Gunnar J. Straumland yrkir á Boðnarmiði: Þetta regn er mér um megn möglar þegn til vægðar. Er það hegning okkur gegn eða vegna lægðar? Magnús Halldórsson yrkir um vorkomuna: Er mér þetta eiður sær yfir gæsir hvinu

Gunnar J. Straumland yrkir á Boðnarmiði:

Þetta regn er mér um megn

möglar þegn til vægðar.

Er það hegning okkur gegn

eða vegna lægðar?

Magnús Halldórsson yrkir um vorkomuna:

Er mér þetta eiður sær

yfir gæsir hvinu.

Ég sá lóur teygja tær

og tjalda á malbikinu.

Einar Jónsson yrkir:

Séð hef ég tjaldinn sínu nefi í sinu stinga,

starrann hátt að herma og klingja

hrossagauki, líka syngja.

Og Sigtryggur Jónsson:

Fuglar vorsins flögra um,

flest þeim veldur kæti.

Lifna tré og bera brum,

brýnt er að vorið mæti.

Geisli eftir Brodda B. Bjarnason:

Í sólarheima sá ég inn,

sali gulli búna.

Glaður skaust á gluggann minn

geisli þaðan núna.

Jón Atli Játvarðarson gefur góð ráð:

Verum létt á því og gefumst ekki upp.

Söltum vetrarfiskinn og gerum þurrkreitina klára.

Vorið kemur:

Stefna mótuð ljóst og leynt

léttist salt í poka.

Þó að vorið vakni seint

við skulum aðeins doka.

Hafsteinn Reykjalín Jóhannesson spyr: Í forsetann? Og svarar sér sjálfur:

Alltof gamall, engu nenni,

ætti því að fá gott skamm.

Ef ég væri mikilmenni

myndi ég mig bjóða fram.

Hjörtur Benediktsson hefur á orði: Frábær skemmtun á Rúv á föstudagskvöld. Brynjar Níelsson og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson í sínu besta formi:

Hérna birtast mínir menn

margt þeir hafa að spaugi,

túlka margt sem er hér enn

efst á baugi.

Limra eftir Guðmund Frímannsson:

Í basli og skorti brýnum

nálægt bernskuheimkynnum mínum

bjó einstæður faðir

um áraraðir

ásamt eingetnum syni sínum.