Öflugir Taiwo Badmus og Gustav Suhr-Jessen fóru báðir mikinn.
Öflugir Taiwo Badmus og Gustav Suhr-Jessen fóru báðir mikinn. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Höttur jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu gegn deildarmeisturum Vals í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik þegar liðin mættust í öðrum leik sínum á Egilsstöðum í gær. Leiknum lauk með sjö stiga sigri Hattar, 84:77, en Deonteye…

Höttur jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu gegn deildarmeisturum Vals í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik þegar liðin mættust í öðrum leik sínum á Egilsstöðum í gær. Leiknum lauk með sjö stiga sigri Hattar, 84:77, en Deonteye Buskey var stigahæstur hjá Hetti með 23 stig, þrjú fráköst og þrjár stoðsendingar.

Hattarmenn leiddu með 14 stigum í hálfleik, 50:36, og juku forskot sitt ennþá frekar í þriðja leikhluta. Valsmönnum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Gustav Suhr-Jessen átti stórleik fyrir Hött, skoraði 14 stig, tók tíu fráköst og gaf eina stoðsendingu en Taiwo Badmus var stigahæstur hjá Val með 23 stig, fjórtán fráköst og þrjár stoðsendingar. Þriðji leikur liðanna fer fram á Hlíðarenda á fimmtudaginn kemur en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitunum.

Nigel Pruitt var svo stigahæstur hjá Þór frá Þorlákshöfn þegar liðið jafnaði metin í 1:1 í einvígi sínu gegn Njarðvík í Þorlákshöfn með naumum sigri, 95:92. Pruitt skoraði 25 stig, tók þrjú fráköst og gaf tvær stoðsendingar í leiknum.

Þórsarar leiddu stærstan hluta leiksins en Njarðvík tókst að minnka forskot Þórsara í eitt stig, 90:89, þegar 38 sekúndur voru til leiksloka. Lengra komust þeir hins vegar ekki.

Tómas Valur Þrastarson skoraði 18 stig fyrir Þór, tók sjö fráköst og gaf tvær stoðsendingar en Dwayne Lautier-Ogunleye var stigahæstur hjá Njarðvík með 24 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar. Liðin mætast næst í Njarðvík á fimmtudaginn.