Loftmyndir Nýjar loftmyndir sem teknar verða af Íslandi á næstu fimm árum munu hafa meira notagildi en þær sem samningur er um í dag.
Loftmyndir Nýjar loftmyndir sem teknar verða af Íslandi á næstu fimm árum munu hafa meira notagildi en þær sem samningur er um í dag. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ólafur E. Jóhannsson oej@mbl.is Gert er ráð fyrir að árlegur sparnaður ríkisins af útboði á loftmyndaþekju af Íslandi verði á bilinu 79 til 90 milljónir króna á ári, en í lok síðasta árs var verkefnið boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Fjögur erlend fyrirtæki buðu í verkið og var lægsta tilboðið 234 milljónir. Ekkert íslenskt fyrirtæki sendi inn tilboð. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði ríkisstjórn grein fyrir í gær.

Ólafur E. Jóhannsson

oej@mbl.is

Gert er ráð fyrir að árlegur sparnaður ríkisins af útboði á loftmyndaþekju af Íslandi verði á bilinu 79 til 90 milljónir króna á ári, en í lok síðasta árs var verkefnið boðið út á evrópska efnahagssvæðinu. Fjögur erlend fyrirtæki buðu í verkið og var lægsta tilboðið 234 milljónir. Ekkert íslenskt fyrirtæki sendi inn tilboð. Þetta kemur fram í minnisblaði sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, gerði ríkisstjórn grein fyrir í gær.

Innkaup kortlögð

„Við höfum verið að vinna með Ríkiskaupum í langan tíma við að kortleggja innkaup ráðuneytisins og stofnana þess og ákváðum að fara í útboð og leita hagkvæmari innkaupa til að fara eins vel með skattfé og mögulegt er. Þetta er eitt af því sem út úr því kom, að spara þarna 70 til 90 milljónir á ári og munar um minna,“ segir Guðlaugur Þór í samtali við Morgunblaðið.

„Að sama skapi munum við fá betri vöru sem nýtist öllum, því þetta verður aðgengilegt öllum Íslendingum,“ segir hann.

Árlega greiða stofnanir ríkisins um 170 milljónir króna fyrir aðgengi að loftmyndum á grundvelli samnings Landmælinga Íslands og Loftmynda ehf. og er það gert á grundvelli samnings frá árinu 2021.

Loftmyndir af landinu öllu á 5 árum

Samkvæmt útboðsgögnum er gert ráð fyrir að aflað verði loftmynda af öllu landinu á um 5 árum og eftir það verði myndir af 20% landsins uppfærðar árlega. Sé litið til þeirra tilboða sem bárust má gera ráð fyrir að kostnaður vegna myndatöku, gerðar og viðhalds viðmiðunarpunkta og vistunar og miðlunar gagna sé um 70 milljónir á ári, að því er fram kemur í minnisblaðinu. Þannig muni árlegur sparnaður vegna útboðsins verða um 70 til 90 milljónir, eins og Guðlaugur Þór nefnir. Þessi þjónusta verður ekki einskorðuð við ríkisstofnanir einvörðungu, heldur fá allir aðgang að þessum gögnum, þ.m.t. sveitarfélög og fyrirtæki í eigu hins opinbera.

„Útboðið er því ekki einungis þjóðhagslega hagkvæmt heldur styður við jafnræði og nýsköpun opinberra aðila og atvinnulífs,“ segir þar og bent á að loftmyndir séu grundvallargögn t.d. á sviði náttúruvár, orkuframkvæmda, loftslagsmála og landbúnaðar.

Myndagögn til að tryggja öryggi

Í minnisblaðinu kemur og fram að til viðbótar við fjárhagslegan sparnað hafi þau gögn þau sem út úr útboðinu munu koma meira notagildi en þau gögn sem samningur er um í dag. Það kemur til vegna aðgangs að grunngögnum sem nauðsynleg eru ef vinna á greiningar, með gervigreind t.d., eða útbúa nákvæm hæðarlíkön. Einnig eru öryggis- og varnarmál nefnd til sögunnar, en mikilvægt sé að Ísland geti útvegað myndgögn af landinu til ótakmarkaðra nota til að tryggja öryggi landsins. Ef alvarlegur atburður verði sé ekki til afrit af nýjustu myndgögnum hjá bandalagsríkjum Íslands. Þegar kemur að náttúruvá og vöktun sé mikilvægt að íslenska ríkið geti afhent frumgögn til vísindamanna eða þeirra erlendu aðila sem sjá um vöktun á náttúrunni.

Mjög verðmæt gagnasett

Loftmyndir og önnur fjarkönnunargögn eru einn af sex meginflokkum svokallaðra mjög verðmætra gagnasetta í framkvæmdareglugerð sem sett er á grundvelli tilskipunar ESB og skulu gögnin vera aðgengileg án endurgjalds.

Þessi tilskipun var innleidd með lögum um endurnot opinberra upplýsinga.

Höf.: Ólafur E. Jóhannsson