Barneignir Frjósemi íslenskra kvenna hefur aldrei verið minni en árið 2022 og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður.
Barneignir Frjósemi íslenskra kvenna hefur aldrei verið minni en árið 2022 og eignast konur nú sitt fyrsta barn að jafnaði síðar á ævinni en áður. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Helena Björk Bjarkadóttir Helena@mbl.is Konur á Íslandi virðast vera að eignast færri börn og seinna á lífsleiðinni. Einnig bætist sífellt í hóp þeirra sem eignast engin börn. Um er að ræða svipaða þróun og annars staðar á Norðurlöndum.

Sviðsljós

Helena Björk Bjarkadóttir

Helena@mbl.is

Konur á Íslandi virðast vera að eignast færri börn og seinna á lífsleiðinni. Einnig bætist sífellt í hóp þeirra sem eignast engin börn. Um er að ræða svipaða þróun og annars staðar á Norðurlöndum.

Rannsóknarverkefnið Áhrif stefnumótunar og foreldramenningar á barneignir á Íslandi stóð fyrir málþingi á föstudag þar sem kynntar voru niðurstöður fjölbreyttra rannsókna sem lúta að þróun fæðingartíðni og áhrifum fjölskyldustefnu og foreldramenningar á fjölskyldur á Íslandi.

Sunna Kristín Símonardóttir er ein þriggja sem stýra verkefninu. Hún ræddi við Morgunblaðið um þær niðurstöður sem kynntar voru á málþinginu og mögulegar ástæður fyrir þessum breytingum.

Hún segir það vera markmið verkefnisins að skoða lækkaða fæðingartíðni hér á landi frá mörgum sjónarhornum. Litið var til þess hjá hvaða hópum fæðingartíðni væri að breytast mest og af hverju breytingin gæti stafað, bæði hvort stefnumótun stjórnvalda styðji nægilega vel við barneignir og hvernig breytt viðhorf til foreldrahlutverksins hefur áhrif.

Barneignir forréttindi?

Þegar litið er á fæðingartíðni eftir menntunarstigi og tekjum fólks má sjá að konur með lægra menntunarstig og lægri tekjur eignast fæst börn. Fæðingartíðni háskólamenntaðra og tekjuhærri kvenna hefur aftur á móti haldist stöðug.

Sunna Kristín segir ákveðna mýtu hafa lifað í langa tíð um að fólk með lægri efnahagslega stöðu eignist fleiri börn á meðan fólk í millistétt og efri stéttum sé upptekið við að mennta sig og ná sér í góða vinnu.

Aftur á móti hafa rannsóknir hópsins, og þá sérstaklega Ara Klængs Jónssonar lýðfræðings, sýnt fram á annað. Það séu lægstu tekjuhóparnir sem eru að draga mest úr barneignum á meðan konur í millistétt eru að halda fæðingartíðninni við. Sunna Kristín segir að í kjölfarið vakni spurningar um hvort barneignir séu á færi allra eða hvort það séu orðin forréttindi sumra að eignast börn.

Aukin pressa sem fylgir foreldrahlutverkinu

Spurð hvort fleiri vísbendingar bendi til þess að barneignir séu orðin forréttindi segir Sunna viðhorf til foreldrahlutverksins hafa breyst á síðustu árum. „Það eru miklar áherslur lagðar á að þú þurfir einhvern veginn að vera kominn á góðan stað í lífinu áður en þú eignast börn. Þú þarft að vera á réttum aldri, í rétta sambandinu, kominn með íbúð og allt þetta.“

Þegar þessar hugmyndir eru mjög áberandi upplifir fólk, sem uppfyllir ekki þessar kröfur, eðli málsins samkvæmt að þau hafi ekki það sem þurfi til að fara inn í foreldrahlutverkið. Það helst svo í hendur við aukna pressu sem fylgir foreldrahlutverkinu. Það sé menningarlega búið að skilgreina foreldrahlutverkið sem erfitt, flókið og vandasamt.

„Að auðvelt sé að mistakast, að maður þurfi að vera ofboðslega vel undirbúinn og jafnvel búinn að lesa nýjustu rannsóknir sem lúta að þroska, heilbrigði og matarvenjum barna. Það er alltaf verið að bæta í þennan pakka sem foreldrar, og þá sérstaklega mæður, þurfa að búa yfir,“ segir Sunna og bætir við að þessar breytingar einskorðist ekki við Ísland heldur sé fæðingartíðni alls staðar að lækka þrátt fyrir ólíkt umhverfi þar sem atvinnuþátttaka er ólík, stuðningur við barnafjölskyldur ólíkur og aðstæðurnar mismunandi.

Hún telur því að það hljóti að vera einhver ástæða að baki sem ferðast á milli landa. Það gæti vel verið hvernig foreldrahlutverkið hefur þróast í átt að einhverju sem er skilgreint sem ofboðslega flókið og erfitt.

Fleiri velja barnleysi

Sunna bætir við að sú staðreynd að sífellt fleiri ákveða að eignast ekki börn geti að hluta til einnig útskýrt lægri fæðingartíðni. Hefur þeim fjölgað sem taka meðvitaða ákvörðun um að eignast ekki börn og telur Sunna eina ástæðu fyrir því vera að nú hefur fólk meira rými til þess að taka þessa ákvörðun en áður. „Ef við hugsum 20-30 ár aftur í tímann var gert ráð fyrir því að allir vildu eignast börn og næstum talið óeðlilegt ef fólk vildi það ekki.“

Þá eru einnig margir í hópi þeirra sem valið hafa barnleysi sem telja foreldrahlutverkið, eins og það birtist þeim í dag, vera óspennandi. Þá benda þeir einstaklingar á ójafnréttið sem fylgir hlutverkinu, þar sem búist er við því að mæður axli meiri ábyrgð, séu verkstjórar og sinni hlutunum af meiri ákefð en feðurnir.