[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anton Sveinn McKee, Birgitta Ingólfsdóttir, Einar Margeir Ágústsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Símon Elías Statkevicius, Snorri Dagur Einarsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir náðu öll lágmarki fyrir EM í 50 metra laug á Íslandsmótinu í sundi sem …

Anton Sveinn McKee, Birgitta Ingólfsdóttir, Einar Margeir Ágústsson, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir, Símon Elías Statkevicius, Snorri Dagur Einarsson og Snæfríður Sól Jórunnardóttir náðu öll lágmarki fyrir EM í 50 metra laug á Íslandsmótinu í sundi sem fram fór í Laugardalslaug um helgina. Anton Sveinn fagnaði einnig sigri í 100 metra bringusundi og 200 metra bringusundi á mótinu, líkt og undanfarin ár. Snæfríður Sól kom fyrst í mark í 100 metra og 200 metra skriðsundi en hún er margfaldur Íslandsmeistari í báðum greinum. Henni tókst þó ekki að ná lágmarki fyrir Ólympíuleikana í París sem fram fara í sumar. Evrópumótið í 50 metra laug fer fram í Belgrad í Serbíu dagana 17.-23. júní í sumar.

Samuel Josh Ramos fagnaði sigri í -67 kg flokki í kumite, frjálsum bardaga, á Norðurlandameistaramótinu í karate sem fram fór í Laugardalshöllinni á laugardaginn. Samuel mætti Kristians Anri Petersons frá Lettlandi í úrslitum en viðureignin endaði 1:1. Samuel fagnaði sigri þar sem hann varð fyrri til að skora. Alls unnu Íslendingar til þrettán verðlauna á mótinu sem er besti árangur Íslands frá upphafi. Hugi Halldórsson, Una Borg Garðarsdóttir og Karen Thuy Duong Vu fengu silfurverðlaun í sínum flokkum og þau Þórður Jökull Henrysson, Embla Rebekka Halldórsdóttir, Filip Leon Kristófersson, Eydís Magnea Friðriksdóttir, Ísold Klara Felixdóttir og Ólafur Engilbert Árnason unnu til bronsverðlauna.

Knattspyrnumaðurinn Eyþór Aron Wöhler er genginn til liðs við KR frá Breiðabliki en hann skrifaði undir þriggja ára samning við Vesturbæinga. Eyþór gekk til liðs við Breiðablik frá ÍA haustið 2022 en festi sig aldrei í sessi í byrjunarliði Blika. Eyþór spilaði fyrir HK á láni fyrri hluta tímabilsins 2023 en sneri aftur í Breiðablik og lék 4 leiki síðari hluta Íslandsmótsins. Alls á hann að baki 55 leiki í efstu deild þar sem hann hefur skorað þrettán mörk og þá á hann að baki 15 leiki fyrir yngri landslið Íslands.

Víkingur fagnaði sigri í karla- og kvennaflokki á Íslandsmótinu í borðtennis í liðakeppni sem fram fór í íþróttahúsinu við Strandgötu á laugardaginn. Þeir Ingi Darvis Rodriguez, Magnús Jóhann Hjartarson og Kári Mímisson skipuðu sveit Víkings sem hafði betur gegn KR í oddaleik í úrslitum, 3:2. Þær Nevena Tasic, Eva Jósteinsdóttir og Lilja Rós Jóhannesdóttir skipuðu sveit Víkings sem hafði betur gegn BH í úrslitum, 3:0.

Marín Laufey Davíðsdóttir stóð uppi sem sigurvegari í Íslandsglímunni á Laugarvatni á laugardaginn og fékk því Freyjumenið. Þórður Páll Ólafsson vann í karlaflokki og fékk Grettisbeltið. Alls voru 12 keppendur í kvennaflokki og 90 í karlaflokki.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir meiddist á ökkla í leik með liði sínu Bayer Leverkusen gegn Eintracht Frankfurt í þýsku 1. deildinni í knattspyrnu á laugardaginn. Þetta staðfesti hún í samtali við Morgunblaðið en óvíst er hversu lengi hún verður frá. Leiknum lauk með 2:0-sigri Leverkusen en Karólína Lea hefur verið í lykilhlutverki með Leverkusen á tímabilinu og skorað fimm mörk og lagt upp önnur sex í 18 deildarleikjum. Leverkusen er í 5. sætinu með 28 stig, fimm stigum frá Evrópusæti.

Ómar Ingi Magnússon fór mikinn fyrir Magdeburg þegar liðið tryggði sér þýska bikarmeistaratitilinn með sigri gegn Melsungen í úrslitaleik í Lanxess-Arena í Köln í Þýskalandi í gær. Leiknum lauk með stórsigri Magdeburgar, 30:19, en staðan í hálfleik var 13:12, Magdeburg í vil. Ómar Ingi var næstmarkahæstur hjá Magdeburg og skoraði 6 mörk, þar af þrjú af vítalínunni, þá gaf hann eina stoðsendingu í leiknum. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði tvö mörk fyrir Magdeburg og gaf þrjár stoðsendingar og Janus Daði Smárason skoraði eitt mark. Elvar Örn Jónsson skoraði tvö mörk fyrir Melsungen og Arnar Freyr Arnarsson eitt mark. Þetta er í þriðja sinn sem Magdeburg verður þýskur bikarmeistari. Teitur Örn Einarsson og liðsfélagar hans í Flensburg höfnuðu í þriðja sæti eftir 31:28-sigur gegn Füchse Berlín en Teitur Örn skoraði tvö mörk í leiknum um þriðja sætið í Köln.