Skalli Valsarinn Orri Sigurður Ómarsson og Fylkismaðurinn Halldór Jón Sigurður Þórðarson eigast við í leik Fylkis og Vals í Árbænum í gærkvöldi.
Skalli Valsarinn Orri Sigurður Ómarsson og Fylkismaðurinn Halldór Jón Sigurður Þórðarson eigast við í leik Fylkis og Vals í Árbænum í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Óttar Geirsson
Fylkir náði í sitt fyrsta stig í Bestu deild karla í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Íslandsmeistaraefnunum í Val í Árbænum í gær í 2. umferð deildarinnar. Leiknum lauk með með markalausu jafntefli en bæði lið fengu svo sannarlega tækifærin til þess að skora

Besta deildin

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Fylkir náði í sitt fyrsta stig í Bestu deild karla í knattspyrnu þegar liðið tók á móti Íslandsmeistaraefnunum í Val í Árbænum í gær í 2. umferð deildarinnar.

Leiknum lauk með með markalausu jafntefli en bæði lið fengu svo sannarlega tækifærin til þess að skora. Orri Sveinn Stefánsson komst næst því að skora hjá Fylki en Frederik Schram varði slaka vítaspyrnu hans á 43. mínútu. Valsmegin var það Gylfi Þór Sigurðsson sem fékk bestu færi leiksins en Ólafur Kristófer Helgason, sem átti stórleik í marki Fylkis, sá við honum.

 Valsmönnum mistókst síðast að skora í deildinni gegn Víkingi úr Reykjavík þegar liðin mættust í 20. umferð deildarinnar á síðustu leiktíð hinn 20. ágúst.

Viktor Jónsson fór á kostum fyrir ÍA þegar liðið fékk sín fyrstu stig í deildinni í sumar eftir stórsigur gegn HK í Kórnum í Kópavogi, 4:0. Viktor gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í leiknum, hans fyrsta fyrir ÍA í efstu deild. Hann skoraði síðast þrennu á Íslandsmótinu fyrir ÍA gegn Aftureldingu í júlí á síðasta ári í 1. deildinni en þá skoraði hann reyndar fjögur mörk í 5:2-sigri Skagamanna gegn Aftureldingu.

 Arnór Smárason skoraði sitt fyrsta mark fyrir uppeldisfélag sitt ÍA í efstu deild en hann hélt ungur að árum í atvinnumennsku til Herenveen í Hollandi árið 2004, þá 19 ára gamall.

Kjartan Kári Halldórsson tryggði FH afar dýrmætan sigur gegn KA þegar liðin mættust á Akureyri á laugardaginn í miklum markaleik en Kjartan Kári skoraði sigurmark leiksins á 57. mínútu.

Hafnfirðingar komust í 2:0 í leiknum áður en Akureyringum tókst að jafna metin. Líkt og hjá Skagamönnum var sigurinn sá fyrsti hjá FH á tímabilinu eftir tap gegn Breiðabliki í fyrstu umferðinni en KA gerði jafntefli við HK á heimavelli á sama tíma.

 Sigurður Bjartur Hallsson skoraði sitt fyrsta mark fyrir FH frá því hann gekk til liðs við félagið frá KR fyrir tímabilið. Hann hefur skorað 12 mörk í efstu deild fyrir þrjú mismunandi félög; FH, KR og Grindavík.

Breiðablik trónir á toppi deildarinnar með 6 stig eftir stórsigur gegn nýliðum Vestra á Kópavogsvelli. Eftir tíðindalítinn fyrri hálfleik héldu Blikum engin bönd í síðari hálfleik en Blikar áttu alls 25 skottilraunir í leiknum, þar af fóru tíu á markið. Á sama tíma áttu Vestramenn eina skottilraun í öllum leiknum, en þeim tókst ekki að hitta á markið úr henni.

 Breiðablik var með 3 stig eftir fyrstu tvær umferðirnar á síðustu leiktíð þegar þeir voru ríkjandi Íslandsmeistarar.

 Dagur Örn Fjelsted skoraði sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Breiðablik en hann er fæddur árið 2005.