Eva Hauksdóttir
Eva Hauksdóttir
Skortur er á lífeindafræðingum á landinu og því gott tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á rannsóknum og heilbrigði mannsins.

Eva Hauksdóttir

Kæri lesandi, í dag fögnum við alþjóðlegum degi lífeindafræðinga. Þema dagsins er „Guardians of Quality and Patient Safety: Biomedical Laboratory Scientists“. Lífeindafræðingar, ein af heilbrigðisstéttum landsins, sinna mikilvægu starfi er varða gæði og öryggi í heilbrigðisþjónustu. Margar af þeim rannsóknum sem einstaklingar þurfa að undirgangast á lífsleiðinni eru framkvæmdar af lífeindafræðingum. Það er því mikilvægt að lífeindafræðingar standi vörð um gæði rannsókna og öryggi sjúklinga, í þeim tilgangi að greining fáist á sjúkdómum, meðferð sé markviss og hægt sé að meta horfur sjúklinga. Síðustu áratugi hafa störf lífeindafræðinga þróast hratt og sjálfvirkni aukist mikið sem og fjöldi rannsókna, og eftirlitshlutverkið tengt gæðum stækkað að sama skapi.

Til að geta starfað sem lífeindafræðingur þarf starfsleyfi lífeindafræðings. Að baki slíks starfsleyfis liggur fjögurra til fimm ára háskólanám; þriggja ára grunnnám, B.Sc.-nám í lífeindafræði (180 ECTS), og annaðhvort árs diplómunám í lífeindafræði (60 ECTS) eða tveggja ára meistaranám, M.Sc.-nám í lífeindafræði (120 ECTS). Diplómunámið telst sem fyrra ár meistaranámsins.

Í grunnnáminu læra nemar um ýmsar faggreinar innan lífeindafræðinnar, m.a. klíníska lífefnafræði, blóðmeinafræði, sýklafræði, vefjameinafræði og ónæmisfræði, auk gæðastjórnunar. Framhaldsnám í lífeindafræði, líkt og í öðrum háskólagreinum, kynnir rannsóknarvinnu og hvetur til vísindalegrar hugsunar.

Skortur er á lífeindafræðingum á landinu og því gott tækifæri fyrir alla sem hafa áhuga á rannsóknum og heilbrigði mannsins að skrá sig í lífeindafræðinám við Háskóla Íslands fyrir næsta haust. Umsóknartími til grunnnáms er 5. júní.

Höfundur er formaður Félags lífeindafræðinga.

Höf.: Eva Hauksdóttir