Bókabeitusystur Stofnendur og útgefendur Bókabeitunnar, Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell.
Bókabeitusystur Stofnendur og útgefendur Bókabeitunnar, Marta Hlín Magnadóttir og Birgitta Elín Hassell. — Morgunblaðið/María Matthíasdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sumardaginn fyrsta hyggjast stofnendur og útgefendur Bókabeitunnar, Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir, fjalla um bækur fyrir og eftir konur sem kallaðar hafa verið ýmsum nöfnum á síðustu árum, eins og til að mynda skvísubækur

Viðtal

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Sumardaginn fyrsta hyggjast stofnendur og útgefendur Bókabeitunnar, Birgitta Elín Hassell og Marta Hlín Magnadóttir, fjalla um bækur fyrir og eftir konur sem kallaðar hafa verið ýmsum nöfnum á síðustu árum, eins og til að mynda skvísubækur. Það heiti er einmitt notað í kynningu Bóksafnsins og Marta segir að þær hafi náttúrlega verið að gefa út þannig bækur hjá Bókabeitunni, „rómantískar ástarsögur eða ljúflestrarbækur, hvað sem þær eru kallaðar, og má líka kalla þær skvísubækur.“

Orðið skvísubækur hefur haft á sér einhvern niðrandi blæ, en þá kannski fyrst og fremst vegna þess að það er alsiða að tala það niður sem konur hafa gaman af að gera.

„Það er svo áhugavert að karlmenn hafa margir líka gaman af að lesa svona bækur, en fara oft leynt með það,“ segir Marta. „Þetta er í grunninn bara eins og hverjar aðrar skáldsögur þar sem verið er að fjalla um samskipti fólks og manneskjulegar tengingar, en vissulega eru þetta oft bækur um konur skrifaðar fyrir konur og þá þarf að setja einhvern stimpil á þetta eins og það sé ekki nógu gott fyrir einhvern annan.“

Samt eru þetta oft bækur sem taka á mjög erfiðum og þungum vandamálum.

„Það er einmitt málið, innihaldið er oft mjög erfitt og mjög þungt og það er sammerkt með þeim bókum sem við höfum verið að gefa út að þær eru allar að fjalla, á misdjúpan og misþungan hátt, um málefni sem við þekkjum öll. Það er alltaf eitthvað sem maður getur tengt við og speglað sig í eða einhver í kringum mann.“

„Ég vil að við hættum að tala um skvísubækur og köllum þær bara ástarsögur, þó þær endi kannski illa stundum,“ segir Birgitta. „Af hverju varð ástarsaga allt í einu skammaryrði? Ég myndi vilja sjá íslenska höfunda sem skammast sín ekkert fyrir það að vera að skrifa ástarsögur.“

Ljúfasti bókaklúbbur landsins

Bókabeitan gaf út á dögunum skáldsöguna Takk fyrir að hlusta, eftir Julia Whelan, en sú bók er einmitt fyrsta bókin í bókaklúbbnum Bókhildi, sem þær segja að sé „ljúfasti bókaklúbbur landsins“. Bækurnar í þeim klúbbi myndu sumir kalla skvísubækur, en þær nota það heiti reyndar ekki í sinni markaðssetningu.

Ætlunin er að það komi úr þrjár til fjórar bækur í klúbbnum á ári og bækurnar eru valdar af kostgæfni, eftir innihaldi en ekki eftir höfundi, segja þær og nefna að til að mynda myndu ekki allar bækur metsöluhöfundarins Colleen Hoover passa þar inn, þó einhverjar myndu falla í hópinn. Marta segir að þær velji bækur um mannleg samskipti sem taki á djúpum tilfinningum, séu ekki hryllilegar eða hræðilegar. „Það er auðveldara að segja hvernig bækurnar eigi ekki að vera en að segja hvernig þær eigi að vera,“ skýtur Birgitta inn í, „því það getur svo margt fallið inn í. Þær gætu grætt þig, því það geta verið miklar tilfinningar í þeim, en það er samt ekki út af einhverju ofbeldi eða hryllingi.“

Þó Colleen Hoover myndi ekki alltaf passa inn í klúbbinn segja þær að annar höfundur sem þær hafa gefið út, Sara Morgan, myndi eiginlega alltaf passa inn, en Birgitta segir að Sarah Morgan sé alla jafna að skrifa ástarsögur, „alveg eins og þessar ástarsögur í gamla daga.“ Marta tekur undir það og segir að þær hafi einmitt verið að ræða um Sarah Morgan fyrir stuttu og bera saman við klassískar ástarsögur eftir Theresu Charles og Barböru Cartland og áþekka höfunda fyrri tíma. „Í ástarsögum í dag eru konurnar meiri gerendur í eigin lífi, nú á hún kastalann en ekki hann, og konurnar eru að velja sjálfar fyrir sig í sínu lífi.“

Höf.: Árni Matthíasson