Kristrún Frostadóttir
Kristrún Frostadóttir
Þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kynnti áform sín á Alþingi í liðinni viku lagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar orð í belg og gagnrýndi flest. Í því þarf út af fyrir sig ekkert að koma á óvart enda hlutverk stjórnarandstöðu að veita stjórn aðhald.

Þegar ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar kynnti áform sín á Alþingi í liðinni viku lagði Kristrún Frostadóttir formaður Samfylkingarinnar orð í belg og gagnrýndi flest. Í því þarf út af fyrir sig ekkert að koma á óvart enda hlutverk stjórnarandstöðu að veita stjórn aðhald.

Þó voru það ákveðin vonbrigði að þessi ágæti formaður, sem telur einboðið að hún taki við stjórnartaumunum að loknum næstu kosningum, bauð ekki upp á neinn annan kost. Hún kvartaði undan því að uppi væri „gamaldags hræðsluáróður um skatta“ en mótmælti því ekki að hún og hennar flokkur áforma skattahækkanir komist þau til valda.

Athygli vakti ennfremur að formaður Samfylkingarinnar er þegar farinn að búa þjóðina undir að enginn árangur verði af störfum fyrirhugaðrar ríkisstjórnar hennar, því að hún sagði að Samfylkingin hefði „gætt þess að halda því kirfilega til haga að það muni taka sinn tíma að koma Íslandi aftur á rétta braut. Það mun taka tvö kjörtímabil í öruggum skrefum.“

Hugmyndin er sem sagt sú að ríkisstjórn Samfylkingar, Pírata og fleiri slíkra flokka taki við haustið 2025 og verði endurnýjuð árið 2029 þrátt fyrir skort á árangri, af því að það verður svo seinlegt „að koma Íslandi aftur á rétta braut.“

Ætli kjósendum þyki þetta spennandi sýn til næstu ára, nánar tiltekið til ársins 2033?