Edda Una Þórisdóttir fæddist í Reykjavík 15. apríl 1964. Hún lést í faðmi fjölskyldunnar 27. mars 2024 á Akureyri.

Hún var dóttir Þóris Valberg Lárussonar, f. 29. desember 1932, d. 18. apríl 2001, og Katrínar Björnsdóttur, f. 3. desember 1936, d. 23. júlí 1985. Edda var fjórða í röð systkina sinna. Samfeðra: Ævar, f. 1953. Albræður: Sævar Þór, f. 1959, d. 2012, og Viðar Örn, f. 1962. Sammæðra: Snorri Sturluson, f. 1969, og Sóley Sturludóttir, f. 1974.

Edda hóf sambúð með Agli Einarssyni árið 1982 og eignaðist með honum börnin sín, þau eru: 1) Þorsteinn Ægir, f. 8. júní 1984, giftur Sólrúnu Arneyju Siggeirsdóttur, börn þeirra eru Írena Móey, f. 2015, Breki Dór, f. 2018, og Rúrik Darri, f. 2023. 2) Stúlka, f. 1986, d. 1986. 3) Katrín Björns, f. 3. desember 1987, synir hennar og Óla Ægis, en þau slitu samvistum, eru Aron Ingi, f. 2009, og Egill Helgi, f. 2011.

Edda fór ung að heiman til Þórshafnar og vann þar við fiskvinnslu ásamt því að ala upp börnin. Einnig fann hún áhuga sinn í leiklist og var virkur félagi í Leikfélagi Þórshafnar. Árið 1994 flutti Edda til Akureyrar eftir stutta búsetu á Raufarhöfn yfir sumarið. Þar vann hún við ýmis störf, s.s. fiskvinnslu, í Kexsmiðjunni og þjónustustörf áður en hún hóf störf í heimaþjónustunni sem hún gegndi í um 15 ár og vann við allt þar til veikindin tóku yfir.

Hún hóf sambúð með Jóni Albertssyni árið 2000 og slitu þau samvistir árið 2006.

Árið 2007 kynntist hún Birni Gísla Halldórssyni, eiginmanni sínum, þau hófu sambúð 2007 og giftu sig 8. ágúst 2008 og hafa því verið gift í rúm 15 ár.

Hún hafði mikinn áhuga á dansi og tónlist og var dugleg að sækja tónleikahald. Einnig lifði hún fyrir börn, barnabörn og tengdabörn.

Útför hennar fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 15. apríl 2024, klukkan 13.

Elsku mamma og amma, sterkasta, duglegasta, kærleiksríka, fallega hetjan okkar. Hversu sárt að hugsa til þess að við fáum ekki að sjá og knúsa þig aftur. Lífið getur verið svo ósanngjarnt og sárt. Vita til þess að við munum aldrei geta tekið upp símann og hringt í þig, aldrei fengið skilaboð frá þér aftur, geta aldrei knúsað þig, fundið góðu mömmu/ömmulyktina, komið í nýbakaðar mömmu/ömmu-kleinur og að strákarnir sem þú dáðir og dýrkaðir og þeir þig geti aldrei hitt ömmu Eddu aftur. Allt þetta hræðir okkur og er svo óendanlega sárt að hugsa um. Þú fórst í gegnum lífið eins og sannur bardagamaður, sigraðir allar hindranir sem þú fékkst í lífinu sem voru fleiri en margur annar. Við gætum ekki verið stoltari af þér elsku mamma/amma. Ég mun alltaf taka mér þig til fyrirmyndar og sigra lífið eins og þú gerðir. Við munum halda minningunni þinni uppi og aldrei gleyma að tala um þig sem hetjuna okkar, því þú varst það og verður það alltaf. Takk elsku mamma og amma fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur. Söknuðurinn verður mikill en við höldum utan um hvert annað eins og þú vildir að allir gerðu þegar lífið væri erfitt. Við elskum þig endalaust og sjáumst síðar.

Katrín (Kata),
Aron og Egill.

Elsku elsku Edda mín.

Það sem ég er heppin að hafa fengið að kynnast þér fyrir 19 árum.

Takk fyrir að taka svona vel á móti krakkanum sem mætti heim til þín fyrir um 19 árum, krakkanum sem dáðist að þessari flottu og glæsilegu konu og var örlitið smeyk við hana vegna glæsileika.

Takk fyrir vináttuna okkar. Við gátum alltaf spjallað um allt milli himins og jarðar, vorum alltaf hreinskilnar hvor við aðra og mun ég sakna þess að geta ekki hringt í þig og spjallað. Þar sem við bjuggum ekki á sama stað áttum við svo margar spjallstundir í gegnum símann, dýrmætar minningar sem ég mun ylja mér við á erfiðum tímum.

Elsku börnin mín sem hafa misst svo mikið, misst yndislegu ömmu sína sem þeim fannst alltaf gott og gaman að koma til. Við munum ávallt halda minningu þinni á loft og segja börnunum sögur af þér, eins og t.d. þegar þú stalst töskunni á Spáni með okkur.

Elsku Rúrik Darri, litli skriðjökullinn, litli monsinn þinn, fær líka að kynnast ömmu sinni þó hann hafi einungis fengið að hafa þig í lífi sínu í sjö mánuði, ég mun sjá til þess. Elsku Breki Dór, litla hjartað okkar, við munum passa að hann muni allar minningarnar sem þið áttuð saman og svo dásamlega Írena Móey okkar, prinsessan þín, hún mun eiga svo erfitt með að hafa misst þig en ég mun halda vel utan um hana og passa upp á kröftugu stelpuna okkar.

Sterka, kærleiksríka, duglega, magnaða, seiga, glæsilega og flotta kona, verkefnin sem þér hafa verið gefin síðustu ár hafa ekki verið lítil en þú tókst við þeim öllum full af æðruleysi og jákvæðni. Mér finnst lífið vera mjög ósanngjarnt að taka þig frá okkur, frá okkur sem elskum þig svo mikið. En nú ertu búin að fá hvíldina og líður vonandi betur þar sem þú ert núna.

Elsku Edda, þú munt ávallt vera í hjörtum okkar og munum við alltaf halda þinni minningu á loft, 15. apríl er og verður alltaf þinn dagur og munum við halda upp á hann á hverju ári.

Takk fyrir allt elsku Edda, takk fyrir að elska okkur, takk fyrir að leyfa okkur að elska þig, takk fyrir að vera þú.

Þín tengdadóttir,

Sólrún Arney.