Byggingarsvæðið Jarðvinna er í fullum gangi við Grensásdeild.
Byggingarsvæðið Jarðvinna er í fullum gangi við Grensásdeild. — Ljósmynd/NLSH
Nýr Landspítali ohf. (NLSH) hefur boðið út nýbyggingu Grensásdeildar Landspítalans en hún hefur verið á teikniborðinu síðustu mánuði. Þetta kemur fram í tilkynningu frá NLSH. Þar segir að reisa eigi um 4.300 fermetra nýbyggingu vestan við núverandi…

Nýr Landspítali ohf. (NLSH) hefur boðið út nýbyggingu Grensásdeildar Landspítalans en hún hefur verið á teikniborðinu síðustu mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá NLSH. Þar segir að reisa eigi um 4.300 fermetra nýbyggingu vestan við núverandi húsnæði þar sem komið verður upp aðstöðu fyrir sjúkraþjálfun og iðjuþjálfun með tengingum við núverandi byggingar.

Í nýbyggingu verður einnig komið fyrir nýrri 19 rúma legudeild og aðstöðu fyrir sjúklinga, útisvæði og tómstundarými ásamt nýju eldhúsi og matstofu. Verkefnið er þegar komið vel á veg en Óskatak ehf. varð hlutskarpast í opnu útboði í jarðvinnu ásamt lögnum í jörðu. Það hljóðaði upp á um 141,7 milljónir króna, sem var 93,7% af kostnaðaráætlun. Jarðvinna hófst í janúar og er áætlað að henni ljúki í maí.

Vilji til að hefja verkið

Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri NLSH ohf., segir það fagnaðarefni að geta boðið út verkið. Það sé ríkur vilji til að geta hafið uppsteypuna strax í sumar enda sé verkefnið vel afmarkað og eigi að geta hentað mörgum verktökum til vinnslu. Gert sé ráð fyrir því í framkvæmdaáætlun að uppsteypa hefjist í júní nk. og að verklok verði í ágúst 2026.

Annað útboð á Akureyri

Þá rifjar Gunnar upp að það styttist í niðurstöðu í útboðsferli vegna fullnaðarhönnunar nýrrar legudeildar á Sjúkrahúsi Akureyrar. Jafnframt sé unnið að frumathugun á nýju húsi fyrir geðþjónustu sem muni liggja fyrir í sumar.