Leikreglur lýðræðis og andóf við þeim

Bjarni Benediktsson forsætisráðherra átti fund með sjálfstæðismönnum á laugardag til að ræða forystu flokks þeirra í ríkisstjórn. Fundinn sóttu á áttunda hundrað manns og tvöfalt fleiri fylgdust með honum í netstreymi. Bjarni var þar hylltur og er fundarsóknin forsætisráðherra mikill styrkur.

Ekki var honum þó síður styrkur í þeim tugþúsundum mótmælenda, sem ekki voru fyrir utan fundinn, í nokkurri mótsögn við fréttaflutning um víðtækt andóf gegn Bjarna.

Þar er vísað til undirskriftasöfnunar á netinu að frumkvæði trúnaðarmanns Samfylkingar, þar sem tæplega 40 þúsund lýstu andstöðu við Bjarna sem forsætisráðherra.

Það er dágóður fjöldi, en þarf að skoða í samhengi. Í alþingiskosningunum 2021 kusu 200 þúsund manns; þar af greiddu 151 þúsund Sjálfstæðisflokknum ekki atkvæði sitt.

Er það til marks um eitthvað sérstakt þegar aðeins fjórðungur þeirra sem ekki kusu Sjálfstæðisflokkinn vill ekki að formaður hans verði forsætisráðherra? Þegar 74% þeirra gera ekki athugasemdir við það? Að innan við helmingur atkvæða stjórnarandstöðunnar sé á móti því? Það styrkir Bjarna enn frekar.

Ekki skal gera lítið úr því að 10% landsmanna tjá sig með þeim hætti, þó það sé skrýtið að tala um undirskriftasöfnun þegar enginn skrifar í raun undir og margir nafnlaust. En er það á einhvern hátt þyngra á metum en þegar menn láta sér líka við hitt og þetta á félagsmiðlum?

Þingið er kosið til fjögurra ára og ríkisstjórn valin eftir leikreglum lýðræðisins. Þær setjum við ekki til hliðar þó einhverjir séu niðurstöðu þjóðarinnar mótfallnir. Umboð stjórnarinnar og Bjarna Benediktssonar er jafnsterkt.