Villa Álftnesingurinn Ragnar Jósef Ragnarsson sækir að Keflvíkingum á Álftanesi í gær en Keflvíkingurinn Urban Oman reynir að verjast honum.
Villa Álftnesingurinn Ragnar Jósef Ragnarsson sækir að Keflvíkingum á Álftanesi í gær en Keflvíkingurinn Urban Oman reynir að verjast honum. — Morgunblaðið/Eggert
Íslandsmeistarar Tindastóls eru með bakið upp við vegg eftir tap gegn Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í gær en leiknum lauk með ellefu stiga sigri Grindavíkur, 99:88

KÖRFUBOLTINN

Bjarni Helgason

bjarnih@mbl.is

Íslandsmeistarar Tindastóls eru með bakið upp við vegg eftir tap gegn Grindavík í öðrum leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik á Sauðárkróki í gær en leiknum lauk með ellefu stiga sigri Grindavíkur, 99:88.

Með sigrinum komst Grindavík í 2:0 í einvígi liðanna en vinna þarf þrjá leiki til þess að tryggja sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins.

Grindvíkingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og skoruðu 31 stig í fyrsta leikhluta gegn 22 stigum Tindastóls. Grindvíkingar héldu uppteknum hætti í öðrum leikhluta þar sem þeir skoruðu 33 stig gegn 19 stigum Tindastóls og Grindavík leiddi með 23 stigum í hálfleik, 64:41.

Sauðkrækingum tókst ekki að laga stöðuna í þriðja leikhluta en tókst þó að halda Grindavík undir 30 stigunum. Staðan að þriðja leikhluta loknum var 88:56, Grindavík í vil.

Sauðkrækingar byrjuðu fjórða leikhluta á ótrúlegan hátt þar sem Tindastóll skoraði fyrstu 19 stig leikhlutans og tókst þannig að minnka muninn í 13 stig. Lengra komust þeir hins vegar ekki og Grindavík fagnaði nokkuð öruggum sigri.

Fyrirliðinn Ólafur Ólafsson átti stórleik fyrir Grindavík og skoraði 24 stig, ásamt því að taka tólf fráköst. Þá skoraði Dedrick Basile 26 stig, tók fjögur fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Callum Lawson var stigahæstur hjá Tindastóli með 19 stig og níu fráköst og Adomas Drungilas skoraði 18 stig, tók níu fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Smáranum í Kópavogi á föstudaginn kemur og getur Grindavík tryggt sér sæti í undanúrslitum Íslandsmótsins með sigri og sópað um leið ríkjandi Íslandsmeisturunum úr leik.

Álftanes svaraði fyrir sig

Haukur Helgi Pálsson átti stórleik fyrir Álftanes þegar liðið jafnaði metin í 1:1 einvígi sínu gegn Keflvík á Álftanesi.

Leiknum lauk með stórsigri Álftaness, 77:56, en Haukur Helgi gerði sér lítið fyrir og skoraði 17 stig, tók 11 fráköst og gaf fimm stoðsendingar.

Álftnesingar byrjuðu leikinn af miklum krafti og leiddu með 11 stigum eftir fyrsta leikhluta, 17:6. Keflavík vann sig ágætlega inn í leikinn í öðrum leikhluta og var Álftanes með átta stiga forskot í hálfleik, 37:29.

Jafnræði var með liðunum í þriðja leikhluta þar sem bæði lið skoruðu 18 stig hvort og var staðan 55:47, Álftanesi í vil, að þriðja leikhluta loknum.

Líkt og í fyrsta leikhluta hrundi leikur Keflavíkur í fjórða leikhluta en liðið skoraði einungis 9 stig gegn 22 stigum Álftaness sem fagnaði öruggum sigri í leikslok.

Norbertas Giga skoraði 14 stig fyrir Álftanes, ásamt því að taka sjö fráköst, og Dino Stipcic skoraði einnig 14 stig og tók sex fráköst.

Remy Martin var stigahæstur hjá Keflavík með 17 stig, sex fráköst og þrjár stoðsendingar og Marek Dolezaj skoraði 9 stig, tók átta fráköst og gaf eina stoðsendingu.

Þriðji leikur liðanna fer fram í Keflavík á föstudaginn kemur.