Starfslok Guðjón rífur bindið af sér.
Starfslok Guðjón rífur bindið af sér.
„Starfið var bara auglýst og þar sem ég er Garðbæingur, kom hingað ellefu ára gamall, ákvað ég að sækja um. Það var ekki sjálfgefið að það væri spennandi fyrir ungan lögfræðing að fara í þetta starf en það var eitthvað sem ég sá við…

„Starfið var bara auglýst og þar sem ég er Garðbæingur, kom hingað ellefu ára gamall, ákvað ég að sækja um. Það var ekki sjálfgefið að það væri spennandi fyrir ungan lögfræðing að fara í þetta starf en það var eitthvað sem ég sá við það.“

Þetta segir Guðjón Erling Friðriksson, fráfarandi bæjarritari Garðabæjar, við starfslok sín en starfinu gegndi hann í slétt 40 ár, frá 1984 til 2024, og sat á þeim tíma 736 bæjarstjórnarfundi. Síðasta fundinn sat hann 21. mars og framdi þar þann táknræna gjörning að rífa af sér bindið í lok kveðjuræðu sinnar með orðunum „er ekki bara tími til kominn?“

„Ætli það hafi ekki verið fjögur þúsund manns sem bjuggu hérna á þeim tíma, núna er Garðabær orðinn 20.000 manna bæjarfélag. Starfið brást ekki væntingum mínum, hér hefur verið gott að vera og maður hefur þróast í starfi samhliða uppbyggingu bæjarins,“ rifjar bæjarritarinn fráfarandi upp.

Hann segir gífurlega uppbyggingu hafa átt sér stað í bænum þann tíma sem hann sinnti starfinu. Helstu starfsskyldur bæjarritara tengjast afgreiðslu mála og eftirfylgni fyrir bæjarstjórn og bæjarráð, bæjarritari ritar allar fundargerðir, undirbýr fundina og gerir drög að dagskrá. Eftir fundi þarf svo að fylgja erindum eftir eða tilkynna einhverjum um afgreiðslu mála auk fleiri verkefna. „Þetta er mjög fjölbreytt starf.“

Guðjón hefur starfað með fimm bæjarstjórum á sínum tíma en af þeim sátu þeir Ingimundur Sigurpálsson og Gunnar Einarsson samtals í þrjátíu ár. Blaðamaður stenst ekki mátið að spyrja bæjarritarann fráfarandi hver bæjarstjóranna fimm hafi að hans mati verið sá besti.„Þeir eru allir uppáhalds, allir sérstakir og hafa allir haft sinn stíl,“ svarar Guðjón að bragði og hlær við. Ráðningarferlið var ekki flókið árið 1984, hann fyllti út eitt A4-eyðublað, var kallaður til viðtals á einum fundi og frétti svo úti í bæ, þegar hann rakst á einn bæjarfulltrúann á götu, að hann hefði verið ráðinn.