Álag Hærra olíuverð drægi úr líkunum á stýrivaxtalækkun.
Álag Hærra olíuverð drægi úr líkunum á stýrivaxtalækkun. — AFP/Scott Olson
Ekki mátti greina mikinn óróleika á mörkuðum í kjölfar eldflaugaárásar Írans á Ísrael á laugardagskvöld. Að vanda voru kauphallir opnar á sunnudag í löndum á borð við Katar, Sádi-Arabíu og Ísrael og varð þar aðeins lítils háttar lækkun

Ekki mátti greina mikinn óróleika á mörkuðum í kjölfar eldflaugaárásar Írans á Ísrael á laugardagskvöld. Að vanda voru kauphallir opnar á sunnudag í löndum á borð við Katar, Sádi-Arabíu og Ísrael og varð þar aðeins lítils háttar lækkun.

Var það helst á rafmyntamarkaði sem vart varð við taugatitring en verð bitcoin lækkaði nokkuð skarplega á laugardag, úr u.þ.b. 67.000 dölum niður í tæplega 61.000 dali, en náði fljótlega jafnvægi í kringum 64.000 dala markið.

Telja verður nær öruggt að olíuverð hækki við opnun markaða í dag, mánudag, en verð hráolíu hafði þegar hækkað um rösklega 3% í kjölfar þess að Ísraelsher sprengdi sendiráð Írans í Damaskus 1. apríl síðastliðinn.

Greinendur benda á að enn sem komið er hafi engar skemmdir orðið á olíuframleiðsluinnviðum Írans og að yfirlýsingar þarlendra stjórnvalda bendi til þess að ekki sé von á frekara eldflaugaregni enda líti ráðamenn í Teheran svo á að árás helgarinnar hafi verið fullnægjandi svar við sprengingu sendiráðsins í byrjun mánaðarins. Þá virðist árásin hvorki hafa valdið dauðsföllum né teljandi skemmdum í Ísrael enda tókst að granda nær öllum þeim skotflaugum og drónum sem Íransher sendi af stað.

Írönsk stjórnvöld hafa þó látið að því liggja að þau kunni að trufla skipaferðir í gegnum Hormuz-sund en um það bil fimmtungur af allri olíuframleiðslu heims er fluttur þar í gegn. Greindu íranskir fjölmiðlar frá því um helgina að Íransher hefði á laugardag tekið yfir gámaflutningaskip á leið í gegnum sundið en skipið, sem siglir undir portúgölskum fána, er sagt vera í eigu ísraelskra aðila.

Það kann að móta væntingar fjárfesta að vaxandi spenna í Mið-Austurlöndum gæti orðið þess valdandi að seðlabanki Bandaríkjanna kjósi að sýna meiri aðgát við væntanlegar vaxtalækkanir enda myndi hækkað olíuverð skapa verðbólguþrýsting í bandaríska hagkerfinu. Bætir það ekki ástandið að bandarískar verðbólgutölur sem birtar voru í síðustu viku reyndust hærri en greinendur höfðu reiknað með.

Ef fjárfestar telja ástandið kalla á að leita skjóls munu þeir einkum vilja færa fjármagn sitt yfir í bandarísk ríkisskuldabréf og gull, og selja erlenda gjaldmiðla í skiptum fyrir fyrir bandaríkjadali. ai@mbl.is