Formaður Þetta er stærsta hestamannafélag landsins og í því eru allskonar knapar, segir Jónína Björk í viðtalinu.
Formaður Þetta er stærsta hestamannafélag landsins og í því eru allskonar knapar, segir Jónína Björk í viðtalinu. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Hestamennska er frábært fjölskyldusport. Sjálf hef ég verið í þessu sporti frá því ég man eftir mér og þetta gefur mér og mínum mikið. Ég fer alltaf í nokkrar hestaferðir á sumrin og finnst ekkert betra en að vera uppi á hálendi á hestum með…

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Hestamennska er frábært fjölskyldusport. Sjálf hef ég verið í þessu sporti frá því ég man eftir mér og þetta gefur mér og mínum mikið. Ég fer alltaf í nokkrar hestaferðir á sumrin og finnst ekkert betra en að vera uppi á hálendi á hestum með fólkinu mínu,“ segir Jónína Björk Vilhjálmsdóttir, nýr formaður hestmannafélagsins Spretts.

Kynslóðir saman í sportinu

Aðalfundur Spretts, sem er félag hestmanna í Kópavogi og Garðabæ, var haldinn nýlega. Með traustum meirihluta var Jónína þar kjörin formaður. Sjálf hefur hún verið virk í félagsstörfum í áraraðir. Þau Jónína og Sigurður Halldórsson eiginmaður hennar – og börn þeirra þrjú – eru með hesta sína á húsi efst í Kópavogi. Þar eru fjórar kynslóðir saman í sportinu og una sér vel.

„Þegar hesthúsið var byggt var tengdapabbi, Halldór Svansson, staðráðinn í því að hafa aðstöðuna fyrir alla fjöskylduna. Krakkarnir koma í húsið með ömmu sinni eftir skóla og sinna mokstri: njóta þess að komast í kyrrðina. Kaffistofan hefur þróast í að vera félagsmiðstöð fjölskyldu og vina, fólk sækir í að kíkja í kaffi þó það sé ekki endilega í hestum,“ segir hestakonan.

Allir eru Sprettarar

Aðstaða Spretts er á Vatnsendasvæðinu á mótum Kópavogs og Garðabæjar. Fyrir voru Garðbæingar á svæðinu. Svo fór fyrir 15 árum eða svo að aðstaða hestamanna í Kópavogi var færð úr Lindum við Reykjanesbraut nærri Smáralind í efri byggðir. Sameining félaga í nágrannasveitarfélögum blasti þá við og hefur lukkast vel

„Sameining fyrirrennara Spetts gekk vel og allir líta á sig í dag sem Sprettara. Þetta er stærsta hestamannafélag landsins og í því eru allskonar knapar; þau sem eru að stíga sín fyrstu skref, keppnisfólk, áhuga- og atvinnumenn. Allir Sprettarar eiga að finna sig í félaginu,“ segir Jónína Björk.

Barna- og unglingastarf er áherslumál í Spretti og formaðurinn nýi er áfram um viðgang þess. Á Sprettssvæðinu er á hverjum degi, segir hún, fjöldi af ungum knöpum sem fara fetið eða þaðan af hraðar um stíga og reiðvegi. Hestamennska sé jaðarsport og mikilvægt sé að hlúa vel að þeim börnum sem finna styrk sinn í samveru með hestunum. Pollanámskeið fyrir yngstu hestakrakka séu vinsæl. Þá sæki aukalega allt að 200 börn, tíu ára og eldri, reið- og hestanámskeið sem félagið stendur fyrir.

Aðstaða við Vatnsenda til vaxtar og viðgangs

Áherslumál er, segir Jónína, að ná jafnt til krakka sem ætla að stunda hestasportið sér til gamans og þeirra sem stefna á keppni. Síðarnefndi hópurinn sé stór og úr Spretti komi alls 6 knapar í ungmennalandsliðinu í hestamennsku, 21 árs og yngri, af 18 knöpum. Í þeim hópi er meðal annars einn heimsmeistari í tölti ungmenna en það er Herdís Björg Jóhannsdóttir. Hún vann þann titil síðastliðið sumar á HM íslenska hestsins í Hollandi á Kvarða frá Pulu.

„Eitt verkefnið hjá stjórn Spretts er að skoða hvernig við getum bætt aðstöðuna og stuðning við þau sem vilja koma inn í hestamennskuna. Margir krakkar sem finna sig ekki í boltaíþróttum eða hefðbundnu starfi á vegum íþróttafélaga bæjarins finna áhugann með hestunum. Nýliðun er verkefni sem ný stjórn mun leggja áherslu á. Gaman væri að geta tengt þessa uppbyggingu við skólastarfið og jafnvel hafa það sem val í grunnskólum Kópavogs og Garðabæjar. Veita áhugasömum unglinga sem ekki hafa kost á því í dag tækifæri til að sækja í samveru með hestum.“

Jónína segir aðstöðu Spretts við Vatnsenda vel staðsetta. Þar sé gott svigrúm til vaxar og viðgangs. Brýnt sé að styrkja innviði á svæðinu, svo sem að stækka svonefnt félagshesthús og tengja reiðhöll félagsins. Þá sé búið að skipuleggja nýjar lóðir fyrir hesthús á svæðinu og má gera ráð fyrir að hestum fjölgi um 700-1000 næstu misserin. Brýn þörf sé á því að innviðir félagsins séu styrktir í samræmi við fyrirséða fjölgun.

Landsmót og ferðir um Fjallabak

Stóra verkefnið í Spretti nú er annars, segir Jónína, undirbúningur Landsmóts hestamanna sem haldið verður snemma í júlí í Víðidal í Reykjavík. Saman standa Sprettur og hestamannafélagið Fákur í Reykjavík að mótinu, sem margir bíða með eftirvæntingu.

„Sjálf fylgist ég vel með undirbúningi mótsins bæði sem móðir væntanlegra knapa á mótinu, en líka sem formaður. Til dæmis má vænta fjölda fólks frá útlöndum sem hingað kemur til þess að sjá íslenska hestinn og kraftinn í knöpunum. Í sumar mun fjölskyldan svo líka fara í hestaferðir. Við byrjum á sleppitúr og förum þá austur í sveitir þar sem hrossin okkar eru á beit. Svo eru líka hugmyndir um að fara í nokkurra daga hestaferð um Fjallabak og svo annan leiðangur úr Biskupstungum norður Kjöl á Vatnsnes. Þar sleppum við hestunum okkur inn í haustið – í gróna haga og góða beit.“

Hver er hún?

Jónína Björk Vilhjálmsdóttir fæddist í Kópavogi árið 1980 og ólst þar upp. Hún er með meistarapróf í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum og stundaði það nám bæði í Háskóla Íslands og CBS í Kaupmannahöfn.

Er sviðsstjóri þróunar hjá verfræðistofunni Eflu og situr jafnframt í framkvæmdastjórn félagsins. Jónína hefur verið virk í störfum á vegum hestamennskunnar og hlaut á síðasta aðalfundi kjör sem formaður Hestamannafélagsins Spretts.