Guðrún Valný Þórarinsdóttir, fæddist í Reykjavík 6. október 1938. Hún lést að heimili sínu í Garðabæ 27. apríl 2024.

Foreldrar hennar voru Guðrún Jónasína Georgsdóttir húsmóðir, f. 26. júlí 1908, d. 21. apríl 1963, og Þórarinn Vilhjálmsson sjómaður og verkamaður, f. 6. ágúst 1904, d. 5. nóvember 1988. Systkini: Guðmunda Þóranna, f. 23. september 1929, d. 17. apríl 1994, Þórður Guðjón, f. 19. apríl 1931, d. 12. maí 2008, Guðný Jónína, f. 1. mars 1933, d. 18. október 1999, Jóhanna Margrét, f. 8. ágúst 1934, d. 8. nóvember 1969, Elín Valdís, f. 18. október 1939, d. 28. ágúst 1996, Jónas Gunnþór Vilhjálmur, f. 26. febrúar 1944, d. 13. mars 1974.

Eiginmaður Guðrúnar Valnýjar var Guðmundur Hafsteinn Sigurðsson, skipasmiður og verkstjóri, f. 2. nóvember 1929, d. 20. mars 2017. Þau giftu sig 1957. Bjuggu fyrst á Hringbraut í Reykjavík en lengst af í Garðabæ á Sunnuflöt, Garðatorgi og Strikinu. Hún var húsmóðir en vann við verslun og sem leiðbeinandi hjá Styrktarfélaginu Ási. Þau eignuðust fjóra syni: 1) Sigurður Ágúst, rafeindavirki og öryggisstjóri, f. 27. ágúst 1958, giftur Ingibjörgu Magnúsdóttur. Börn þeirra: Ragnar, f. 10. nóvember 1985, giftur Unni Kristjánsdóttur f. 7. október 1988, börn þeirra Styrmir, f. 5. febrúar 2010, og Hera, f. 5. nóvember 2018. Steinunn, f. 23. mars 1988, sambýlismaður Chris Biff Boffenberger, f. 17. október 1989. Barn þeirra Edda, f. 15. febrúar 2024. 2) Þórarinn Gunnar vélvirki, f. 1. maí 1960, var giftur Guðlaugu Geirsdóttur. Börn þeirra: Þórunn Sif, 27. febrúar 1992, gift Alexander Annas Helgasyni, barn þeirra Matthildur Ylfa, f. 15. september 2021. Sunna Líf, f. 24. mars 1997. Arna Rán, f. 11. september 1998. 3) Hafsteinn, bifvélavirki, f. 4. febrúar 1962, giftur Steinunni Bergmann. Börn þeirra: Ágústa Ýr, f. 6. september 1986. Guðlaug Ösp, f. 8. júlí 1988, synir hennar Hafsteinn Þór Hjartarson, f. 26. febrúar 2013, og Guðmundur Þór Hjartarson, f. 1. júní 2015. Guðmundur Hafsteinn, f. 11. ágúst 1996, sambýliskona Júlía Káradóttir, barn þeirra Hafdís Eva, f. 30. maí 2023. Guðrún Mist, f. 3. júlí 1998. 4) Egill, f. 9. febrúar 1971, d. 15. nóvember 2002.

Útför hennar fer fram í Garðakirkju í dag, 15. apríl 2024, kl. 13.

Við kveðjum í dag kæra mömmu, tengdamömmu og ömmu, Guðrúnu Valný Þórarinsdóttur. Hún var einstaklega hjartahlý og umhugað um samferðafólk sitt, gamansöm og lífsglöð þrátt fyrir áskoranir í lífinu. Hún lagði mikið upp úr því að vera í góðu sambandi við barnabörnin og hafði einstaka ánægju af því að hitta langömmubörnin og naut þess að sjá þau dafna. Það er margs að minnast, til dæmis fjölda ferðalaga innanlands þar sem börnin nutu þess að koma í húsbílinn til ömmu og afa til að fá kleinur og annað góðgæti. Amma var alltaf tilbúin með veitingar fyrir alla og alltaf nóg pláss í húsbílnum. Við eigum einnig ómetanlegar minningar frá ferð sem amma og afi fóru með okkur erlendis í sólina en þau nutu þess að fylgjast með börnunum að leik. Amma var alltaf tilbúin að passa barnabörnin og leggja lið þegar kom að tómstundum sem kölluðu á akstur á vinnutíma foreldra. Börnin sóttu í að koma við hjá ömmu og afa en amma var einstaklega natin við þau og passaði upp á að eiga til það sem var í uppáhaldi hjá þeim. Minningar um ánægjulegar samverustundir lifa með okkur áfram, hafðu þökk fyrir allt og allt.

Hafðu þökk

Þín gullnu spor

yfir ævina alla

hafa markað

langa leið.

Skilið eftir ótal brosin,

bjartar minningar

sem lýsa munu

um ókomna tíð

(Hulda Ólafsdóttir)

Hafsteinn, Steinunn og börn.

Elsku Gunna mín, hvernig þessi örlög leika okkur grátt, hvernig allt þetta blessað líf endar. Ég var svo heppin að fá að kynnast þér þegar ég flutti í Hlíðagerði 16 með manni mínum og barni. Það var alltaf tilhlökkun þegar þú og Mummi komuð með drengina ykkar fjóra. Það fylgdi ykkur svo mikil gleði og kærleikur, alltaf mikið hlegið og verið að grínast. Jón maðurinn minn kallaði þig ávallt systur sína vegna ykkar uppeldis að alast upp hjá mömmu þinni og pabba ásamt móður sinni sem var systir þín. Elsku Gunna mín, ég vil þakka þér allar yndislegu stundirnar sem við Nonni fengum að njóta með ykkur hjónum. Árshátíðirnar hjá Slippnum og öll afmælin sem voru alltaf svo glæsileg hjá þér í fallega húsinu ykkar á Sunnuflöt. Þú hafðir svo yndislega nærveru. Ég vil þakka þér elskulega Guðrún mín að hafa fengið að kynnast þér.

Vertu sæl að sinni,

þig signi Drottins hönd.

Ég þakka kærleikskynni,

við knýttum vinabönd.

Það geymast svona sögur,

en sumar gleymast fljótt.

Þín braut var björt og fögur,

ég býð þér góða nótt.

Megi góði guð varðveita minningu þína og við hjónin sendum ykkur elsku fjölskyldu þinni innilegar samúðarkveðjur.

Rósa og Jón.