Jerúsalem Eldflaugar Írana sjást hér á myndbandi fljúga yfir Al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem í fyrrakvöld.
Jerúsalem Eldflaugar Írana sjást hér á myndbandi fljúga yfir Al-Aqsa-moskuna í Jerúsalem í fyrrakvöld.
Þjóðstjórnin í Ísrael samþykkti í gær hernaðaráætlanir um svar við loftárás Írana á laugardagskvöldið, en klerkastjórnin í Íran skaut þá bæði lang- og meðaldrægum eldflaugum og stýriflaugum á Ísrael, auk þess sem Íranar sendu 185 sjálfseyðingardróna af Shahed-gerð til árása á landið

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Þjóðstjórnin í Ísrael samþykkti í gær hernaðaráætlanir um svar við loftárás Írana á laugardagskvöldið, en klerkastjórnin í Íran skaut þá bæði lang- og meðaldrægum eldflaugum og stýriflaugum á Ísrael, auk þess sem Íranar sendu 185 sjálfseyðingardróna af Shahed-gerð til árása á landið. Er áætlað að Íranar hafi sent rúmlega 350 flugskeyti og dróna til árása á Ísrael, en þetta er í fyrsta sinn sem slík loftárás kemur beint frá Íran.

Flugherir Bandaríkjanna og Bretlands aðstoðuðu Ísraelsmenn við að granda bæði drónum og flugskeytum Írana, auk þess sem franski sjóherinn tók þátt í aðgerðum til að verja lofthelgi Ísraela. Þá skutu Jórdanir niður nokkra af drónunum sem Íranar sendu til Ísraels, en stjórnvöld í Jórdaníu sögðu í gær að það hefði verið gert í sjálfsvarnarskyni.

Loftvarnir Ísraelsmanna náðu með aðstoð þjóðanna fjögurra að granda öllum sjálfseyðingardrónum Írana áður en þeir náðu til skotmarka sinna. Daniel Hagari, varaaðmíráll og talsmaður Ísraelshers, sagði jafnframt að um 99% eldflauganna sem Íranar skutu á landið hefði einnig verið eytt.

„Saman náðum við að hrinda árás Írans,“ sagði Hagari í sjónvarpsávarpi í gærkvöldi og bætti við að þetta væri í fyrsta sinn sem bandalag ríkja af þessu tagi hefði unnið saman gegn ógninni frá Íran og leppum þeirra á Mið-Austurlöndum.

Ísraelsmenn sögðu í gær að þau flugskeyti sem náðu í gegnum loftvarnir Ísraelsmanna og bandamanna þeirra hefðu flest valdið litlum skaða, en ein stúlka særðist í suðurhluta landsins eftir að brak úr einum dróna lenti nærri henni.

Þá sögðu Ísraelsmenn að herstöð í suðurhluta landsins hefði orðið fyrir minniháttar skaða. Munu alls tólf manns hafa særst í heildina að sögn ísraelskra fjölmiðla í gærkvöldi, en ekkert mannfall varð af völdum loftárásarinnar.

Benjamín Netanjahú og þjóðstjórnin í Ísrael höfðu í hyggju að svara árásinni þegar í stað, en Joe Biden Bandaríkjaforseti ræddi við Netanjahú símleiðis og fékk hann ofan af því. Mun Biden hafa sannfært Netanjahú um að hinn litli árangur sem Íranar náðu með árásinni hefði verið varnarsigur og að rétt væri að taka honum sem slíkum.

Ýmsir þjóðarleiðtogar hvöttu Ísraelsmenn sömuleiðis í gær til þess að stilla viðbrögðum sínum í hóf í ljósi þess hversu litlum skaða Íranar hefðu náð að valda, auk þess sem nokkur ótti ríkir um að frekari árásir á milli ríkjanna tveggja gætu leitt til stærra stríðs í Mið-Austurlöndum.

Antonio Guterres, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, sagði í gær á fundi öryggisráðs samtakanna að hvorki heimshlutinn né heimurinn hefði efni á frekari stríðsátökum. „Mið-Austurlönd eru nú á barmi styrjaldar,“ sagði hann og bætti við að nú væri rétti tíminn til að reyna að draga úr spennunni í heimshlutanum.

Utanríkisráðherra Ísraels, Israel Katz, sagði hins í vegar í gær að hann hefði tjáð kollegum sínum í Bretlandi og Frakklandi að Íranar yrðu að gjalda fyrir árásina með einhverjum hætti.