Fjölhæfur Dansarinn og tónlistarmaðurinn Torfi lenti í öðru sæti á Músíktilraunum 2023.
Fjölhæfur Dansarinn og tónlistarmaðurinn Torfi lenti í öðru sæti á Músíktilraunum 2023. — Ljósmynd/Sunna Ben
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Tónlistarmaðurinn Torfi Tómas­son, eða einfaldlega TORFI, semur tilraunakennda popptónlist og leitar innblásturs víða. Hann kemur fram á áttundu tónleikum tónleikaraðarinnar Upprásarinnar sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

Tónlistarmaðurinn Torfi Tómas­son, eða einfaldlega TORFI, semur tilraunakennda popptónlist og leitar innblásturs víða. Hann kemur fram á áttundu tónleikum tónleikaraðarinnar Upprásarinnar sem tileinkuð er grasrót íslenskrar tónlistar, þvert á tónlistarstefnur, og tónlistarhúsið Harpa, í samstarfi við Tónlistarborgina Reykjavík og Rás 2, stendur fyrir. Hljómsveitirnar Sucks to be you, Nigel og The Post Performance Blues Band koma einnig fram á tónleikunum sem haldnir verða í Kaldalóni í kvöld kl. 20.

„Tónlistin mín er dansskotin og ég stekk svolítið á milli tónlistarstefna,“ segir hann og nefnir sem dæmi euro-popp, tónlist innblásna af ballroom-senunni og lágstemmdari R&B-tónlist. „Þetta er hræringur af mismunandi tónlist.“

Fyrsta plata Torfa er væntanleg á sumardaginn fyrsta, 25. apríl, og ber hún titilinn Eitt.

Hinseginleiki er alltumlykjandi í tónlist Torfa. „Á yfirborðinu hefur það mikið að gera með tónlistarstefnurnar. Svo vil ég alltaf hafa einhvern undirliggjandi hinseginþráð í tónlistinni minni, sem kemur fram í því hvaða persónufornöfn ég nota og hvaða upplifanir ég tala um. Það er mikilvægt fyrir mig því mér finnst ég ekki heyra þetta nógu mikið í íslenskri tónlist og lagatextum.“

Spurður hvað veiti honum innblástur nefnir Torfi að hann líti upp til tónlistarkonunnar FKA twigs. Hún sameinar tónlist og dans í sviðsframkomu sinni og það gerir Torfi líka. „Svo er ég auðvitað í dansnámi og horfi á mikið af dansverkum og finnst þau geta verið mjög inspírerandi fyrir tónlist og sviðsframkomu á tónleikum.“

Sameinar tónlist og dans

Torfi stundar nám á alþjóðlegri samtímadansbraut við Listaháskóla Íslands. „Það er að miklu leyti danshöfundanám og nám í gjörningalist í stærra samhengi. Mér finnst námið gefa mér mjög mikið í tónlistina og öfugt. Ég veit ekki hvort allir kennararnir mínir eru sammála en mér finnst þetta haldast í hendur. Þetta eru ólíkar birtingarmyndir á sama hlutnum. Þetta er náttúruleg framlenging af mér og ég held að þetta hafi ómeðvitað áhrif hvort á annað. Ég sem tónlist sem er auðvelt fyrir mig að dansa við og öfugt,“ segir hann.

„En að vera í þessu námi gerir það að verkum að allt með tónlistina tekur miklu lengri tíma. Ég er að gera þetta í mínum takmarkaða frítíma svo maður verður kannski að þjálfa með sér ákveðna þolinmæði.“

Torfi tók þátt í Músíktilraunum í fyrra en þar segist hann hafa fundið góðan vettvang til að prófa sig áfram. „Ég fékk tækifæri þarna til að prófa að setja þetta allt saman, dansinn og tónlistina sem ég var búinn að vera að semja. Þetta var í fyrsta skipti sem ég reyndi virkilega að sameina þetta tvennt. Svo lenti ég í öðru sæti og það var náttúrlega bara frábært. Og þá fór einhver bolti að rúlla.“

Torfi segir að sér lítist vel á að koma fram með hljómsveitunum tveimur í kvöld. Sucks to be you, Nigel er skv. kynningartexta pönksprottin hávaðarokkhljómsveit. „Tónlistin fer frá því að vera létt stuðpönk með stemningu í fararbroddi og yfir í að gjörsamlega æra hlustendur með öskrum söngkonu sem og gítara hljómsveitarinnar í sannkallaðri hávaðasúpu,“ segir þar um sveitina. The Post Performance Blues Band (The PPBB) leikur hins vegar „blúsaða elektróníska pönktónlist á töframörkum óreiðu og vissu. The PPBB horfir í augu viðstaddra og býður þeim inn í ruglaða og brothætta glamúrmaskínu.“

Það vill þannig til að Ernir Ómarsson, einn meðlima Sucks to be you, Nigel, er vinur Torfa. „Við höfum verið að vinna saman að því að gera vídeó fyrir tónlistina mína. Hann er ótrúlega hæfileikaríkur kvikmyndagerðarmaður. Svo er Saga Sigurðardóttir, sem er í The Post Performance Blues Band, að kenna mér í LHÍ þannig að það eru skemmtilegar tengingar í báðar hljómsveitirnar. Svo þetta verður bara gaman.“