannar Möller var markahæstur hjá Frömurum með átta mörk.

Valur mætir annaðhvort Aftureldingu eða Stjörnunni í undanúrslitum en Stjarnan hafði betur gegn Aftureldingu í öðrum leik liðanna í Garðabænum á laugardaginn og jafnaði þar með metin í einvíginu í 1:1.

Leiknum lauk með naumum sigri Stjörnunnar, 27:25, þar sem Þórður Tandri Ágústsson var markahæstur Garðbæinga með sex mörk. Garðbæingar leiddu með sex mörkum í hálfleik, 16:10, en Aftureldingu tókst að jafna metin í 25:25 þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Garðbæingar voru hins vegar sterkari á lokamínútunum og fögnuðu sigri.

Adam Thorstensen átti stórleik í marki Stjörnunnar og varði 15 skot og var með 38% markvörslu en Birgir Steinn Jónasson var markahæstur hjá Aftureldingu með níu mörk.

Oddaleikur liðanna fer fram að Varmá í Mosfellsbæ á morgun og þá ræðst það hvaða lið mætir Val í undanúrslitum Íslandsmótsins.