Stjórnvöld í Íran styðja og styðja sig við hryðjuverk

Klerkastjórnin í Íran treystir því að stjórnvöld annarra ríkja, ekki síst Vesturlanda, þjáist af alvarlegu minnisleysi. Enn sem komið er hefur þetta dugað klerkunum ágætlega því að þeir hafa komist upp með halda úti ófriði í Mið-Austurlöndum um árabil. Þetta hefur almennt verið gert í gegnum skjólstæðinga klerkastjórnarinnar, svo sem hryðjuverkasamtaka á borð við Íslamska jihad, Hesbolla, Hamas og Húta, en stundum með beinum hernaðaraðgerðum Írans, svo sem í loftárásinni á Ísrael á laugardag og í sjóræningjaárásinni á flutningaskip á alþjóðlegri siglingaleið sama dag.

Klerkastjórnin heldur því fram að loftárásin á Ísrael, þar sem hundruð dróna og flugskeyta voru send frá Íran til árásar á ísraelskt landsvæði, hafi verið réttlætanleg viðbrögð við sprengjuárás Ísraels á sendiskrifstofu Írans í Líbanon. Umdeilanlegt er hvort þetta var sendiskrifstofan sjálf eða viðbygging við hana, en ekki er deilt um að í árásinni féllu tveir yfirmenn Byltingarvarðarins, herafla klerkastjórnarinnar sem vinnur með hryðjuverkasamtökum víða um Mið-Austurlönd við að halda úti ófriði. Allur er sá ófriður að undirlagi og með hernaðarlegum og fjárhagslegum stuðningi klerkastjórnarinnar í Íran. Án þessara aðgerða hennar má ætla að friður hefði fyrir löngu náðst á þessu stríðshrjáða svæði.

Ófriðurinn á Gasasvæðinu nú er einnig að undirlagi íranskra stjórnvalda. Þau aðstoðuðu við undirbúning árása Hamas á Ísrael 7. október síðastliðinn og hafa veitt hryðjuverkasamtökunum margvíslegan stuðning um árabil við að halda úti ófriði gagnvart Ísrael og um leið að kúga landa sína á Gasasvæðinu. Eftir árásirnar hryllilegu hinn 7. október fordæmdu flestar þjóðir atburðinn, en klerkastjórnin fagnaði honum og lýsti yfir stuðningi við árásirnar, enda voru þær ætlaðar til að koma í veg fyrir batnandi samskipti og samkomulag sem var í burðarliðnum á milli Ísraels og Sádi-Arabíu.

Stuðningurinn og viðbrögðin við hryllingnum 7. október segir meira en mörg orð um eðli stjórnarinnar í Teheran. Þar fer glæpastjórn sem styður og styðst við hryðjuverkasamtök. Nú keppast stjórnvöld víða um heim við að hvetja til hófs í mótaðgerðum vegna loftárásar Írans á Ísrael. Nú verði menn að halda aftur af sér sem aldrei fyrr. Vandinn er þó sá að áratugum saman hafa stjórnvöld friðsamlegra ríkja haldið aftur af sér gagnvart klerkastjórninni og jafnvel gert við hana samninga og afhent henni stórfé, sem nýst hefur í hryðjuverkastarfsemina. Getur ekki verið að stjórnvöld í Teheran hafi lært það smám saman að hryðjuverkastarfsemi þeirra kostar þau ekkert? Er ekki hugsanlega kominn tími til að beita öðrum aðferðum áður en ástandið verður enn verra?