— Morgunblaðið/Eyþór
Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir við næsta kirkjugarð Reykvíkinga, sem verður í Úlfarsfelli. Kostnaðaráætlun er 90 milljónir króna

Borgarráð samþykkti á síðasta fundi sínum að heimila umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út áframhaldandi framkvæmdir við næsta kirkjugarð Reykvíkinga, sem verður í Úlfarsfelli. Kostnaðaráætlun er 90 milljónir króna.

Tillaga þessa efnis var samþykkt með fimm atkvæðum borgarráðsfulltrúa Samfylkingarinnar, Framsóknar, Pírata, Sósíalistaflokks Íslands og Viðreisnar gegn tveimur atkvæðum borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins sögðu í bókun að þeir teldu rétt að nýta það land sem hér um ræðir undir húsnæðisuppbyggingu, enda um frábært byggingarland að ræða. Þar sem ágreiningur var um málið fer það til endanlegrar afgreiðslu borgarstjórnar.

Hinn nýi grafreitur er í landi Lambhaga í vesturhlíð Úlfarsfells, skammt fyrir ofan verslun Bauhaus. Framkvæmdaleyfi var veitt síðla árs 2022.

Áætlað er að taka á móti um 90.000 rúmmetrum jarðefnis árlega en það er háð þeim verkefnum sem eru í gangi hverju sinni á vegum sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu og hjá einkaaðilum, að því er fram kom í umsókn um leyfið. Áætlað heildarmagn fyllingar er um 610.000 rúmmetrar.

Svæðið er með takmarkaðri jarðvegsþekju og til að það verði grafartækt fyrir kistugrafir þarf að bæta mold ofan á núverandi land.

Heildarstærð hins nýja kirkjugarðs verður 22,5 hektarar. Gert er ráð fyrir því að fyllingin verði mest fimm metra djúp, en á stærstum hluta svæðisins verður fyllingin um þriggja metra djúp. Framkvæmdum við landmótun á að ljúka í árslok 2026.

sisi@mbl.is