Í Hörpu Þorgerður Ása og Ásta Soffía komu fyrst saman í fyrrasumar.
Í Hörpu Þorgerður Ása og Ásta Soffía komu fyrst saman í fyrrasumar. — Ljósmynd/Álfgrímur Aðalsteinsson
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir söngkona og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmonikuleikari halda ferna tónleika á Norðurlandi í vikunni, verða síðan í Skálholtskirkju 3. maí og síðsumars ráðgerir Ásta Soffía að gefa út nótnahefti með 15 íslenskum tangólögum, upplýsingum um lagahöfundana og tengingum laganna við blómaskeið harmonikunnar.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Þorgerður Ása Aðalsteinsdóttir söngkona og Ásta Soffía Þorgeirsdóttir harmonikuleikari halda ferna tónleika á Norðurlandi í vikunni, verða síðan í Skálholtskirkju 3. maí og síðsumars ráðgerir Ásta Soffía að gefa út nótnahefti með 15 íslenskum tangólögum, upplýsingum um lagahöfundana og tengingum laganna við blómaskeið harmonikunnar.

Ásta Soffía byrjaði að læra á harmoniku í barnaskóla á Húsavík. Hún fór í Tónlistarskóla FÍH og Listaháskólann áður en hún útskrifaðist með BA-gráðu í tónlistarflutningi frá Tónlistarháskólanum í Ósló og síðan með MA-gráðu frá Tónlistarháskólanum í Freiburg í Þýskalandi 2020. Vorið 2021 veitti Seðlabanki Íslands Ástu Soffíu styrk úr menningarsjóði sem tengdur er nafni Jóhannesar Nordals, fyrrverandi seðlabankastjóra, til að rannsaka íslenska tangótónlist. „Markmiðið var að varpa ljósi og vekja meiri athygli á tangótónlistinni okkar og tónleikarnir eru liður í því,“ útskýrir hún.

Tangólög heilluðu Ástu Soffíu snemma. Hún rifjar upp að þau eigi rætur að rekja til Argentínu og blómaskeið íslenskrar tangótónlistar hafi verið frá því eftir fyrri heimsstyrjöldina og fram yfir miðja 20. öldina. Gaman hafi verið að sökkva sér í hafsjó þeirra og grafa ofan í gullkistuna. „Ég skoðaði söguna frá 1920 til 1965 og hún er skemmtileg og áhugaverð.“

Útlendingar og keppni

Ásta Soffía bendir á að erlendir tónlistarmenn, einkum frá meginlandi Evrópu, hafi komið og meðal annars leikið tangótónlist fyrir Íslendinga eftir stríðslok og íslenskir lagahöfundar hafi fljótlega orðið fyrir áhrifum frá þeim og byrjað að semja tangólög. Höskuldur J. Ólafsson hafi gefið út Tvo tangóa 1926 og það sé elsta, íslenska prentútgáfan með tangólögum sem hún hafi séð en Trausti Jónsson veðurfræðingur hafi bent sér á ritið. Bjarni Böðvarsson hafi verið mjög áberandi á tónlistarsviðinu á millistríðsárunum og á tónleikunum spili þær Hví skyldi ég gleyma?, flottan tangó eftir hann við texta eftir Ágúst bróður hans. „Þessi tangó er í raun gleymdur en er til í upprunalegu nótunum.“

Skemmtiklúbbur templara stóð fyrir Danslagakeppni SKT 1950 til 1961. „Keppt var í lagasmíðum nýju og gömlu dansanna og tangóinn var þar áberandi,“ segir Ásta Soffía. Samfara auknum fjölda tangólagahöfunda hafi keppnin haft mest áhrif á vinsældir tangólaga. Líkja megi stemningunni við þá sem ríki gjarnan í tengslum við Júróvisjón, nema hvað fólk hafi fylgst með keppninni í útvarpi. „Þessi danslagakeppni var í raun líka fyrirrennari dægurlagaarfsins okkar.“

Ásta Soffía segir áhugavert hvað margar konur hafi verið í hópi tangólagahöfunda. „Þrjú lög í efnisskrá okkar eru eftir konur og það elsta er eftir Ástu Sveinsdóttur, sem fæddist 1895,“ segir hún. „Vilhemína Norðfjörð Baldvinsdóttir, sem fæddist 1930, samdi uppáhaldstangóinn minn, Sem ljúfur draumur, og Ólafur Gaukur gerði textann, en svo tökum við líka tangó eftir Sigfríði Jónsdóttur frá Reykjadal í Suður-Þingeyjasýslu, sem fæddist 1908.“

Tónleikarnir í vikunni eru styrktir af Tónlistarsjóði Rannís og Menningarsjóði KEA. Þeir verða klukkan 20.00 í menningarhúsinu Bergi á Dalvík annað kvöld, í kaffihúsinu í Lystigarðinum á Akureyri á miðvikudagskvöld, í félagsheimilinu Breiðumýri í Reykjadal á fimmtudagskvöld og í Blönduóskirkju kl. 18.00 á föstudag.

Höf.: Steinþór Guðbjartsson