Kodjo E. Mensah-Abrampa
Kodjo E. Mensah-Abrampa
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Um allan heim eru miklir möguleikar til að bera kennsl á og forgangsraða þeirri stefnu sem myndi skila mestum áhrifum fyrir hverja krónu.

Kodjo E. Mensah-Abrampa, Thomas Chataghalala Munthali, Bjørn Lomborg

Sérhverri þjóð í heiminum mætir fjöldi viðfangsefna, áskorana og ólíkra sjónarmiða og óska um framtíðina. Í fullkomnum heimi myndum við vilja taka á öllu en takmörkuð úrræði og fjárhagsleg geta þvinga raunheiminn til að forgangsraða.

Að segja að sumt verði að gera fyrst er umdeilt af því að augljóslega verður ýmislegt annað þá ekki fyrst. Þess vegna forðast margir stjórnmálamenn skýra forgangsröðun og vilja frekar láta líta út fyrir að þeir geti sannarlega reynt að gera allt.

Á heimsvísu hefur þessi nálgun verið greypt í svokölluð sjálfbær þróunarmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Þetta eru loforð sem hvert einasta land hefur undirritað um að ljúka bókstaflega öllu því góða sem hægt er að hugsa sér fyrir árið 2030. Í 169 hátimbruðum markmiðum hefur heiminum verið lofað að útrýma sárri fátækt og hungri, binda enda á alnæmi, berkla og malaríu, stöðva stríð, loftslagsbreytingar og spillingu, bæta menntun og heilsugæslu, bjarga fjölbreytileika lífríkisins, draga úr ójöfnuði, veita öllum atvinnu og jafnvel stuðla að sjálfbærri ferðaþjónustu og gera almenningsgarða og opin svæði hvar sem er í heiminum öllum jafn aðgengileg. Sérstaklega konum, börnum, eldri borgurum og hreyfihömluðum.

Af því að ekki hefur tekist að forgangsraða markmiðum hefur peningum verið dreift þunnt af þróunarsamtökum, styrktaraðilum og stjórnvöldum á öllum sviðum. Þar af leiðandi mistekst heiminum að standa við nokkurt einasta af öllum sínum loforðum.

Sem betur fer eru fleiri og fleiri stjórnvöld og stofnanir um allan heim að einbeita sér að því sem myndi raunverulega gera gagn úr öllum loforðalistanum.

Við höfum unnið með hugveitunni Copenhagen Consensus og mörgum af fremstu hagfræðingum heims til að spyrja hvað það væri í öllum aragrúa loforða heimsins sem gæti skilað mestum árangri. Ritrýndar niðurstöður okkar eru fáanlegar ókeypis og þær má einnig lesa í bókinni „Best Things First“. Þær veita vegvísi fyrir 12 snjöllustu leiðirnar og frumkvæðin fyrir stjórnmálamenn um allan heim.

Ein allra áhrifaríkasta lausnin er að bæta grunnskólanám með notkun spjaldtölva með aðlöguðum fræðsluhugbúnaði í eina klukkustund á dag. Þetta gerir það að verkum að hver nemandi lærir mun hraðar því spjaldtölvan kennir á nákvæmlega því stigi sem er aðlagað að nemandanum.

Þegar við unnum með skipulagsnefnd Malaví bentu hagfræðingar á þessa nálgun sem eina af álitlegustu aðgerðunum til að skila árangri. Þrátt fyrir að fjármagn væri af skornum skammti sýndu rannsóknirnar að hver króna sem varið yrði í að kenna nemendunum betur með spjaldtölvum myndi líklega skila 106 krónum til baka í aukinni framleiðni til lengri tíma litið. Þetta er ein af ástæðunum fyrir því að ríkisstjórnin ákvað að beina umtalsverðum fjármunum til þessarar tilraunar. Malaví hefur þegar veitt tæplega hálfri milljón barna aðgengi að fræðsluspjaldtölvum og markmiðið er að koma aðlöguðu námsefni á spjaldtölvum til allra þriggja og hálfrar milljónar barna í fyrstu fjórum bekkjum á þessum áratug.

Spjaldtölvur eru ekki eina leiðin. Indland hefur tekið upp ódýrari lágtæknilausn þar sem skólar stokka upp kennslustundir nemenda í eina klukkustund á dag þannig að allir nemendur fara í þann bekk sem er á raunverulegu getustigi þeirra. Þetta getur leitt til óþægilegra félagslegra samskipta milli barna á mismunandi aldri en vegna þess að það þarf ekki nýja tækni er það miklu ódýrara. Sýnt hefur verið fram á að eitt ár af þessari nálgun geti jafngilt tveggja ára venjulegri skólagöngu.

Kennsla nemenda á þeirra eigin getustigi er ótrúlega áhrifarík og nær sífellt meiri athygli. Til dæmis er Kólumbía að prófa þessa nálgun sem er hönnuð til að bæta læsi í lágtekjusamfélögum og skólum í dreifbýli.

Að færa skrifræði stjórnvalda út á netið skilar einnig gífurlega bættum afköstum og skilvirkni. Þegar unnið var með landsskipulagsnefndinni í Gana sýndu rannsóknir mátt stafrænnar væðingar til að hagræða skrifræði og stytta biðtíma og óvissu fyrir borgarana. Sveitarstjórnir Gana bera ábyrgð á innviðum og þjónustu en eru enn háðar ríkisstuðningi til að fjármagna innviðaþróun sína og standa sjálfar einungis undir um 20% af heildarfjárþörf. Sérsniðin stafræn stjórnsýsla og innheimta hefur möguleika á að bæta sjálfstæði þeirra. Stafræn umsýsla gjalda á eignir og fyrirtæki getur gert skattheimtu mun skilvirkari og það mun hjálpa sveitarfélögum að veita íbúum sem besta þjónustu. Með því að reikna út bæði kostnaðinn og þann tíma og peninga sem sparast við þessi inngrip ávaxtar hver króna sig næstum nífalt.

Önnur lönd setja einnig stafræna væðingu í forgang, til dæmis með því að setja öll innkaup sín í rafræn innkaupakerfi. Þar sem stjórnvöld eru oft stærsti kaupandinn í landinu og innkaup eru oft mjög spillt geta gagnsærri viðskipti skilað minni spillingu og meira virði fyrir peninga skattgreiðenda. Brasilía hefur færst yfir í rafrænt innkaupakerfi sem hefur verið viðurkennt fyrir að draga úr tapi vegna mútugreiðslna og umbætur Indónesíu hafa leitt til „verulegrar minnkunar“ á spillingu. Rafræn innkaup voru nýlega innleidd í Gana og eru í gangi í Malaví.

Um allan heim eru miklir möguleikar til að bera kennsl á og forgangsraða þeirri stefnu sem myndi skila mestum áhrifum fyrir hverja krónu. Í stað þess að þykjast ætla að ná öllu fyrir alla með því að lofa öllu góðu þurfum við að skipta yfir í skarpari, snjallari áherslur. Við getum ekki gert allt svo við ættum að byrja á þeim stefnum og aðgerðum sem myndu skila mestum framförum fyrir peninginn.

Kodjo E. Mensah-Abrampa er framkvæmdastjóri þróunarskipulagsnefndar Gana, Thomas Chataghalala Munthali er framkvæmdastjóri skipulagsnefndar Malaví og Bjorn Lomborg er forseti hugveitunnar Copenhagen Consensus.