Þingsalur Forseti Alþingis svaraði fyrirspurn frá þingmanni Pírata.
Þingsalur Forseti Alþingis svaraði fyrirspurn frá þingmanni Pírata. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Vinnuhópur um gervigreind starfar á skrifstofu Alþingis og er ætlað að kortleggja tækifæri, áskoranir, gera drög að stefnu og gera tillögur að reglum um hvar megi sækja efni og hvaða efni gervigreind megi hafa aðgang að

Óskar Bergsson

oskar@mbl.is

Vinnuhópur um gervigreind starfar á skrifstofu Alþingis og er ætlað að kortleggja tækifæri, áskoranir, gera drög að stefnu og gera tillögur að reglum um hvar megi sækja efni og hvaða efni gervigreind megi hafa aðgang að.

Þetta kemur fram í svari Birgis Ármannssonar, forseta Alþingis, til Björns Levís Gunnarssonar, þingmanns Pírata.

Þingmaðurinn spurði hvort forseti Alþingis hefði látið gera úttekt á því með hvaða hætti væri hægt að hagnýta gervigreind í lögbundnum verkefnum Alþingis, hvaða tækifæri væru í notkun gervigreindar og hvaða áskoranir fylgja notkun gervigreindar.

Vinnuhópurinn hefur fjallað um tækifæri sem felast í notkun gervigreindar, með því að efla skilvirkni, auka sjálfvirknivæðingu í gagnaskráningu, öflun og greiningu á upplýsingum og ritun einfaldra skýrslna. Þá væri t.d. hægt að tryggja að efni þingmála væri í samræmi við gildandi regluverk. Einnig leynast tækifæri til að bæta þjónustu við almenning, svo sem að svara algengum spurningum á vef Alþingis.

Skrifstofa Alþingis tók talgreini í notkun haustið 2019 sem byggist á gervigreind og skrifar upp ræður þingmanna. Helstu áskoranir sem fylgja notkun gervigreindar tengjast siðferðislegum og lagalegum álitaefnum sem og upplýsingaöryggi. Mikilvægt er að tryggja að kerfi sem eru knúin af gervigreind séu ekki hlutdræg eða misnotuð en það myndi óhjákvæmilega hafa neikvæð áhrif á lýðræðið og lagasetningarferlið. Hafa þarf í huga að gæði gagna verða aldrei meiri en þær upplýsingar sem gervigreindin býr yfir.

Gert er ráð fyrir að vinnuhópurinn skili drögum að stefnu og stöðuskýrslu á vordögum.

Höf.: Óskar Bergsson