Haukur Freyr Axelsson
Haukur Freyr Axelsson
Ef varanlegur miski hins slasaða er metinn lægri en 15 stig greiðast engar bætur úr tryggingunni og enginn útlagður kostnaður heldur.

Haukur Freyr Axelsson

Undanfarin ár hefur það færst í vöxt að fólk sem leitar til okkar eftir slys sem það verður fyrir við akstur torfærutækja (t.d. krossara, fjórhjóla og vélsleða) fær engar bætur þrátt fyrir að hafa orðið fyrir varanlegu líkamstjóni. Ástæða þessa er annars vegar lagabreyting sem tók gildi 1. janúar 2020 og hins vegar viðbrögð tryggingafélaganna við þeirri lagabreytingu.

Með setningu umferðarlaga árið 1987 kom Alþingi á þeirri skyldu að tryggja alla ökumenn og eigendur ökutækja með slysatryggingu ökumanns og eiganda. Meginrökin fyrir þessari lagabreytingu voru hættueiginleikar ökutækja. Um skaðabótatryggingu er að ræða, sem þýðir að hinn tryggði getur átt rétt á bótum m.a. vegna tekjutaps, varanlegs miska og varanlegrar örorku. Um töluverða fjárhagslega hagsmuni getur því verið að ræða. Enn er skylt að tryggja meginþorra eigenda og ökumenn ökutækja með slíkri tryggingu en með lögum nr. 30/2019, sem tóku gildi 1. janúar 2020, afnam Alþingi þessa skyldu hvað varðar ökumenn og eigendur torfærutækja. Í athugasemdum við ákvæðið í greinargerð með frumvarpi til laganna segir að eðlilegt þyki að undanskilja eigendur og ökumenn slíkra ökutækja þar sem þau séu ætluð til tómstundaiðkunar. Ökumenn og eigendur slíkra tækja geti þá ákveðið sjálfir hvort þeir slysatryggi sig fyrir áhættunni.

Hér er einfaldlega rangt með farið því slík tæki eru ekki einungis notuð við tómstundaiðkun, heldur eru þau oftar en ekki notuð sem vinnutæki. Hér má t.d. nefna bændur, ferðaþjónustuaðila og björgunarsveitir. Með einu pennastriki misstu allir þessir einstaklingar þá ríku vernd sem felst í því að vera tryggðir með slysatryggingu ökumanns og eiganda. Sú framtíðarsýn sem fram kemur í frumvarpinu þess efnis að ökumenn og eigendur torfærutækja muni í kjölfar lagabreytingarinnar geta ákveðið sjálfir hvort þeir slysatryggi sig fyrir áhættunni hefur ekki ræst.

Líkt og bent var á í útvarpsviðtali í desember árið 2019 höfðu þrjú af fjórum tryggingafélögum landsins þá þegar gefið það út að eftir lagabreytinguna yrði ekki í boði fyrir ökumenn og eigendur torfærutækja að tryggja sig með slysatryggingu ökumanns og eiganda. Þessi sömu félög drógu svo í land og buðu upp á trygginguna en hafa breytt henni á þann hátt að ekki er lengur hægt að tryggja sig með sama hætti og áður. Í skilmálum tryggingarinnar eins og hún er í dag kemur eftirfarandi fram:

Ef varanlegur miski hins slasaða er metinn lægri en 15 stig greiðast engar bætur úr tryggingunni og enginn útlagður kostnaður heldur.

Tryggingafélagið greiðir ekki fyrir útlagðan kostnað, t.d. læknisfræðileg gögn og matsgerð fyrr en varanlegur miski hefur verið staðfestur með matsgerð.

Þetta þýðir að mjög stór hluti þeirra sem lenda í slysi á torfærutæki eiga ekki rétt á bótum þrátt fyrir að hafa orðið fyrir varanlegum miska, tekjutapi og varanlegri örorku í kjölfar slyssins. Hér má nefna eftirfarandi dæmi:

„A, 40 ára smiður, fellur af fjórhjóli og úlnliðsbrotnar. Hann er í kjölfarið óvinnufær í nokkra mánuði og verður af töluverðum tekjum. Á sama tíma er hann í sjúkraþjálfun sem ber ekki árangur og að lokum þarf hann að undirgangast aðgerð þar sem úlnliðurinn er stífaður. Slíkur áverki er samkvæmt miskatöflu örorkunefndar metinn til 12-15 stiga varanlegs miska. Eftir að hafa aflað læknisfræðilegra gagna aflar hann örorkumats tveimur árum eftir slysið. Þar sem úlnliðsbrotið gerir honum mjög erfitt fyrir við smiðsstörf er varanleg örorka hans metin 35%. Varanlegur miski hans er hins vegar metinn til 14 stiga. Bætur, sem út frá meðallaunum húsasmiða hefðu verið um 50 milljónir króna, eru engar þar sem varanlegur miski er 14 stig en ekki 15. Það sem meira er: Hann situr uppi með allan kostnaðinn við það að reyna að sanna tjón sitt, sem getur hæglega hlaupið á einni til tveimur milljónum króna.“

Það er áhugaverð staðreynd að þrátt fyrir framangreint 15% lágmark í slysatryggingu ökumanns og eiganda vegna torfærutækja, sem augljóslega sparar tryggingafélögunum töluverða fjármuni, hafa iðgjöld vegna þessara trygginga ekki lækkað frá því sem áður var.

Það er full þörf á því að breyta lögum nr. 30/2019 og koma aftur á þeirri skyldu að tryggja ökumenn torfærutækja með slysatryggingu ökumanns og eiganda. Hættueiginleikar þessara tækja hafa ekkert minnkað og þörfin fyrir þessa tryggingu er engu minni en hún var árið 1987. Það er óboðlegt að stór hluti þeirra sem slasast á slíkum tækjum greiði fyrir tryggingar sem veita þeim svo enga vernd þegar á hólminn er komið.

Höfundur er landsréttarlögmaður og einn af eigendum Fulltingis.

Höf.: Haukur Freyr Axelsson