60 ára Gréta er Reykvíkingur, ólst upp í Breiðholti en býr á Kolagötu við Hafnartorg. Hún er með MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf og er forstöðukona nemendaráðgjafar við Háskólann í Reykjavík. Áhugamálin eru ferðalög og að elta ævintýrin, hönnun,…

60 ára Gréta er Reykvíkingur, ólst upp í Breiðholti en býr á Kolagötu við Hafnartorg. Hún er með MA-gráðu í náms- og starfsráðgjöf og er forstöðukona nemendaráðgjafar við Háskólann í Reykjavík. Áhugamálin eru ferðalög og að elta ævintýrin, hönnun, matur og tónlist, en hún syngur í hljómsveit þegar færi gefst. „Einnig skipta fjölskylda og vinir mig miklu máli og hef ég mikinn áhuga á samskiptum og jákvæðri sálfræði.

Hamingjan snýst um innihald og tilgang. Hún snýst um þetta smáa í daglega lífinu, þessa litlu hversdagslegu hluti sem við tökum stundum ekki eftir í dagsins önn. „Glimmerstundin“ mín að morgni getur stundum verið góður kaffibolli.

Hamingjan byggist m.a. á því að spyrja spurninganna: Hvað mun færa mér hamingju, hvað færir mér merkingu, hvað veitir mér ánægju og hverjir eru styrkleikar mínir? Fyrir hvað er ég þakklát? Á þessum tímamótum er ég þakklát fyrir að fá að fagna með Gunna mínum og systkinum á Miami. Í sumar höldum við áfram að fagna og höldum þá til Mallorca með dætrum, tengdasonum, barnabörnum og góðum vinum. Mallorca á stað í hjarta mínu, en þar starfaði ég sem fararstjóri um árabil.“


Fjölskylda Eiginmaður Grétu er Gunnar Gunnarsson Norðfjörð, f. 1961, tónlistarmaður og organisti. Dætur þeirra eru Heiðdís, f. 1983, Birta, f. 1987 og Katrín Sól, f. 2001. Barnabörnin eru orðin fjögur. Foreldrar Grétu: Katrín Margrét Ólafsdóttir, f. 1942, d. 2022, húsmóðir og lífskúnstner, og Matthías Matthíasson, f. 1943, fv. skipstjóri hjá Eimskip, búsettur í Reykjavík.